Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. október 2022

Fangaverðir á flótta

Victor Gunnarsson, formaður Fangavarðafélagsins og fangavörður á Litla-Hrauni. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Hótanir um líflát er daglegt brauð í fangelsum og það er ekki svo auðvelt að losna við það úr huganum og tilfinningalífinu án þess að geta rætt það við sérfræðinga sem eiga verkfærin til þess. Það er aldrei boðin fram aðstoð reglulega eins og ætti að vera.

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson og skjáskot RÚV

Fangaverðir eru undir stöðugu áreiti í störfum sínum; verða fyrir líkamlegu ofbeldi sem hvoru tveggja hefur áhrif á andlega líðan þeirra og getur mótað skapgerð ef ekki er til taks sérfræðiteymi sem sinnir eingöngu líðan starfsfólks sem starfar við löggæslu í fangelsum. Störf fangavarða eru vanmetin, á þeim hvílir mikið álag, þeir verða fyrir hótunum, á þá er ráðist og þurfa þeir oft á tíðum að takast líkamlega á við skjólstæðinga sína þegar sótt er að þeim í daglegum störfum. Hvernig takast fangaverðir á við slíkt áreiti? Fara þeir heim að lokinni erfiðri vakt, jafnvel kvíðnir, og setjast með fjölskyldum sínum eins og ekkert hafi í skorist eða einangra þeir sig með sína líðan?

Í skriflegu svari Eyglóar Rósar Gísladóttur, starfsmannastjóra hjá Fangelsismálastofnun, við fyrirspurn um sérfræðiteymi sem fylgist með líðan og heilsu fangavarða, kemur fram að í boði sé svokallaður félagastuðningur sem er í höndum fangavarðanna sjálfra og er það þeirra að vera vakandi yfir hver öðrum og tilkynna um aðstoð. Þá segir Eygló að boðið sé upp á stuðningssamtöl hjá sálfræðingum eða öðrum sérfræðingum sem hlotið hafa viðeigandi þjálfun. Þá sé viðurkennt að fangaverðir búa við mikið andlegt og tilfinnanlegt áreiti og álag en ekki hvernig það sé viðurkennt, opinberlega eða formlega.

 

Undirmönnun í fangelsum landsins
Á vef Fangelsismálastofnunar kemur fram að í þeim fjórum fangelsum sem starfrækt eru á Íslandi starfa 57 fangaverðir í fangelsinu á Litla-Hrauni sem sinna almennri fangavörslu og verkstjórn. Þar eru starfandi níu deildir sem rúma allt að 77 karlfanga. Í fangelsinu á Hólmsheiði starfa 20 fangaverðir, en það er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga, með 56 afplánunarrýmum. Í fangelsinu á Sogni í Ölfusi er 22 afplánunarrými og þar starfa 8 fangaverðir. Fjöldi afplánunarrýma eru 23 í fangelsinu á Kvíabryggju og þar starfa 6 fangaverðir. Fjöldi afplánunarrýma í þessum fjórum fangelsum eru 171 og samanlagður fjöldi fangavarða 91, eins og kemur fram á vef Fangelsismálastofnunar.

Victor Gunnarsson, formaður Fangavarðafélagsins er harðorður í garð stjórnvalda. Hann segir að skortur sé á fangavörðum og úrræði fyrir fangaverði sem eru undir miklu álagi séu af skornum skammti. Auk þess eru laun fangavarða ekki í samræmi við ábyrgð og álag.

 

Álag á fangaverði veldur brotthvarfi
Victor starfar við fangavörslu á Litla-Hrauni og segir hann að ekki hafi verið neitt sjálfvirkt kerfi við lýði sem lítur eftir andlegri og tilfinningalegri líðan fangavarða í þau tuttugu ár sem hann hefur starfað sem fangavörður.

