15. apríl 2021
Breiðhyltingur í húð og hár
Kári Sigurðsson, aðstoðarforstöðumaður í Félagsmiðstöðinni í Hólmaseli í Breiðholti.
Ég tek mína styttingu út alltaf einu sinni í viku á fimmtudögum. Styttingin nýtist mér og okkur sem erum í 100 prósent vinnu mjög vel.
Eftir: Axel Jón Ellenarson
Ljósmynd: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Kári Sigurðsson, aðstoðarforstöðumaður í Félagsmiðstöðinni í Hólmaseli í Breiðholti er félagsmálatröll og brennur fyrir starfi sínu. Hann hóf að starfa við félagsmiðstöðvarnar í Breiðholti fyrir 14 árum, fyrst í hlutastarfi í Fellahelli og síðan í Félagsmiðstöðinni við Hólmasel frá því 2008 í fullu starfi. Hann segist vera mikill Breiðhyltingur og honum þykir vænt um Breiðholtið. Blaðamaður hitti Kára í Hólmaseli þar sem við settumst út í sólina til að spjalla um starfið og hvernig stytting vinnuvikunnar hefur lagst í hann og samstarfsmenn hans.
Til staðar fyrir unga fólkið
Starf Kára felst í því að halda utan um og reka félagsmiðstöðina í Hólmaseli. „Starfið mitt nær yfir vítt svið. Fyrir utan almennt eftirlit með umgengni í félagsmiðstöðinni og börnunum sem hana sækir ber helst að nefna utanum hald á rekstri og ekki síst að halda utan hlutastarfsfólkið okkar. Það er hjartað í félagsmiðstöðinni, að hafa gott hlutastarfsfólk. Síðan er í starfinu fólgið samstarf við skólayfirvöld, foreldra og unglingana í hverfinu, bæði þegar eitthvað slæmt og erfitt er að gerast í lífi þeirra en líka eitthvað gott og jákvætt. Þá þurfum við að geta leiðbeint foreldrum og unglingum í ýmsum málum. Við sjáum líka um kennslu í skólum, ég sé t.d. um kynfræðslu í Seljaskóla og Ölduselskóla fyrir unglinga. Einnig sér okkar starfsfólk um ýmiskonar val í þessum skólum; Nördaval, allskonar leikja- og spilaval. Þá erum við með hópastarf til að efla börn og unglinga að ógleymdum sumarnámskeiðunum fyrir unglingana. Það er gott að vera til staðar og þetta er ansi fjölbreytt starf og skemmtilegt,“ segir Kári og brosir.
Umhyggja fyrir fólki og að vera með hjartað á réttum stað er það sem gildir í starfi í félagsmiðstöðvum. „Annað hvort er fólk með hjartað á réttum stað í þessu eða það hættir. Þetta er þannig að þú getur ekki verið í þessu starfi nema þér finnist það gaman og hafir ástríðu fyrir því. Hingað kemur mikill fjöldi barna og unglinga. Við erum heppin að því leyti hér í Seljahverfinu að við sjáum um tvo skóla, Seljaskóla og Ölduselskóla og þar af leiðandi erum við stærri eining og getum þess vegna boðið upp á meiri þjónustu. Við erum með opið öll kvöld vikunnar fyrir unglingana frá 19:30-10:00 öll kvöld vikunnar nema á föstudögum en þá er opið frá 19:30-11:00 og svo er opið tvo daga vikunnar yfir daginn, “ segir hann.
Félagsmiðstöðin sinnir líka barnastarfi fyrir tíu til tólf ára þrisvar sinnum í viku og mætingin er mjög góð. Á haustin mæta í félagsmiðstöðina 100 – 130 unglingar öll kvöld vikunnar. Á daginn er boðið upp á samlokur eða núðlur sem er heimilislegt og notalegt.
Stytting vinnuvikunnar er dýrmæt kjarabót
Stytting vinnuvikunnar tók gildi í vaktavinnu 1. janúar sl. og nú er reiknað með að komin sé dágóð reynsla meðal félagsmanna Sameykis. Hvernig hefur styttingin lagst í Kára og hans samstarfsfólk?
„Ég tek mína styttingu út alltaf einu sinni í viku á fimmtudögum. Styttingin nýtist mér og okkur sem erum í 100 prósent vinnu mjög vel. Við kunnum alltaf betur og betur við þetta. Ég vil segja að þessi stytting er mér alltaf dýrmætari og dýrmætari því ég fór að sjá betur hvernig ég gæti notið þessa tíma betur í það sem mig langar til að gera; fara í sund, í ræktina eða bara ákveða að slappa af heima,“ segir hann.
Kári segir að starfsfólk sem er í hlutastarfi þurfi kannski að hætta nokkrum mínútum fyrr hér og þar og þurfi að eyða mikilli vinnu í að tína saman mínúturnar til að geta notað rétt sinn á styttingu vinnutíma í hverri viku. Það sé eiginlega engin stytting vegna þess að ekki sé hægt að safna þessum mínútum saman og nýta þær t.d. upp í frí eða aðra styttingu einu sinni í mánuði. Þess vegna virki þetta ekki nógu vel fyrir fólk í hlutastarfi.
„Þetta er vegna þess að það er ekki búið að innleiða það hjá Reykjavíkurborg að stytting vinnuvikunnar er ekki á mánaðarlegum forsendum. Það er þannig í sumum deildum innan borgarinnar en hún er það ekki hjá okkur, en ef svo væri líka hjá okkur hér værum við öll súperánægð með styttingu vinnuvikunnar, ekki bara ég. Fyrst hélt fólk, þegar innleiðingarferlið hófst, að til stæði að taka af þeim kaffitímana en það var frekar auðvelt að leiðrétta þann misskilning,“ segir Kári.
„Ég held líka að þessi breyting sem orðið hefur sé góð. Almennt séð þýðir stytting vinnuvikunnar það að fólk er að minnka skrepp til að sinna einkaerindum í vinnutíma. Ég spyr mig hversu sanngjarnt það sé að skreppa í ræktina í rúma klukkustund í vinnutímanum eða skreppa í smók á klukkustundar fresti eins og tíðkast í samfélaginu. Ég er ekki að býsnast yfir því hvað fólk gerir, og það er frábært þegar vinnustaðir leyfa fólki að sinna sínum málum í vinnutímanum með þessum hætti, en ég spyr mig hvort þetta sé sanngjarn gangvart þeim samstarfsmönnum sem eru að vinna á meðan. Eiga þeir ekki rétt á þessum pásum líka? Þetta er allt að breytast held ég og verða sanngjarnara með tilkomu styttingu vinnuvikunnar,“ segir hann.
Það var gaman að hitta Kára og sjá hann í sínu „elementi“ undir klið radda, hrópa og boltaleikja í Hólmaseli. Kári var allan tímann með annað augað á börnunum á meðan á viðtalinu stóð því það þarf að fylgjast með börnum í leik og ganga úr skugga um að allt sé eins og það á að vera.
Viðtalið birtist í 3. tbl. 2021.