28. apríl 2023
Árangurinn byggir á mikilli samheldni
Kristján Ásmundsson skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir.
„Við erum með mjög fjölbreyttan hóp í skólanum, allt frá afburðanemendum en líka nemendur sem þurfa aðstoð, bæði við athafnir daglegs lífs og þá sem þurfa sérstaka aðstoð við námið eins og kennslu maður á mann. Við erum með nemendur af erlendu bergi sem eru um 20 prósent allra og áskorunin liggur í að ná að aðlaga þessa nemendur íslensku samfélagi. Mikil áhersla er lögð á að kenna þessum hópi íslensku til að auðvelda þeim að fóta sig í íslensku samfélagi.“
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Heiða Helgadóttir
Fjölbrautaskóli Suðurnesja hlaut viðurkenninguna Stofnun ársins 2022 í flokki stórra stofnana hjá ríkinu en hefur sex sinnum áður hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndarvinnustaður. Skólinn hefur starfað síðan haustið 1976 og verið í stöðugum vexti frá stofnun. Kristján Ásmundsson er skólameistari og hefur gegnt því starfi síðan 2012.
Býsna langur tími á brautinni
Kristján hefur starfað í skólanum í 37 ár, en hann hóf þar störf sem kennari í stærðfræði og eðlisfræði eftir útskrift úr Kennaraháskólanum . Hann segir að árangurinn sé byggður á mikilli samheldni og jákvæðni sem einkennt hefur vinnustaðinn lengi.
„Þetta er nú orðinn ansi drjúgur tími. Ég er líklegast með lengstan starfsaldur þeirra í dag sem eru hérna,“ segir hann og hlær. Kristján þekkir það að „aka brautina“ fram og til baka hvern dag. Hann býr í Reykjavík og ekur í skólann alla daga. En hver er maðurinn?
„Ég er fæddur fyrir norðan, eða eins og ég segi stundum; ég er fæddur fyrir norðan á Skagaströnd, ættaður að vestan og ólst upp fyrir austan á Reyðarfirði en bý fyrir sunnan í Reykjavík. Öll þessi 37 ár hef ég keyrt á milli. Þannig að þetta eru orðnir ansi margir kílómetrar á brautinni,“ segir hann rólegri röddu og lítur traustu augnaráði til blaðamanns.
„Ég ætlaði að flytja hingað þegar ég hóf störf í skólanum en húsnæðið sem ég átti að fá var ekki tilbúið þannig að ég varð að keyra á milli. Það varð til þess að ég flutti aldrei til Keflavíkur. Við erum sjálfsagt 15–16 manns sem störfum í skólanum og keyrum hérna á milli til vinnunnar. Það er ósköp lítið mál að fara þessa leið, því við erum alltaf á móti umferðinni á brautinni á morgnana og sama þegar við erum að fara heim, þá erum við á móti þeim sem hingað koma úr Reykjavík.“
Enn að læra
Skólameistarinn er ekki af baki dottinn í að mennta sig, því hann er nýbúinn að ljúka við að taka meistararéttindi í matsfræðum. Hvað er nú það?
