27. mars 2025
Farið yfir atburði viðburðaríks árs

Kári Sigurðsson formaður í pontu á aðalfundi Sameyki 2025 sem fram fór á Grand hótel Reykjavík 27. mars.
Aðalfundur Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu fór fram á Grand hótel Reykjavík í dag, 27. mars. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf, en fundarstjórn annaðist Gísli Hall lögmaður. Fundurinn fór fram bæði í sal og með rafrænum hætti til að gefa sem flestum kost á að fylgjast með og taka þátt í atkvæðagreiðslu.
Kári Sigurðsson formaður flutti skýrslu stjórnar og fór yfir verkefni félagsins. Hann sagði síðasta ár hafa verið afar viðburðaríkt og nokkra áskorun, enda allir samningar lausir. „Það fór því mikil vinna á árinu í samningaviðræður og samningagerð. Ekki verður annað sagt en að nokkuð vel hafi gengið að semja. Nú eru allir kjarasamningar hjá Sameyki í gildi en sá síðasti var kláraður í lok febrúar á þessu ári,“ sagði hann.
Formaður Sameykis svarar fyrirspurnum á aðalfundi félagsins.
Jafnframt fór Kári yfir þær breytingar sem orðið hafa á skipan stjórnar frá síðasta aðalfundi í mars 2023 og aðdraganda þess að gert var samkomulag um starfslok við Þórarin Eyfjörð sem lét af starfi formanns í október í fyrra. Var það vegna ágreinings milli formanns og stjórnar um áherslur og stefnu í verkefnum félagsins. Þakkaði hann Þórarni störf hans í þágu félagsins. Kári tók við formennsku í byrjun árs af Ingibjörgu Sif Sigríðardóttur, sem gegnt hafði starfinu í um þriggja mánaða skeið.
Í ræðu sinni upplýsti Kári jafnframt að verkefni væru næg fram undan, en til dæmis stæði til að auka gagnsæi um störf stjórnar og bæta innri samskipti félagsins, svo sem með birtingu fundargerða stjórnar og aukinni áherslu á upplýsingagjöf og samskipti við trúnaðarmenn félagsins. Þá kom fram að í smíðum væri ný heimasíða Sameykis, en stefnt væri að því að hún yrði tekin í gagnið í lok árs.
„En síðast en ekki síst ætlum við að halda áfram að vinna ötullega og af heilindum að því sem mestu máli skiptir — réttindum, kjörum og velferð félagsmanna,“ sagði Kári og bætti við að Sameyki stæði á sterkum grunni. „Og með samstöðu, virðingu og ábyrgð að leiðarljósi höldum við áfram að byggja upp öflugt félag sem stendur með sínum félagsmönnum — í kjarabaráttu, réttindamálum og í daglegu lífi.“
Borghildur Sigurðardóttir fjármálastjóri Sameykis, fór yfir reikninga félagsins og í kjölfarið fór fram umræða um þá og um starfsemi félagsins. Reikningar voru svo samþykktir með nærri 87 prósentum atkvæða.
Á fundinum sagði Þórarinn Eyfjörð jafnframt formlega af sér formennsku og hélt dálitla tölu af því tilefni. Hann leit í orðum sínum til þess árangurs sem náðst hefur í verkalýðsbaráttunni síðustu áratugi og þeirra verkefna sem hæst hafa borið síðustu ár. „Ég óska Sameyki og öllum öðrum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði hann að lokum.

Gunnsteinn R. Ómarsson skrifstofustjóri kynnir rekstur og fjárhagsáætlun félagsins.
Eftir umræðu og kosningu um breytingar á lögum félagsins fór Gunnsteinn R. Ómarsson skrifstofustjóri Sameykis yfir fjárhagsáætlun félagsins og horfur í rekstrinum. Sagði hann vilja standa til þess að styrkja starfsmannahópinn til að tryggja áframhaldandi góða þjónustu við félagsfólk, sér í lagi á kjaradeild og vegna nýrrar heimasíðu sem væri í smíðum.
Þá væri í gangi áframhaldandi uppbygging tengd orlofshúsum félagsins, bæði á Úlfljótsvatni og í Vaðnesi, auk þess sem fyrir dyrum stæðu kaup á tveimur íbúðum á Akureyri, en á móti yrðu líka seldar fasteignir þar.
Fundurinn samþykkti einnig breytingu á félagsgjaldi sem 1. maí næstkomandi fer úr 1,1 prósenti í 1,0 prósent og skiptist þannig að 0,87 prósent renna til Félagssjóðs, en gjald til vinnudeilusjóðs verður 0,13 prósent.