„Menn eru bara að gefast upp í vinnunni. Eftir að ráðist var á tvo fangaverði í janúar á þessu ári var sett upp kerfi sem virkar þannig að fangaverðir þurfa sjálfir að óska eftir aðstoð. Við vitum vel og það er í mannlegu eðli að leita sér ekki hjálpar fyrr oftast of seint eða þegar alvarlegir atburðir gerast eins og líkamsárásir og langvinn streita sé farin að hafa slæm áhrif. Það væri gott að fangavörðum yrði boðin aðstoð sem væri sýnileg og áberandi. Einnig væri gott ef yfirvöld fangelsismála viðurkenndu það mikla áreiti sem fangaverðir verða fyrir innan veggja fangelsa, brygðust við og hefðu teymi sérfræðinga á takteinum með opinn faðminn.“

 

Líflátshótanir daglegt brauð
„Fangaverðir eru margir hverjir að brenna út vegna álags; streitu, tilfinningalegs og andlegs álags. Hótanir um líflát eru daglegt brauð í fangelsum og það er ekki svo auðvelt að losna við það úr huganum og tilfinningalífinu án þess að geta rætt það við sérfræðinga sem eiga verkfærin til þess. Það er aldrei boðin fram aðstoð reglulega eins og ætti að vera. Fangaverðir geta ekki rætt um líðan sína vegna vinnunnar við fjölskyldur sínar og beinlínis mega það ekki samkvæmt lögum. Þá eiga margir fangar ekki heima í fangelsum heldur á öðrum stofnunum sem geta hjálpað þeim með viðeigandi hætti sem ekki er fyrir hendi í fangelsunum,“ segir Victor.

Þegar Victor er spurður um hvort fangaverðir séu á flótta úr störfum er svarið stutt: „já!“.

Í lögum frá Alþingi nr. 48/1988 eru þrjár greinar um starfsmenn í fangelsum. Hvergi er þar að finna ákvæði um andlega heilsu fangavarða, heilbrigði né öryggi. Augljóst er að ætla má að litið sé á störf fangavarða sem það vanmetnasta í löggæslunni innan hins opinbera, afskipt stétt. Úr því þarf að bæta með öðru en að setja upp blóm í gluggakistu eða skipta reglulega um ljósaperu. Fangaverðir eru starfsstétt sem hlúa þarf mikið að vegna eðlis starfsins. Fangaverðir eru, eins og kemur fram í svörum formanns Fangavarðafélagsins, undir miklu álagi sem stjórnvöld þurfa að viðurkenna og bregðast strax við.


Ráðherra hafnaði samtali um málefni fangavarða

Mikilvægt er, að sögn formanns Fangavarðafélagsins, að samtal um málefni fangavarða geti átt sér stað við stjórnvöld. Það skiptir máli að mikilvæg störf eins og fangavarsla séu álitin verðmæt í samfélagi sem vill kenna sig við velferð og félagið fái tækifæri til að ræða við ráðherra um málefni þess, þó ekki nema í stutta stund. Vilji Fangavarðafélagsins er að eiga talsamband og miðla upplýsingum til ráðuneyta sem varða þá.


Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafnaði ósk um fund um málefni fangavarða við stjórn Fangavarðafélagsins þegar þess var óskað, en m.a. átti að ræða um málefni fangavarða, kjör þeirra og starfsumhverfi. Ósk um fund með fjármálaráðherra, dagsett 31. maí sl., var ákveðin vegna þess að forstjóri Fangelsismálastofnunar, Páll Winkel, tjáði stjórn Fangavarðafélagsins að tekin hefði verið einhliða ákvörðun um að greiða fangavörðum helmingi lægri upphæð en þeir telja sig eiga inni vegna launamunar. Auk þess var vilji til að ræða við ráðherrann um styttingu vinnuvikunnar og hvaða áhrif hún hefði á störf fangavarða.

Í stuttu máli sagt hafnaði ráðherra fundi 23. júní sl., tæpum fjórum vikum eftir að ósk um fundinn barst, á þeim forsendum að ákvörðun hefði verið tekin um að greiða fangavörðum þann launamun sem ráðuneytið taldi viðunandi og vísaði á Fangelsismálastofnun. Victor segir að svo virðist sem stjórnvöld vilji ekki ræða málefni fangavarða og að viðhorf til starfa fangavarða séu þau að þeir séu olnbogabörn löggæslunnar.