1. apríl 2025
Ályktanir aðalfundar Sameykis 2025

Aðalfundur Sameykis fór fram á Grand hótel Reykjavík 27. mars sl.
Á aðalfundi Sameykis 27. mars 2025 samþykkti fundurinn fjórar ályktanir sem snúa að leiðréttingu á vanmati á kvennastörfum, hvernig hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar veikja réttindi opinbers starfsfólks og geta haft skaðleg hliðaráhrif. Eins var ályktað gegn breytingum sem skerða verkfallsrétt verkalýðsfélaganna.
Ályktanirnar fundarins eru eftirfarandi:
Ályktun 1
Löngu tímabær leiðrétting á kerfisbundnu vanmati á kvennastörfum

Sameyki lýsir yfir stuðningi við baráttu BSRB og Kvennaárs 2025 þess efnis að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum. Samkvæmt BSRB og Kvennaári eru atvinnutekjur kvenna á Íslandi enn um 21% lægri en karla og er helsta ástæða launamunar kynjanna kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Stjórnvöld þurfa að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og tryggja virkt eftirlit með kynbundnum launamun.
Ályktun 2
Hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar miða
að því að veikja réttindi opinbers starfsfólks
Sameyki hafnar þeim hagræðingartillögum ríkisstjórnarinnar að fella á brott ákvæði í lögum um að áminna þurfi opinbera starfsmenn áður en til uppsagnar kemur. Reglur um áminningarferli opinberra starfsmanna má finna bæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga. Samkvæmt lögum gilda engar sérreglur á opinberum vinnumarkaði aðrar en þær sem eiga við um uppsagnir starfsfólks vegna skipulagsbreytinga. Almennt gildir að ef uppsögnin er ekki liður í skipulagsaðgerðum þarf fyrst að áminna starfsmanninn og gefa viðkomandi kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kemur. Um er að ræða réttindi sem opinberir starfsmenn hafa náð fram með þrotlausri baráttu og eru tryggð bæði í kjarasamningum og í lögum frá Alþingi.
Ályktun 3
Aðförin að verkfallsrétti verkalýðsfélaga er afturhvarf til fortíðar

Sameyki hafnar þeim hagræðingartillögum ríkisstjórnarinnar sem snúa að því að efla valdheimildir ríkissáttasemjara til að grípa inn í vinnudeilur. Ljóst má þykja að ætlunin sé að skerða verkfallsrétt verkalýðsfélaganna í landinu. Sameyki lítur svo á að það lýðræði sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp sé í samræmi við alþjóðasamninga, að félagsfólkið sjálft greiði atkvæði um hvort farið verði í verkfall til að knýja fram kröfur sínar. Það er lykilatriði á vinnumarkaði að launafólk semji um kaup og kjör á eigin forsendum og í virku samtali við atvinnurekendur. Engin ein manneskja eða embætti á vegum ríkisins á að geta gripið inn í það og þar með komið í veg fyrir verkalýðsbaráttu. Það er hluti lýðræðis að launafólk geti hafið verkfall og ríkisstjórn landsins ætti frekar að styðja þau réttindi og leiðir sem til þess eru farnar af sömu virðingu og verkalýðshreyfingin.
Ályktun 4
Hugmyndir um niðurskurð í opinberum rekstri geta verið varasamar

Skorað er á stjórnvöld að fara varlega í innleiðingu hagræðingartillagna í opinberum rekstri. Niðurskurður í opinberum rekstri hefur sérstaklega neikvæð áhrif á konur, sem eru mikill meirihluti starfsfólks á opinbera vinnumarkaðnum. Viðvarandi niðurskurðar- og aðhaldskröfur hafa veikt opinbera þjónustu. Starfsaðstæður eru víða erfiðar vegna manneklu og skorts á fjárfestingu í húsnæði, viðeigandi búnaði og tækjum. Þá eru viðvarandi niðurskurðarkröfur rót félagslegs óstöðugleika og til þess fallnar að veikja velferðarkerfið. Sameyki minnir stjórnvöld á að eitt af meginverkefnum ríkis og sveitarfélaga er að halda uppi öflugu velferðarkerfi. Öflugt velferðarkerfi tryggir örugga framfærslu, framúrskarandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun og jafnrétti óháð búsetu og efnahag. Það öfluga velferðarkerfi sem við höfum byggt upp og sú þjónusta sem hið opinbera er skuldbundið til að veita almenningi er mikilvæg fyrir framfarir samfélagsins og hagsæld til lengri tíma.
Myndir tók Birgir Ísleifur Gunnarsson.