8. desember 2021
Í fimmtíu ár á sama vinnustaðnum og ekki tilbúin að hætta
Þorbjörg Guðnadóttir Blandon
Þegar ég var að byrja í þessu starfi voru lán ekki vísitölutryggð. Lánin voru ekki verðtryggð fyrr en 1979, ef ég man rétt. Ég man eftir því þegar vextirnir fóru hæst í 47 prósent á þessum óverðtryggðu lánum. Þá var mikil verðbólga og stjórn hagkerfisins ólíkt þeirri sem nú er.
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmynd Birgir Ísleifur Gunnarsson
Þorbjörg Guðnadóttir Blandon starfar sem deildarstjóri á lánasviði hjá LSR og hefur starfað þar frá því 5. nóvember 1971. Hún fagnaði því fimmtíu ára starsaldursafmæli hjá stofnuninni nýlega en þar hefur hún starfað frá 17 ára aldri. Þorbjörg er fædd í Reykjavík en býr í Kópavogi með manni sínum og dóttur og hundinum Tátu. Fyrir eiga þau tvö uppkomin börn.
Lífeyrisréttindin vega þungt
Eftir grunnskólann sótti Þorbjörg um vinnu hjá lífeyrissjóðnum eftir ábendingu frá systur sinni þegar sjóðinn, sem þá heyrði undir Tryggingastofnun ríkisins, vantaði starfskraft. Systir hennar, sem starfað hafði í lánadeildinni sem sumarstarfsmaður í nokkur ár, lét vel af því svo Þorbjörg lét slag standa og hefur aldrei séð eftir því. „Ég hef verið ríkisstarfsmaður alla tíð og kann því vel. Ein af helstu ástæðum þess að ég hef ekki skipt um vinnu eru lífeyrisréttindin sem fylgja B-deildinni og auðvitað ánægjan með starfið og samstarfsfólkið. Ég hef stundum hugsað út í það að skipta um vinnu á þessum 50 árum sem liðin eru, en aldrei látið verða af því. Það eru lífeyrisréttindin sem ég horfi svo mikið til. Þau eru óneitanlega góð því þau eru prósenta af grunnlaunum og í mínu tilfelli er prósentutalan komin yfir 80 prósent í dag. Ef ég vinn lengur, til sjötugs, aukast réttindin um 2 prósent á ári,“ segir hún.
Ekki tilbúin að hætta að vinna fullfrísk
Þorbjörg hyggst vinna eins lengi og hún má því hún segist vera fullfrísk og með fulla starfsorku. Blaðamaður tekur eftir því að hún er ungleg og frískleg og hreinlega gædd fítonskrafti þar sem hann reynir lafmóður að halda í við hana þegar hún gengur rösklega upp stigana að skrifstofunni sinni í LSR húsinu. Og Þorbjörg nýtur lífsins.
„Ég fer reglulega í leikfimi og stunda samkvæmisdansa einu sinni í viku. Auk þess leik ég golf á sumrin þannig að ég hef nóg að gera fyrir utan vinnuna, og svo prjóna ég þegar tími gefst.“ Blaðamaður rifjar upp fyrir Þorbjörgu að amma hans hafi prjónað mikið og hún hefði haldið því fram að það viðhéldi fínhreyfingunum sem fólk, rétt komið yfir fimmtugt, væri oft búið að tapa. Þorbjörgu vafðist ekki tunga um tönn og svaraði hlæjandi: „Þú verður bara að fara að prjóna.“ Hvað sem því líður verður máske erfitt að beita fimm litlum þumalfingrum við slíkt verk. En áfram með spallið við Þorbjörgu.
Handreiknaðir dráttarvextir
En hvernig hefur starfið hennar þróast í lánadeildinni? Þorbjörg dregur fram möppu með bunka af blöðum í sem hefur að geyma dæmi um eina lánsumsókn hjá sjóðnum hér áður fyrr.
