9. desember 2021
Bakar sörur og gætir fanga
Victor Gunnarsson er formaður Fangavarðafélags Íslands.
Fangelsismálastofnun og ráðuneytið hafa verið að reyna að búa til 8 tíma vaktarúllu en það hefur ekki skilað sér.
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmynd Birgir Ísleifur Gunnarsson
Victor Gunnarsson er formaður Fangavarðafélags Íslands. Hann hefur starfað sem fangavörður í 20 ár og fyrir þremur árum fór hann að starfa fyrir félagið, fyrst sem ritari og síðar sem formaður. Honum finnst félagið hafa verið í mikilli ládeyðu í tengslum við COVID-19 faraldurinn og að fangaverðir almennt ættu að standa þéttar saman um félagið og nýta það til að gæta að kjaramálum sínum og réttindum almennt. Mikilvægi þess að eiga slíkt fagfélag hefði sýnt sig þessi misserin í tengslum við styttingu vinnuvikunnar og allt það starf sem Fangavarðafélagið hefði þurft að sinna til að gæta að réttindum félagsfólks með Sameyki sem bakhjarl.
„Við vorum bara þrjú eftir í félaginu og ég ákvað, ásamt félögum mínum þar, að reyna að rífa það á lappirnar og fara að gera eitthvað. Stjórnin sem þá var hætti, eða kannski má segja að hún hafi fjarað út, svo kosið var til nýrrar stjórnar þar sem ég var kosinn formaður eftir stuttan umhugsunarfrest.“
Komið víða við
Victor hefur komið víða við á vinnumarkaðnum; bakari, íþrótta-kennari, sælgætisgerðarmaður, sölumaður, sölustjóri, rekið kaffihús og komið vörum á koppinn.
„Tja, ég er búinn að vera í hinum ýmsu störfum í gegnum tíðina. Fyrst lærði ég bakaraiðn og vann við það í þó nokkur ár. Mig langaði fyrst til að verða matreiðslumaður en komst hvergi að í starfsnám á þeim stöðum sem voru við lýði á árunum 1986-88. Það voru svo fáir veitingastaðir sem tóku starfsnema miðað við það sem nú er og því valdi ég bakaraiðnina. Þá var mér boðið að taka við kaffihúsi og reka það þegar Kringlan var að opna sem ég þáði en stoppaði þar bara í eitt ár, það var of mikið álag. Ég vann í verksmiðjubakaríum fyrst um sinn eftir að námi lauk en svo kom að því að ég vildi fara meira í handverkið í bakaraiðninni og fór að vinna hjá Sandholts bakaríi á Laugavegi og síðar hjá Mosfellsbakríi. Alls starfaði ég sem bakari í 16 ár,“ segir Victor og dregur fram öskju með gullfallegum sörum sem hann býður blaðamanni og segist hann baka þær í hjáverkum. Blaðamaður stingur upp í sig einni söru, og eins og ljúffengar sörur eiga að gera, bráðnar hún í munni hans. Victor fylgist með.
„Ég hef sérstaklega gaman af því að baka sörur fyrir fólk. Ég er búinn að baka 170 þúsund sörur frá því ég byrjaði á þessu í eldhúsinu heima og þetta er mjög gefandi, að baka sörur fyrir jólin og gleðja aðra,“ segir Victor brosandi.
Það er nóg til af matarolíu!
„Einu sinni gerðist ég sölumaður hjá litlu fyrirtæki og mér var falið það verkefni að selja matarolíu sem enginn vildi kaupa.“ Blaðamaður kváir. „Jú, allar verslanir sögðu við mig að það væri nóg til af matarolíu í landinu. Það væri ekki á það bætandi að fara að koma með enn eina matarolíuna í verslanir. Þessi olía varð nú samt ein sú frægasta og mest notaða matarolía fyrr og síðar hér á landi og víðar, ISIO 4. Það vildi þannig til að ég fékk Gestgjafann til að fjalla um olíuna og eftir það varð allt kolvitlaust. Þetta átti að vera pínulítil umfjöllun og við biðum spenntir eftir að blaðið kæmi út. Heyrðu! Svo kom blaðið og það var fjallað um matarolíuna á tveimur blaðsíðum og við höfðum ekki undan að afgreiða brettin til verslana og fyrirtækja í kjölfarið. Markaðnum var náð og þetta var bara bomba. Ég var þó ekki nema í eitt ár þarna því eigandi fyrirtækisins seldi það því miður og ég fór að leita mér að nýrri vinnu,“ segir Victor og hlær.
Á hænsapriki á Hrauninu
En hvernig vildi það til að Victor gerðist fangavörður?
