Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. desember 2020

Stytting vinnuvikunnar eykur lífsgæðin

Ásgrímur Jörundsson, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ.

„Næst mér er heilbrigðisstarfsfólk sem er að vinna með þeim sem hafa orðið undir í samfélaginu, eða eru á stofnunum vegna annarra veikinda, og aldrað fólk. Þessi störf eru ekki vel launuð, það verður að segjast, og þetta heilbrigðisstarfsfólk hefur alltaf setið eftir að einhverju leiti.“

Eftir Axel Jón Ellenarson.

Ásgrímur Jörundsson, áfengis- og vímuefnaáðgjafi var heimsóttur í hesthúsið sitt einn notalegan eftirmiðdag og ræddi hann um störf sín fyrir Sameyki í gegnum tíðina, styttingu vinnuvikunnar og störf hans sem heilbrigðisstarfsmanns hjá SÁÁ.

Ásgrímur eyðir flestum sínum frístundum með fjölskyldunni, eiginkonu og börnum í kringum hestana á vetrum í hesthúsahverfinu Fjárborg og austur í Landeyjum á sumrum. Við settumst niður á kaffistofunni, með andlitsgrímur og spjölluðum um störf hans fyrir stéttarfélagið.


Fékk nýja sýn
Spurður störf sín fyrir Sameyki segir Ásgrímur þau hafa verið skemmtileg og gefandi, en líka krefjandi. „Ég er formaður kjararáðs hjá Félagi áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hóf þannig störf fyrir Sameyki en einnig hef ég líka verið áheyrnarfulltrúi í fulltrúaráði og tekið þátt í samningagerð. Nú er ég í samninganefndinni sem sér um samninga við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, og í þeirri vinnu fékk ég nýja sýn á stéttarfélagið Sameyki. Mér finnst samskiptin nú betri en þau voru áður, upplýsingar eru aðgengilegri hjá Sameyki heldur en gamla SFR vil ég segja, og ég tala fyrir hópi heilbrigðisstarfsmanna okkar vinnustaðar,“ segir hann.

„Í síðustu samningagerð sem ég tók þátt í, áttaði ég mig enn betur en áður á því hvernig starf formannsins er háttað. Hann var til staðar þegar á þurfti að halda í samningagerðinni, var vel inn í málum og fann ég hve mikilvægur hann er þessu stéttarfélagi. Eins er alltaf gott að leita til framkvæmdasstjórans því hann er hafsjór upplýsinga. Ég vil bara hrósa forystunni allri. Ég er mjög glaður með mitt stéttarfélag og baráttuanda forystunnar fyrir betri kjörum heilbrigðisstarfsmanna, sem eru oft á lægstu laununum í okkar samfélagi en sinna jafnframt þeim mikilvægustu; þeim gömlu og þeim veiku. Þetta sá ég vel á fundum með forystunni og ríkissáttasemjara,“ svo ég haldi því til haga segir Ásgrímur.


Mikil framför fyrir félagsmenn
Spurður um styttingu vinnuvikunnar og hvort vinnustaðurinn sem hann starfar á klári innleiðinguna fyrir áramót, segist Ásgrímur vongóður um að klára innleiðinguna fyrir tímamörkin um áramótin og verkefnið sé mikil framför og kjarabót fyrir félagsmenn.

„Það er svolítið skrýtið að horfa á myndbönd, þar sem má skilja sem svo, að vinnuveitendur hafi fundið þetta upp, en raunin er sú að stéttarfélagið er búið að berjast lengi fyrir þessu, og þetta hafðist í gegn til heilla fyrir félagsmenn og ég er mjög ánægður með það. Ef erfiðlega gengur að ná að klára innleiðingu styttingu vinnuvikunnar hjá okkur þá munum við hafa samband við félagið og fá hjálp til þess. Hópurinn innan SÁÁ skilur verkefnið vel, samtökin sjálf eru jákvæð fyrir þessu, en það getur orðið flækjustig þegar kemur að vaktavinnunni. Stór hluti okkar fólks vinnur vaktavinnu en ég heyri ekki annað en að þetta muni leysast farsællega.

Stytting vinnuvikunnar eru ekki bara tölur í exelskjali. Þetta horfir þannig við mér, og kjarabótin er sú, að með styttingu vinnuvikunnar um fjórar klukkustundir, er einfaldlega meiri tími sem fólk getur notið með fjölskyldunni sinni, í áhugamál og önnur hugðarefni sín. Þetta mun auka lífsgæði félagsmanna,“ bætir Ásgrímur við.


Baráttan fyrir þá lægst launuðu
„Næst mér er heilbrigðisstarfsfólk sem er að vinna með þeim sem hafa orðið undir í samfélaginu, eða eru á stofnunum vegna annarra veikinda, og aldrað fólk. Þessi störf eru ekki vel launuð, það verður að segjast, og þetta heilbrigðisstarfsfólk hefur alltaf setið eftir að einhverju leiti. Eins og ég sagði áðan þá er samningsaðili okkar, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og semur við Sameyki fyrir hönd SÁÁ. Maður sér glögglega þegar launakjör eru borin saman hvað margir sitja eftir. Mesta baráttan er alltaf fyrir þá sem lægst hafa launin, maður sér það. Við gerum ekkert án stéttarfélags held ég,“ segir Ásgrímur.

Spurður um hvernig starf áfengisráðgjafans sé um hátíðarnar á tímum farsóttarinnar, segir Ásgrímur að þau séu eins að flestu leiti, líkt og aðra daga, því fólk eigi rétt á þjónustunni og hana verði að veita þó jól og áramót komi.

„Við hjá SÁÁ erum heilbrigðisstarfsmenn og meðferðin er rekin allt árið en COVID-19 faraldurinn hefur haft sín áhrif. Farið er eftir sóttvarnarlögum sem sóttvarnarlæknir hefur sett, auðvitað. Yfirlæknir okkar á sjúkrahúsinu hefur tekið mjög vel á þessum málum á tímum faraldursins og aðeins eitt smit hefur komið upp hjá okkur síðan farsóttin hófst. Fólkið á rétt á þeirri þjónustu sem SÁÁ veitir, fræðslu og hópavinnu allt árið, og ekki er neitt slakað á þó jólin komi“, segir Ásgrímur að lokum.