„Þetta er ein lánsumsókn og í hana söfnuðum við gögnum frá skattinum og fleiri gögnum frá stofnunum sem fólk þurfti að skila inn til okkar. Þá þurfti það að hringja til okkar til að spyrja hve há peningaupphæðin væri á næsta gjalddaga, og ef fólk greiddi ekki á gjalddaganum voru dráttarvextirnir handreiknaðir á hvert lán. Þróunin var með þessum hætti; fyrst var allt vélritað og við þurftum að handreikna dráttarvexti og uppgreiðslur þar til tölvan kom til sögunnar árið 1981. Það var ekki fyrr en árið 2012 sem við hættum að nota möppurnar með öllum þessum skjölum sem umsækjandinn þurfti að skila inn, en þá tókum við upp málaskráningakerfið Coredata sem öll gögn voru skönnuð inn í. Rafrænar umsóknir fóru svo í loftið í nóvember 2020 sem gerði umsækjanda láns kleift að sækja sjálfur um lán á Mínum síðum og nú framkvæmir umsækjandinn greiðslumatið sjálfur í gegnum Creditinfo. Í lok ferlisins koma gögnin svo sjálfkrafa inn í kerfi LSR. Í dag tekur ferlið semsagt mun styttri tíma og við afgreiðum venjulega lánsumsókn á einum sólarhring eftir að hún berst okkur.“
Hrunið erfiðasti tíminn á starfsferlinum
„Hrunið var erfitt. Það var erfitt að sjá fólk missa eignirnar sínar, húsin sín og íbúðirnar. Þetta var erfiðasti tíminn á starfsferli mínum. Fólk var niðurbrotið og allt var að hrynja. Það var erfitt að horfa framan í fólk þegar svo mikið var undir. En það er líka gaman þegar hægt er að gleðja fólk með því að hjálpa því að fá lán til að fjármagna framtíðar heimilið sitt. Talandi um lán. Þegar ég var að byrja í þessu starfi voru lán ekki vísitölutryggð. Lánin voru ekki verðtryggð fyrr en 1979, ef ég man rétt. Ég man eftir því þegar vextirnir fóru hæst í 47 prósent á þessum óverðtryggðu lánum. Þá var mikil verðbólga og stjórn hagkerfisins ólíkt þeirri sem nú er,“ segir Þorbjörg og kímir.
Hún segir að dregið hafi úr lánaumsóknum hjá sjóðnum því bankarnir hafi getað boðið lán á svo lágum vöxtum. Því sé ekki nálægt því jafn mikið að gera í útlánum eins og var fyrir einungis ári síðan og sem kallaði á stöðuga yfirvinnu.
„Þetta er mun betra í dag en var fyrir ári síðan. Fólk hefur líka meiri tíma fyrir sig og getur notið styttingu vinnuvikunnar sem hefur reynst vinnustaðnum vel. Við ráðum hvenær við tökum styttinguna yfir vikuna og okkur líður bara vel hérna,“ segir Þorbjörg létt í bragði.
Þorbjörg segir að lokum að á þessum stóru tímamótum hafi það glatt hana mikið þegar sjóðurinn hafi heiðrað sig og fært sér gjafir og blóm á árshátíð LSR nú fyrir stuttu. „Þetta kom skemmtilega á óvart og það var gaman að þessu. Mig langar ekkert til að hætta að vinna og hef lítið hugsað um hvernig það verður. Mér finnst fáránlegt að hætta að vinna núna. Mér líður bara eins og ég sé ekki nema fimmtug í anda. Mig langar að lokum til að þakka samstarfsfólki mínu í lánadeildinni og öllum þeim sem starfa hér. Hér er góður mórall og gott fólk og gott hefur verið að starfa hérna í gegnum árin,“ segir hún og brosir. Sameyki óskar Þorbjörgu til hamingju með 50 ára starfsafmælið og óskar henni farsældar í leik og starfi.
Viðtalið birtist í 4. tbl. 2021.