„Ég tók leyfi síðasta vetur því þá var ég að taka master í matsfærðum. Það er einfaldlega nám sem byggir á að geta lagt mat m.a. á skólastarf. Í náminu felast eigindlegar og megindlegar rannsóknir á skólastarfi og hvernig því er háttað, eins og ég valdi að gera í mínu námi. Þessi þekking hjálpar til þegar við gerum kennslumat meðal nemenda þar sem þau eru spurð um ýmsa þætti sem varða námið eins og kennsluna, kennarana o.s.frv. Þá hefur maður þekkinguna og tækin til að vinna úr slíku mati. Þegar búið er að vinna úr svörum nemenda í könnuninni þá er kennari boðaður í viðtal og farið yfir niðurstöðurnar og er eingöngu hugsað til að aðstoða starfsmanninn, að efla hann til að ná betri árangri í kennslunni. Við reynum að tengja árangur inn í stofnanasamninga skólans og þeir kennarar sem skora hátt hjá nemendum, og eins þeir sem eru duglegir að auka færni sína og sækja námskeið, eða með öðrum hætti, fá punkta í svokölluðu framgangskerfi. Þegar starfsmaðurinn nær ákveðnum punktafjölda þá hækkar hann um þrep í launatöflunni eitt skólaár í senn. Við erum að vinna að því að búa til kerfi þar sem hækkun í launatöflunni heldur sér þegar starfsmaður hefur unnið sér inn slíkan punktafjölda, t.d. fimm ár í röð. Þá heldur launahækkunin sér til frambúðar.“
„Við byggjum góðan starfsanda á að hægt sé að tala frjálst um líðan sína og allir viti dyrnar séu alltaf opnar fyrir slíku samtali.“
Jákvæðni og góður starfsandi aðalsmerki skólans
Fjölbrautaskóli Suðurnesja skoraði hátt í Stofnun ársins í atriðum sem varða stjórnun, starfsanda, vinnuskilyrði, sjálfstæði í starfi, ánægju og stolt, og jafnrétti. Hann segist vera mjög þakklátur en árangurinn í könnuninni sé fyrst og fremst góðu starfsfólki að þakka.
„Starfsandinn hérna er mjög góður, og hefur alltaf verið. Það er líka mikil samheldni hérna sem er mjög gott. Einnig er mikil jákvæðni ríkjandi meðal okkar, ekki neinir flokkadrættir, og ef eitthvað kemur upp á þá eru allir strax boðnir og búnir til að aðstoða viðkomandi. Þannig að aðalsmerki okkar er jákvæðni og góður starfsandi. Við byggjum góðan starfsanda á að hægt sé að tala frjálst um líðan sína og allir viti dyrnar séu alltaf opnar fyrir slíku samtali. Við göngum þá í að aðstoða eins og við getum til þess að koma til hjálpar og í því felst samstaðan, að allir hafi slíkan aðgang.“
Anda-fundir í hverri viku
Kristján segir það skipta vinnustaðinn miklu að hafa fengið viðurkenninguna Stofnun ársins 2022 og starfsfólkið sé stolt af þessum góða árangri í könnuninni, en mannauðsmálin séu ekki í höndum einungis eins starfsmanns. Þá hafi árangur skólans vakið athygli á svæðinu og viðurkenningin ýtt undir það viðhorf að þar sé gott að starfa og búa fyrir fjölskyldur.
„Við getum sagt að viðurkenningin veki líka athygli á því að hér er gott að búa og starfa. Við höldum þessu á lofti og erum stolt af. Varðandi mannauðsstjórnun þá er hún í samvinnu við aðstoðarskólameistarann Guðlaugu Pálsdóttur. Við vinnum saman að þessu, það er enginn einn sem er í því starfi. Við erum ekki með starfandi sérstakan mannauðsstjóra. En auk þess aðstoða okkur í mannauðsmálum þrír námsstjórar þar sem fjallað er um starfið og boðið upp á veitingar eins og t.d. þær sem þér var boðið áðan inn á kennarastofunni,“ segir Kristján og skellir upp úr. Þar voru á borðum ýmsar tegundir þurrkaðra skordýra sem blaðamaður smakkaði, stakk þeim upp í sig, tuggði og kyngdi án þess að líta á skólameistarann.
„Ég vil halda því fram að nemendur sem hingað sækja geti treyst því að þau fái hér öflugt og gott nám þannig að það skili þeim áfram inn í framtíðina.“
„Við höldum reglulega saman fundi sem við köllum anda-fundi. Það eru fundir með stjórnendum; áfangastjórum, námsstjórum og bókasafnsfræðingnum okkar, sem er ritari fundarins og við skiptum á milli okkar að sjá um léttar veitingar. Þar förum við yfir allt starfið og hverju við þurfum að bregðast við og vinna úr í framhaldinu. Við höfum markað okkur stefnu sem við vinnum eftir og viljum vinna markvisst og meðvitað eftir þeirri stefnu. Við gefum svo út blað fyrir starfsfólk skólans til að miðla því sem er að gerast í starfseminni sem við köllum Andapóstinn,“ segir hann og brosir.
