19. janúar 2022
Skógur er auðlind
Hreinn Óskarsson sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni
Skógræktin hefur gert nokkra samninga við fyrirtæki um gróðursetningu birkis til að binda kolefni. Kolefnabindingin er fjárfesting líkt og þegar keypt eru verðbréf. Með ræktun skóga fæst kolefnisbinding sem hægt er að selja á markaði.
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Hreinn Óskarsson sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni er fæddur og uppalinn á Selfossi. Hann segist hafa byrjað sem krakki að vinna í skógum hjá Skógrækt ríkisins og því snemma fengið áhuga þeim lífstíl að sinna skógrækt. Foreldrar hans höfðu áhuga á skógrækt og þar kviknaði áhuginn. Hann naut þess að vera með þeim í skóginum og framtíðin var því snemma ráðin. Eftir menntskóla fór Hreinn til Danmerkur og lærði þar skógfræði í landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og kom heim þaðan og vann hjá Skógræktinni. Síðar snéri hann aftur til Danmerku og kláraði doktorsnám í Skógrækt frá Kaupmannahafnarháskóla áður en hann kom aftur til starfa hjá Skógræktinni.
Forréttindi að starfa við skógrækt
„Það eru forréttindi finnst mér að fá að vinna við Skógrækt, breyta landinu, rækta skóga, búa til skjól og binda kolefni nú síðustu árin. Tré er ekkert annað en kolefni. Margir sem starfa hjá skógræktinni hafa langan starfsaldur því þetta er einskonar lífsstíll og áhugamál um leið. Fólk brennur einnig fyrir því hvernig hægt er að nýta skóginn fyrir ýmsar afurðir eins og í handverk og aðra framleiðslu á íslensku timbri. Þetta er líka árstíðabundin rútínuvinna, gróðursetning á vorin og haustin, klippa greinar og fella tré fyrir jólavertíðana. Allan ársins hring er svo verið að framleiða timbur og á sumrin eru gerðar rannsóknir og prófanir á aðferðum við að rækta skóga. Þannig að verkefnin eru fjölbreytt og skemmtileg og skógarnir í umsjá Skógræktarinnar gefa af sér ýmsar afurðir, allt frá arinvið, timbri og kurli yfir í afurðir fyrir snyrtivörur og ilmefni með söfnum plantna og greina sem finnast í skógunum. Ekki má gleyma víngerðinni en margir þekkja birkisnafs sem á uppruna sinn úr birkiskógum landsins,“ segir Hreinn og brosir.
„Í dag fellur til mikið af timbri þegar skógarnir eru grisjaðir ár hvert. Nú erum við komin með skóga sem eru allt að tuttugu og fimm metra háir. Það er verið að grisja reitina með þeim hætti að þar sem áður voru þrjú þúsund plöntur í hverjum hektara eru nú bara fimmtán hundruð. Út úr þessu kemur timbur sem nýtt er með fjölbreyttum hætti. Bestu bolirnir eru sagaðir, annað fer í framleiðslu á timbri til húsbygginga, eitthvað fer í arinvið og annað í kurl og spæni sem er líka selt, og auðvitað efni fyrir girðingar, pallaefni og panil. Til að fá efni til að búa til girðingarstaura tekur tuttugu ár að rækta. Sögunarmyllur eru á nokkrum stöðum á landinu, hjá Skógræktinni eru þær í Hallormsstaðaskógi og í Þjórsárdal en svo hjá einkaaðilum íka. Sumt kurlið er selt til fyrirtækja í kísiljárnverksmiðjur sem notað er til að auka gæði kísiljárnsins. Því er hellt í bráðina til að brenna súrefnið úr járninu. Nokkur hundruð tonn af kurli fer í þetta á hverju ári og kemur í staðinn fyrir innflutt kurl,“ segir Hreinn.
Villtir sveppir
Sveppatínsla er vinsæl meðal margra og sú iðja er stórmerkileg. Í íslenskum skógum vex fjölbreytt flóra sveppa sem notaðir eru í matargerð og seldir eru til veitingahúsa. Hreinn segir að sveppatínsla sé sér fræðigrein.
„Bara sveppatínsla er mjög vinsæl þó fólk tíni mis ber líka til matargerðar. Fólk verður að þekkja sveppina vegna þess að sumir þeirra geta verið eitraðir. Helstu villtu sveppirnir sem þrífast með trjánum sem fólk er að tína má nefna Kúalubba, Furusvepp, Lerkisvepp og Kantarellur sem er dýr sveppur og vinsæll til matargerðar. Þetta er alveg sér fræðigrein að finna sveppi úti í skógi. Sveppir tengjast trjánum, hjálpa þeim að þrífast og eru partur af vistkerfi þeirra, sveppirnir ná í næringu fyrir trén úr jarðveginum og á móti fá sveppirnir næringu frá þeim til baka,“ útskýrir Hreinn.
