13. apríl 2021
Sókn er besta vörnin
Garðar Hilmarsson.
„Það að kerfið væri kynhlutlaust þýddi meðal annars að kynbundinn launamunur minnkaði hvað varðaði laun byggða á starfsmatinu. Hafandi sagt það þá segi ég nú að starfsmati er aldrei lokið, það þarfnast sífelldrar endurskoðunar.“
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Garðar Hilmarsson fráfarandi varaformaður Sameykis, og fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, hætti sem varaformaður á síðasta aðalfundi félagsins. Garðar er giftur Sigríði Benediktsdóttur og saman eiga þau þrjár uppkomnar dætur, Helgu Björgu, Lindu og Benediktu sem búa á Íslandi og Svíþjóð. Barnabörnin eru átta. Fjölskyldan á lítið afdrep vestur í Dölum þar sem þau reyna að dvelja í frítíma sínum. Hann vonar að það sjái fyrir endann á kóvinu svo hægt verði að ferðast aðeins á milli barna og barnabarna og hella sér í golfið af meiri krafti en áður. Garðar segir að hann hafi alltaf verið í því að verja réttindi félaganna og viljað sækja fram kjör með varnartaktíkinni og stundum er sókn besta vörnin. Sækja fast fram ásamt því að verja fengin réttindi.
Grunnurinn er starf trúnaðarmannsins
Hvernig byrjaði þetta félagsmálabrölt allt saman hjá Garðari? „Ég lærði prentiðn í upphafi áttunda áratugarins. Þar þekktist harka í stéttarfélagsbaráttunni og eiginlega regla að fara einu sinni á ári í verkfall. Ég tók þátt í sex vikna verkfalli vorið 1974 þannig að ég var ágætlega undirbúinn fyrir stéttafélagsbaráttuna. Ég vann við þessa iðn í eitt ár eftir að ég lauk náminu og þá ákvað ég að prentiðn væri ekki fyrir mig. Réði ég mig því þann 1. desember árið 1974 til Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar, Skýrr. Þar starfaði ég í 24 ár, byrjaði sem tölvari eða operator eins og það hét þá, á vöktum við að keyra vélarnar og síðan við undirbúning verkefna fyrir tölvuvinnslu. Svo fór ég í nám á vegum Skýrr í kerfisfræði og vann sem kerfisfræðingur og síðan við greiningu og hönnun tölvukerfa. Ég var ekki búinn að vera þarna nema í svona eitt ár eða svo þegar ég var beðinn að gefa kost á mér sem trúnaðarmaður. Ég gerði það. Tvisvar sinnum, í tvö ár í senn. Ég tók því þátt í fyrsta verkfalli opinberra starfsmanna 1977 og var í verkfallsnefnd, kannski vegna reynslu minnar úr átökum, en starfsmenn Skýrr voru í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar (St.Rv.). Eftir það tók ég mér hlé frá þessum störfum en var svo beðinn um að gefa aftur kost á mér sem trúnaðarmaður. Síðan þá hef ég alla tíð starfað í stéttarfélagsbaráttu. Nú er langur tími liðinn.“
Félög utan bandalaga eiga erfitt uppdráttar
„Þegar ég var búinn að starfa hjá Skýrr í um 22 ár var það einkavætt árið 1996. Á þeim tíma var ég orðinn hálfgert félagsmálatröll. Var aðal trúnaðarmaðurinn á vinnustaðnum og svo var ég formaður starfsmannafélags Skýrr og sat m.a. í stjórn sem fulltrúi starfsmanna. Ég var því alls staðar því þegar forráðamenn áttu samtalið við trúnaðarmann eða formann starfsmannafélagsins þá töluðu þeir alltaf við sama manninn. Við einkavæðinguna var spurning um hvað við starfsmennirnir ættum að gera varðandi stéttarfélagsaðild, hvort við ættum að stofna sérstakt félag, vera áfram innan St.Rv. og BSRB eða ganga í VR. Ég var ekki í vafa um hvað ég vildi og eftir könnun meðal starfsmanna þá var það niðurstaðan að við vildum vera áfram í St.Rv. Það vildi svo til að borgin hafði tveimur árum fyrr breytt strætó (SVR) í hlutafélag sem síðan var afturkallað. Við því hafði St.Rv. brugðist með því að stofna B-hluta félagsins sem gæti hýst félaga sem störfuðu í fyrirtækjum sem ekki væru undir lögum um opinbera starfsmenn. þannig varð til A hluti og svo B hluti. Þá varð ég formaður B hlutans og var líka formaður samninganefndarinnar í kjölfarið. Ég var ánægður með að starfsmenn völdu að vera í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og þar af leiðandi innan BSRB en ekki utan. Ég hef oft séð það að félög sem standa utan bandalaga eiga erfitt uppdráttar í réttinda- og kjarabaráttu og ég tala ekki um þegar það er stofnað innan eins fyrirtækis, því þá verður nándin við vinnuveitandann of mikil. Það gerir alla stéttafélagsbaráttu veika, ef ekki vonlausa, því þeir sem standa í forsvari þurfa að geta tekið á vinnuveitandanum og svo starfað með honum daginn eftir og vera metinn af honum til framgangs í starfi. Það gengur ekki upp.“
Límið þarf að halda
„Ég kom síðan til starfa hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar sem framkvæmdastjóri kjarasviðs 1998 og sinnti áfram formennsku B hlutans. Árið 2006 tók ég við sem formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og síðar sem varaformaður Sameykis. Það var ákveðið að sameina stjórnir og nefndir fyrstu tvö árin, því markmiðið var og er að þessi tvö félög verði eitt stórt og sterkt félag þar sem allir félagsmenn væru metnir jafnir svo að heildin sé sterk. Við erum á þeirri siglingu núna og ég hef mikla trú á að það takist vel. Það er mikilvægt að ná því stigi að límið haldi. Að þetta sterka félag sem nú er orðið að veruleika verði enn stærra og sterkara.“
Starfsmatið mikilvægt
Þegar Garðar er spurður um hvað standi upp úr þá svarar hann því til að það sé ekki eitthvað eitt en vildi þó nefna starfsmatið sem þeir sömdu um við borgina 2001 og átti að taka gildi í lok ársins 2002.