Samfélag virkar ekki nema öllum líði vel
Kristján segir að eðlilegt sé að taka tillit til líðanar starfsfólks-ins og það sé ábyrgðarhlutverk sem þurfi alltaf að vera vakandi yfir.
„Við verðum alltaf að vera vakandi fyrir líðan starfsfólksins og nemenda okkar. Skóli er samfélag. Samfélagið virkar ekki nema öllum líði vel og við verðum að vera vakandi yfir öllum þáttum þess, bæði hvað varðar kennarana sem eru um 70 og annað starfsfólk, að meðtöldum stundakennurum, sem er um 30 talsins. Við erum með 900–1000 nemendur í skólanum á hverjum tíma og við verðum að passa upp á að þar ríki jákvæðni og góð líðan alls staðar. Skólastarf þrífst ekki nema með því að halda starfsfólki og nemendum jákvæðum þannig að þeir geti sinnt sinni vinnu. Mikilvægur þáttur í því er að skapa það umhverfi og að vera ætíð til staðar þegar eitthvað bjátar á. Það á jafnt við um starfsfólk og nemendur. Þá er alltaf verið að hlúa að félagsstarfinu líka. Forsenda þess að ná árangri í námi er vellíðan og er eitt að markmiðum skólans. Til þess að nemendum líði vel þarf starfsfólkinu einnig að líða vel í starfi. Áhrifin af því starfi okkar innan skólans, og endurspeglast m.a. í að vera valin Stofnun ársins, er að skapa jákvætt andrúmsloft, sem er laust við spennu og togstreitu sem aftur smitast út í skólasamfélagið. Ég vil halda því fram að nemendur sem hingað sækja geti treyst því að þau fái hér öflugt og gott nám þannig að það skili þeim áfram inn í framtíðina. Góð líðan, öryggi og traust skilar sér svo áfram út í samfélagið almennt.“
Nemendur koma víða að úr heiminum
Kristján segir að í skólanum sé mikil breidd í námsframboði og hópur nemendanna fjölbreyttur. Í skólanum eru töluð tungumál hvaðanæva úr heiminum. Fjölbrautaskóli Suðurnesja tekur á móti öllum nemendum en ekki aðeins rjómanum úr hópi umsækjenda.
„Aðstæðurnar sem við getum lent í geta því verið mjög krefjandi fyrir kennarana.“
„Við erum með mjög fjölbreyttan hóp í skólanum, allt frá afburðanemendum en líka nemendur sem þurfa aðstoð, bæði við athafnir daglegs lífs og þá sem þurfa sérstaka aðstoð við námið eins og kennslu maður á mann. Við erum með nemendur af erlendu bergi sem eru um 20 prósent allra og áskorunin liggur í að ná að aðlaga þessa nemendur íslensku samfélagi. Mikil áhersla er lögð á að kenna þessum hópi íslensku til að auðvelda þeim að fóta sig í íslensku samfélagi. Þetta reynir líka á kennarana því mörg úr þessum hópi kunna heldur ekki ensku og þekkja jafnvel ekki stafrófið sem við erum með. Aðstæðurnar sem við getum lent í geta því verið mjög krefjandi fyrir kennarana. Oftar en ekki er himinn og haf á milli nemenda sem koma hingað erlendis frá og eru þau vön allt öðrum siðum og venjum en þekkist í okkar samfélagi. Hins vegar er vilji þeirra sem hingað koma, t.d. frá Úkraínu, til að mennta sig mjög mikill vegna þess að þau sjá tækifærin í að mennta sig. Okkar skylda er að taka á móti nemendum og hjálpa þeim að verða sér út um menntun, það skiptir miklu máli,“ segir Kristján Ásmundsson að lokum.