Birkiskógarnir endurheimtir
Hreinn segir að skógræktarfólki þyki spennandi að sjá árangurinn af því að rækta skóga. Partur af þeirri spennu er sú vinna að endurheimta þá skóga sem hafa horfið vegna beitar og náttúruhamfara sem orðið hafa hér á landi í gegnum aldirnar. Ísland hafi verið skógi vaxið frá fjalli til fjöru við landnám. Víða sjást einnig ummerki um skóga allt frá landnámi sem horfið hafa vegna náttúrhamfara, eldgosa og lóða.
„Eftir landnám og framan af öldum hurfu skógarnir vegna þess að menn nýttu skóginn til að hita híbýli sín og til beitar. Búfé dagsins í dag var þá ekki sett í hús heldur gengu allt árið á beit í skógunum. Kuldi spilaði ekki inn í þó þeir hafi verið á tíma miklir, en kuldinn drap ekki skógana þó kannski hafi verið lítið um fræ í mestu harðindunum. Það er aðallega beitin allt árið og maðurinn sem ollu eyðingu þeirra, skepnum var beitt árið um kring og ekki var heyjað fyrir þær á sumrin. Má kannski segja að skepnurnar hafi verið settar út á guð og gaddinn í þessu samhengi. Það þýddi fyrir skóginn að endurnýjun hans gekk ekki upp vegna þess að fræplönturnar voru étnar. Þannig visnuðu rótarkerfi skóganna og síðar var hallærið orðið svo mikið að menn rifu upp ræturnar til að nýta þær í eldivið og til kolagerðar. Konungurinn yfir Íslandi á 18 öld gaf út tilskipun þess efnis að bannað væri að rífa upp rætur trjáa á landinu því ef ræturnar væru rifnar upp kæmi ekki upp teinungur af birkinu,“ fræðir Hreinn um.
Árið 1907 voru birkiskógarnir í eigu þjóðarinnar friðaðir til að stoppa eyðingu þeirra. Þá voru settar upp girðingar í kringum skógana til að hafa stjórn á beitinni og þeim viðhaldið með grisjun. „Almenningur var þó upptekinn af því að höggva skóga til kyndingar fram yfir 1940 án þess að huga að endurnýjun eða vistkerfi þeirra má segja. Í dag er langmest gróðursett af birki t.d. í Hekluskógum, Hólasandi, Haukadalsheiði, í Hafnarsandi og víðar á landinu. Bændur eru einnig að rækta birkiskóga þannig að skógræktin í dag er töluvert mikil. Fleiri tegundir eru líka notaðar sem vaxa á mjög rýru landi eins og stafafura og lerki sem vaxa betur en birkið í rýrum jarðvegi. Þessar tegundur þola þurrk betur og eiga auðveldara með að ná sér í næringu heldur en birkið og því ákjósanlegar til skógræktar við þessar aðstæður. Svo má að auki nefna sitkagreni sem er ræktað til að framleiða timbur t.d. í Heiðmörk, Þjórsárdal og Haukadal,“ segir Hreinn.
„Áfram verða ræktaðir skógar í þjóðlendum á vegum Skógræktarinnar með því markmiði að koma birki aftur í landið þar sem ekkert grær. Í samstarfi við Landgræðsluna og umhverfisráðuneytið, nú matvælaráðuneytið, hefur í Hekluskógum, sem er svæði u.þ.b eitt prósent af Íslandi og nær frá Hellu upp í Sigöldu, verið gróðursett fimm milljónir plantna sl. tólf ár og farið verður í gróðursetningu inn á Haukadalsheiði, fyrir norðan við Hólsfjöllin og í Hólasand.“
Skógar laða að fólk
Helstu verkefnin í þjóðskógunum eru viðhald og lagning nýrra gönguleiða, grisjun og klipping trjágreina til að auðvelda aðgengi almennings að þeim og einnig setusvæða með eldstæðum. Skógar laða að fólk því gott er að setjast þar niður og njóta kyrrðar og ýmissa plantna sem í honum vaxa.
„Á sumrin er gætt þess að viðhalda vel göngustígum í skógunum, að vatn renni ekki um þá, setja upp og viðhalda merkingum, byggja tröppur þar sem eru klettar og auka öryggi þeirra sem um þá fara. Mikill fjöldi fólks heimsækir skógana allt árið um kring og því er mikilvægt að gæta vel að þessum þáttum. Hjólafólk hjólar mikið um skógana og því höfum við hafist handa við að búa til sérleiðir fyrir þann hóp. Lögð hefur verið 20 kílómetra hjólaleið í Þórsmörk og stefnt er að því að fjölga hjólaleiðum þar sem ekki skarast gangandi og hjólandi fólk á þröngum stígum,“ segir hann.
Skipulag skóga tekur mið af landslaginu
Þegar ekið er um landið stingur í stúf að sjá ferhyrnda gamla skóga í fjallshlíðum. Það er ekki beint fallegt að sjá en ferlið við að hefast handa við að rækta skóg er flóknara í dag en það var þá. Taka þarf mið af landslaginu því skógurinn þarf að falla að því og gerð skógarins þarf að skipuleggja. Búa þarf til skipulag fyrir skóginn og fá samþykki hjá sveitarfélagi og ríki áður en ræktun hans hefst.
