Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

2. maí 2022

Stjórnendur eru ekki eyland

Guðrún Kaldal er framkvæmdastjóri Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar

„Það skiptir máli í innleiðingu á stefnu að verkefnið sé unnið stefnumiðað. Stefnan er ekki bara einhver tilviljun heldur að við séum að vinna eftir fyrirfram stefnumiðuðu kerfi í hvernig vinnustaðurinn innleiðir stefnuna.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Guðrún Kaldal er framkvæmdastjóri Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar sem hlaut viðurkenninguna Stofnun ársins 2021. Tjörnin hefur áður sýnt góðan árangur í mannauðsstjórnun og verið í efstu sætunum í könnuninni Stofnun ársins undanfarin ár. Frístundamiðstöðin Tjörnin var valin Stofnun ársins árin 2017 og 2019 og hefur alltaf hlotið tilnefninguna fyrirmyndarstofnun. Þessi góði árangur í mannauðsmálum er eftirsóknarverður í ljósi þess að könnunin varðar vellíðan og ánægju meðal starfsfólks.

 

Innleiðingarferli lykill að árangri
Hlutverk Guðrúnar sem framkvæmdastjóri felst í að innleiða á vinnustaðinn stefnu í mannauðsmálum og rekstri sem stjórnvöld ákveða hverju sinni. Hún segir að til að innleiða stefnu sem í þessu tilfelli Reykjavíkurborg setur sé þekking á því sviði mikilvæg svo hún gangi vel. Að því þarf að vinna með það að markmiði að innleiðingin sé stefnumiðuð skref fyrir skref í innleiðingarferlinu.

„Það skiptir máli í innleiðingu á stefnu að verkefnið sé unnið stefnumiðað. Stefnan er ekki bara einhver tilviljun heldur að við séum að vinna eftir fyrirfram stefnumiðuðu kerfi í hvernig vinnustaðurinn innleiðir stefnuna. Það er mitt hlutverk að innleiða þessa stefnu og skapa á vinnustaðnum fyrir starfsfólkið þá möguleika að þeir nái árangri í sínum störfum, nýti sér verkfæri stefnunnar og séu faglegir. Við höfum tileinkað okkur þetta hér á vinnustaðnum og setjum okkur markmið, skilgreinum ábyrgðarhlutverk og mælum svo árangurinn af því með t.d. viðhorfskönnunum, talningum og fleiri slíkum mannauðslausnum.“

 

Dans og tónlist góður bakgrunnur
Guðrún segir að hún sé mjög félagslynd í eðli sínu og sé stolt af þeirri menntun sem hún hefur sótt sér en jafnframt segir hún að styrkur sé í því að hún hafi verið mjög virk í félagslífi og tekið þátt í fjölbreyttum tómstundum sem barn og unglingur. Þá hafi hún æft og keppt í dansi og orðið Íslandsmeistari í Freestyle-dansi 1986 í Tónabæ sem var og hét. Hún hafi leikið á píanó og dansað mikið og þessi athafnasemi æskunnar hafi mótað hana.

„Vegna bakgrunns míns og menntunar valdi ég að starfa á þessum vettvangi, en ég er menntuð íþróttakennari í grunninn og hef grunnskóla- og framhaldsskólakennaramenntun að auki. Ég bætti svo við mig diplómanámi í stjórnunar- og stefnumótun og að auki meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Nú nýlega lauk ég svo viðbótardiplómu á meistarastigi í tómstunda- og félagsmálafræðum. Eins og þú heyrir hef ég gaman af að auka við þekkingu mína og takast á við verkefnin. Í frístundastarfinu er mikil þátttökustjórnun og lýðræðisleg vinnubrögð sem ég legg áherslu á. Frístundamiðstöðvar hafa mikið svigrúm til athafna og það er þess vegna sem við getum átt mikilvæg samtöl við þau sem hérna njóta þjónustunnar og um hvert sé stefnt í uppeldisumhverfi með börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra.“

 

 

Starfið byggir á góðum samskiptum
Guðrún segir að stór hluti af velgengni í frístundastarfi sé gott samstarf við börn og unglinga og fjölskyldur þeirra.