„Þetta voru tímamót og sérstaklega tekið fram að starfsmatið væri kynhlutlaust og markmiðið var: Eitt þróað starfsmatskerfi til að meta öll störf á vegum Reykjavíkurborgar á sambærilegan hátt af einum samræmingaraðila. Með þessu átti að leiðrétta launamun til starfslauna á grundvelli matskerfisins í áföngum og hlúa þannig sérstaklega að þeim störfum sem einungis er sinnt í almannaþjónustu sveitarfélaga. Þessu fylgdu launapottar sem áttu að fjármagna þessar breytingar en reyndin varð sú að þetta kostaði meira og í raun kláraðist verkefnið ekki fyrr en með kjarasamningunum 2005.“
„Það að kerfið væri kynhlutlaust þýddi meðal annars að kynbundinn launamunur minnkaði hvað varðaði laun byggða á starfsmatinu. Hafandi sagt það þá segi ég nú að starfsmati er aldrei lokið, það þarfnast sífelldrar endurskoðunar. Störf breytast og það að reyna að setja huglæga hluti í hlutlægt mat þarfnast sífelldrar skoðunar eins og t.d. þegar útbúnar eru leiðbeiningar, er þá horft á það með kynjagleraugum?
Einnig stendur upp úr tímabilið eftir hrunið 2008 þar sem endalaust voru gerðir stuttir kjarasamningar þar sem krónutöluhækkunum var beitt og þá reyndi á hærra launaða félagsmenn og millitekju hópa sem þó voru ekki ofaldir í launum. Allt þetta var gert til að vernda störf. Því má segja að varnarbaráttan hafi verið stefið á þessum tíma,“ segir Garðar.
Stytting vinnuvikunnar
„Stærsta breytingin á eftir leiðréttingu á kynbundnum launamun hjá borginni er stytting vinnuvikunnar. Þar er verk að vinna. Það mun taka tíma og þeirri vinnu er engan veginn lokið þannig að styttingin virki eins og til var ætlast. Eitt er til dæmis ljóst að með styttingu hjá dagvinnufólki, þar sem hlutirnir mega ekki kosta neitt, þá er það í mínum huga þannig að styttingin mun kosta krónu í dag sem fæst ekki til baka fyrr en á morgun. Það má ekki hugsa kostnaðarmatið of þröngt þannig að fólk sjái ekki skóginn fyrir trjánum, því þá mun breytingin ekki skila sér í betri störfum, glaðari starfsmanni og minna álagi á heilbrigðis- og velferðarkerfið. Það þarf að ríkja réttlæti. Við eigum ekki að gefa neitt eftir á þessu á sviði kjarabóta og réttinda. Síðan er það stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki sem á komast í gagnið 1. maí n.k. Hún þarfnast skoðunar og endurskoðunar og ég yrði ekki hissa þótt það þurfi næstu kjarasamninga til að ganga frá málinu. En markmiðið er 36 stunda vinnuvika að lágmarki og allt að 32 stundum.
Tilraunaverkefnið sem kom til framkvæmda hjá Reykjavíkurborg og ríkinu sýndi meiri ánægju og minni veikindi starfsmanna. Það var verkefni sem byrjaði hjá Reykjavíkurborg 2015 og ríkinu 2017 þannig að ljóst er það þarf þolimæði til að ná fram settum kröfum eins og sést best á því að það eru yfir 10 ár frá því krafan kom fyrst fram um styttingu, bæði hjá félögum innan BSRB og á vettvangi BSRB gagnvart vinnuveitendum,“ sagði Garðar Hilmarsson að lokum.
Viðtalið birtist í 2. tbl. 2021.