„Ég var án atvinnu og sá auglýsta stöðu fangavarðar á Litla-Hrauni og sótti um. Ég þekkti aðeins til því það voru starfandi í fjölskyldunni fangaverðir. Ég ákvað að slá til og mætti á Hraunið. Þar var ég settur á hænsnaprik eins og ég kalla þessa litlu stóla sem þá voru. Mér var sagt að sitja þar og fylgjast með hvað hinir fangaverðirnir væru að gera – í tólf tíma. Þetta var um páska og ekkert um að vera. Skemmst frá því að segja gerðist ekkert á þessari vakt og þegar ég kom heim sagði ég við konuna mína og fjölskyldu að ég myndi aldrei vinna þessa vinnu! Aldrei! Þetta væri það al leiðinlegasta starf sem ég hefði komist í tæri við. Fangaverðirnir, bræður tengdamóður minnar, báðu mig um að gera aðra tilraun. Ég ákvað að gefa þessu séns og þegar ég mætti daginn eftir fékk ég nóg að gera svo þessi tólf tíma vakt leið hratt og var mjög skemmtileg, og ég hef ekki litið til baka þessi tuttugu ár.”
Það hafa logað eldar
Þegar Victor er spurður um hvernig stytting vinnuvikunnar hjá fangavörðum hafi lagst í þá segir hann hreinskilningslega að það hafi logað eldar. Þeir hafi þurft að leggja meira á sig til að fá sömu krónutölu útborgaða hver mánaðarmót og auk þess þurft að verja meiri tíma á vinnustaðnum en áður og sjá þetta sem launatap.
„Það hefur mætt mikið á formanni félagsins vegna styttingu vinnuvikunnar alveg frá því ég tók við. Tólf tíma vaktarúllan hefur hentað fangavörðum mjög vel; unnið var tvo daga aðra vikuna og fimm daga hina, þriggja daga frí hafi verið frá föstudegi til sunnudags tvisvar í mánuði þegar vaktaskipti voru milli dagvaktar og næturvaktar. Nú vinna allir 8 tíma vaktir en það þarf að laga það til því það er pínu öfugsnúið. Fangelsismálastofnun og ráðuneytið hafa verið að reyna að búa til 8 tíma vaktarúllu en það hefur ekki skilað sér því þó að ágætt sé að verja skemmri tíma á vinnustaðnum er starfsfólkið mun tíðar á vinnustaðnum. Auk þess eru fríin farin og launin hafa lækkað. Vaktahvatinn virkar ekki nægilega vel því eins og staðan er núna þarf viðveran á vinnustaðnum að vera lengri en áður til að jafna launin á við það sem þau voru á 12 tíma vöktunum,“ segir Victor.
Úr 15 vöktum í 18 vaktir á mánuði
Hann segir að Fangelsismálastofnun hafi tjáð fangavörðum að þeir myndu ekki lækka í launum vegna styttingu vinnuvikunnar en raunin sé önnur.
„Það sem leggst illa í okkar félagsmenn er að launin hafa lækkað allt frá 5 prósentum upp í 15 prósent. Það er einhver skekkja þarna sem gerir það að verkum að við lækkum svona í launum. Við erum að vinna að því hörðum höndum að endurreikna og endurskipuleggja 8 tíma vaktarúlluna og finna þessa skekkju. Ég minntist á vaktahvatann áðan, hann dekkar engan veginn tekjutapið, hann dekkar bara kaffitímana. Við vorum t.d. með 107 prósent vaktaálag í tólf tíma kerfinu og fengum greitt aukalega fyrir það u.þ.b. 45 þúsund krónur á mánuði í formi yfirvinnu og það er alveg dottið út og vaktahvatinn nær ekki að dekka það. Þó að álagsprósentan hafi hækkað dugar það ekki til að bæta upp tekjutapið vegna stórhátíðarkaupsins sem við áður nutum sem vaktahvatinn nær ekki að jafna. Við það að detta niður í 90 prósent vaktaálag og taka af stórhátíðarkaupið lækka launin um 40 þúsund krónur. Þarna hafa eldarnir logað og menn eru jafnvel farnir að hugsa sér til hreyfings vegna þessa. Menn eru ekki ánægðir með að vinna núna 18 vaktir í mánuði þegar þeir unnu áður 15 vaktir. Þetta er augljóslega aukin viðvera fyrir minni laun,“ segir Victor alvarlegur í bragði.
Fangaverðir þurfa að ganga í Fangavarðafélagið
Að lokum leggur Victor áherslu á að fjöldi félagsmanna í félaginu sé allt of lítill, einungis 38 skráðir félagar af 120 starfandi fangavörðum.
„Ég vil að fangaverðir gangi í Fangavarðafélagið. Við erum alltof fá og því fleiri sem ganga í Fangavarðafélagið því sterkari verður það í kjarabaráttunni. Við erum fagfélag og þurfum að geta barist fyrir betri kjörum og haft sterka rödd á þessum vettvangi. Félagsgjöldin eru ekki það há og við verðum að standa saman,“ segir Victor Gunnarsson, formaður Fangavarðafélags Íslands.
Viðtalið birtist í 4. tbl. 2021.