„Í frístundastarfi skiptir öllu máli að samstarfið við börn og unglinga sé gott og þau finni að þau njóta trausts og virðingar. Einnig að starfsmenn frístundamiðstöðvarinnar læri að vinna eftir lýðræðislegum leiðum með börnum og unglingum. Þetta er þroskastarf. Ég er búin að vera í þessum bransa í 30 ár og hef unnið næstum í öllum störfum hjá frístundamiðstöðvum á þessum tíma. Í dag vinnum við mannauðsmálin jafnt með starfsfólki og skjólstæðingum. Það er mjög mikilvægt vegna þess að með þeim hætti lærir starfsfólkið einnig að nýta sér mannauðsmál fyrir sjálft sig og hafa þannig áhrif á framgang í sínum störfum.“

Guðrún bendir á að innan vinnustaðarins sé ekki stéttaskipting þó að ákveðið stigveldi sé auðvitað til staðar. Þrátt fyrir að hún sé stjórnandi tekur hún jafnan þátt í öllum störfum með starfsfólkinu. Mikil áhersla er lögð á félagslega þáttinn meðal starfsfólksins og andinn á vinnustaðnum er slíkur að þar ríkir jafnræði, samkennd, auðmýkt og virðing fyrir fólki og verkefnum. Einnig er mikilvægt að stjórnendur séu heiðarlegir, standi við það sem sagt er og fylgi eftir ákvörðunum af heiðarleika og hugrekki.

„Hjá okkur ríkir jafningjastjórnun og jafnrétti, hjá okkur starfar fólk af ólíkum uppruna af 28 mismunandi þjóðernum á mjög dreifðu aldursbili og við fögnum því. Þetta fólk er með fjölbreytta menntun, allt frá háskólamenntun yfir í grunnskólamenntun, sumir jafnvel ekki lokið grunnskólaprófi. Hér eru þó allir jafnir burt séð frá menntun, kyni, aldri o.s.frv. Hjá frístundamiðstöðinni er hefð að búa til vinnustaðarsáttmála sem er virtur. Einnig er gerður í upphafi starfsráðningar slíkur sáttmáli milli starfsfólks og stjórnenda. Í þessum sáttmála er rætt um hvernig vinnustaðurinn eigi að vera, hvernig samskiptin eigi að vera og lagðar áherslur fyrir starfið framundan. Í þessu sambandi hefur könnun Sameykis nýst okkur gríðarlega vel og er meðal þeirra gagna sem við notumst mikið við þegar við erum að búa til umbóta- og starfsáætlun fyrir starfsárið.“

 

Stofnun ársins er uppskeruhátíðin okkar
Hún segir að starfsfólkinu finnist gaman að taka þátt í könnuninni Stofnun ársins og reyni saman að ná góðum árangri í könnuninni.

„Okkur finnst líka mjög gaman að komast í veisluna, við lítum á hana sem nokkurs konar uppskeruhátíð fyrir okkur, þá er einnig alltaf gaman að fara á málþingið á undan. Stofnun ársins er auðvitað góð og jákvæð kynning fyrir Frístundamiðstöðina Tjörnina og almennt fyrir frístundastarf í Reykjavíkurborg. Við vinnum mikið með að virkja félagsauðinn sem býr í starfsmannahópnum og við leggjum mikla áherslu á að skapa skemmtilegt og gefandi vinnuumhverfi. Við höldum viðburði fyrir starfsfólkið reglulega og það er svo ánægjulegt að sjá að það mæta alltaf allir. Við hlökkum til að hittast öll saman og njóta samverunnar og hafa gaman. Það er líka þannig að það fólk sem velst í svona störf hefur áhuga á öðru fólki og vil ég segja að hérna er mjög gefandi og skemmtilegur starfsmannahópur. Það er sterk liðsheild hérna, mikil valdefling sem birtist í að fólk hefur mikið um það að segja hvernig starfi þess er háttað en þó innan stefnunnar sem ég ræddi um áðan. Hér er vinnusamt fólk sem leggur mikið á sig.“

 

Góð gildi endurspegla góðan vinnustað
Guðrún segir að þessi árangur sem hefur náðst byggist á samheldni starfsfólksins og gildi vinnustaðarins séu í hávegum höfð.

„Við erum búin að koma okkur upp kerfi sem virkar, fólkinu okkar líður vel, við vinnum eftir stefnu setjum okkur markmið og vinnum saman að þeim. Aðrar kannanir Reykjavíkurborgar í mannauðsmálum eru líka alveg í takti við niðurstöður í könnuninni Stofnun ársins. Okkar gildi eru framsækni, fjölbreytileiki og umhyggja. Þessi gildi eru í huga okkar alla daga í öllum okkar störfum og þannig viljum við alltaf vinna með okkar fólki. Enginn stjórnandi stendur einn,“ segir Guðrún að lokum.