„Pælingin í allri nýrri skógrækt er að skógurinn falli vel að landslaginu, búa þarf til áætlun, fá samþykki hvernig hann verður og svo leyfi fyrir ræktuninni. Í skóginum mega ekki vera beinar línur og mikilvægt er að útlit skógarins sé sem líkast náttúrulegum skógi. Þetta ferli allt tekur sinn tíma, að fara í gegnum það hjá skipulagsyfirvöldum o.s.frv. Þannig er þessu farið í þessari ríkisstyrktu skógrækt.“
Verðmæti fólgin í kolefnisbindingunni
Á síðustu árum hafa fyrirtæki innanlands og utan sótt í að gróðusetja tré til kolefnisbindingar. Þessi fyrirtæki hafa séð að hér á landi er mikið land til skógræktar og ábyrg stefna í þeim málum af hálfu stjórnvaldasem skiptir máli. Skógræktin hefur gert nokkra samninga við fyrirtæki um gróðursetningu birkis til að binda kolefni. Kolefnabindingin er fjárfesting líkt og þegar keypt eru verðbréf. Með ræktun skóga fæst kolefnisbinding sem hægt er að selja á markaði. Því meiri kolefnabindingu sem fyrirtæki eiga því meira geta þau framleitt t.a.m. Þessi kolefnaverðbréf fara á markað og fyrirtæki geta þá keypt kolefnisbindingu og haldið áfram sinni framleiðslu.
„Það má segja að tré séu verkmiðjur sem binda kolefni. Ef maður brennir tré þá hverfur kolefnið og verður að koltvísýringi en þegar ræktaðir eru nýir skógar þá bindist þetta kolefni úr andrúmsloftinu og fer bæði ofan í jarðveginn, inn í stofninn, greinarnar og laufin. Við vitum í dag hvað það er mikið kolefni í íslenskum skógum með rannsóknum sem gerðar hafa verið og í kringum það eru þekktar jöfnur. Við vitum hvað tré eru að vaxa mikið á ári og ef við ræktum birki þá getum við bundið fjögur tonn CO2 á hektara á ári, með furu eru það kannski átta tonn á hektara, með greni tíu tonn, með ösp getur það verið 15 upp í 25 tonn á ári. Það er misjanft hvað tegundarnar vaxa hratt og því hraðar sem þær vaxa því meira binda þær af kolefni. Útlendu fyrirtækin sem binda kolefni með trjárækt á Íslandi gera það í Þjórsárdal, í Breiðdal og á Skagaströnd, í Skorradalnum og í Haukadalsheiðinni. Fyrirkomulagið hjá fyrirtækjum sem nýta sér þetta er þannig að þau greiða fyrir plönturnar og gróðursetninguna gegn því að þau eiga kolefnisbindingu skógarins næstu fimmtíu árin en ríkið á skóginn og að því loknu er hann í eigu þjóðarinnar og notaður til nytjar. Þannig eignast fyrirtækin kolefniskvóta sem verður til þegar skógurinn vex upp en ekki nærri öll þeirra nýta hann í viðskipti heldur gera þetta af hugsjón,“ segir Hreinn.
Kolefnissporið beislað
Hreinn segir að til að reikna út hvað fyrirtæki og stofnanir þurfi af kolefnisbindingu til að jafna kolefnissporið sitt þurfi að spyrja sig fyrst hvað kolefnissporið er stórt. Ef það losar t.d. hundrað tonn af CO2 ári úí andrúmsloftið þá þarf að rækta skóg á tíu hekturum. Meðalbinding skógarins yfir fimmtíu ár eru tíu tonn á ári á hektara miðað við að hann væri að vaxa jafnt alla lotuna á þessum fimmtíu árum. Þá væri hann að binda þessi hundrað tonn. Gæta verður að því að fyrstu tíu árin, meðan hann er að vaxa, bindur hann sáralítið. Eftir það rýkur hann upp og nær toppi 25 ára og þar með mestu bindinguna. Svo er tekið tillit til meðaltals kolefnisbindingar hans. Ef menn vilja auka bindinguna þarf að gróðursetja á stærra landi o.s.frv. Fyrirtæki hugsa sér oft að gróðursetja á miklu stærri skala til að nýta sér kolefnisbindinguna sem skógurinn skapar til góða til þess að selja á markaði eða nýta sér hana í stærri mæli.
„Nú er verið þróa kerfi þannig að þessi kolefnisbinding verður eins og hlutabréf á markaði eins og ég sagði frá áðan. Þá er um að ræða vottunarkerfi þar sem vottað er að sannarlega er skógur fyrir hendi sem bindur kolefni og vottunin er gild á markaði fyrir kolefniseiningu sem aðrir aðilar geta keypt. Verðið á þessum kolefniseiningum er að stíga. Þannig að nú eru menn jafnvel eingöngu farnir að kaupa sér land og rækta skóg til að geta bundið kolefni og selt svo á markaði fyrir peninga. Skógur er auðlind sem tekur langan tíma að skapa,“ segir Hreinn að lokum.
Viðtalið birtist í 1. tbl. 2022.