4. október 2023
„Það þarf alltaf að vera vakandi yfir launamun kynjanna“
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. Ljósmynd/BIG
Við hugsum alltof sjaldan um það hvernig höfuðborgarsvæðið var og er skipulagt. Hvernig það var skipulagt á árunum upp úr 1960 skilur eftir risastóran reikning hjá meðalstóru heimili í dag sem þarf kannski að reka tvo bíla, jafnvel fleiri til að komast um borgina.
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Dagur B. Eggertsson sem verið hefur borgarstjóri í Reykjavík í tæp10 ár ræðir hér um málefni borgarinnar, kjarasamninga og málefni flóttafólks, málefni fatlaðra, húsnæðismál og samgöngumál frá sjónarhóli læknisins o.fl.
Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður á landinu og starfsfólk borgarinnar er um ellefu þúsund talsins. Hjá Reykjavíkurborg er unnið eftir mannauðsstefnu sem samanstendur m.a. af jafnlaunavottun, jafnlaunakerfi og starfsmati.
Dagur segir að hann sé „gríðarlega stoltur“ af starfsfólki borgarinnar, en mikilvægt sé að vera alltaf vakandi yfir launamun kynjanna. Þá hafi starfsmatið hjálpað mikið við að rétta þann mun sem er nú innan við eitt prósent.
Félagsfólk í Sameyki sem starfar hjá Reykjavíkurborg eru liðlega fimm þúsund talsins og er stærsti einstaki hópurinn frá einum vinnustað innan Sameykis. Félagsfólkið samanstendur af 63% kvenna og 37% karla og er af stærstum hluta á aldursbilinu 16-45 ára. Ungar konur innan félagsins eru því í miklum meirihluta starfandi hjá borginni og sinna þar mikilvægum störfum í grunnþjónustunni; þjónustu við fatlaða, umönnunarstörfum, frístundar- og menningarstörfum, og uppeldis- og fræðslustörfum.
„Auðvitað er klúður að peningar hafi ekki fylgt með auknum kröfum með lagasetningu. Það er hins vegar ekki alveg rétt hjá ráðherranum, að þegar lögin voru sett hafi enginn bent á þann augljósa kostnaðarauka sem lagabreytingunum fylgdu.“
Ræðum um launajöfnun
Reykjavíkurborg gekk á undan öðrum sveitarfélögum þegar samið var í síðustu kjarasamningum. Önnur sveitarfélög vildu ekki ganga eins langt og Reykjavíkurborg og því kom til verkfalla. Hvað í launasetningunni skiptir mestu máli á stærsta vinnustað landsins?
„Ég er býsna stoltur af því að á síðustu tíu árum höfum við séð breytingar á launasetningu og kjörum sem við ræðum mjög sjaldan. Reykjavíkurborg hefur verið þar í fararbroddi því að lægstu laun hafa hækkað umfram önnur laun hjá okkur, og ef þú skoðar launajöfnuð þá er hann mestur hjá Reykjavíkurborg meðal stórra launagreiðenda í landinu. Við horfum á Reykjavíkurborg sem einn vinnustað, eina heild, á meðan ríkið horfir á staka hluta, hina og þessa vinnustaði. Þeir hópar sem hafa fengið leiðréttingu launa umfram aðra eru stóru kvennastéttirnar sem starfa hjá borginni. Ég vil taka fram að ég er ekki að segja að sá björn sé unninn. Alltaf þarf að vera vakandi fyrir launamun kynjanna og ég er ekki heldur að segja að síðasti kjarasamningurinn hafi verið gerður. Það er aldrei þannig. Þegar launaþróunin er skoðuð sjáum við til dæmis að leikskólakennarar hafa í gegnum þrjá kjarasamninga færst úr því að vera töluvert fyrir neðan aðra háskólamenntaða í að vera í jafnri stöðu. Á mínum fyrsta degi í embætti borgarstjóra voru settar 10 prósent álagsgreiðslur ofan á laun leikskólastarfsfólks sem enn hafa haldist til dagsins í dag. Þannig var það mitt fyrsta verk að hækka launin þar en líka hefur þetta náð til annarra umönnunarstétta. Þetta er veruleg kjarabót fyrir þau sem eru á lægstu laununum.“
Dagur segir að þrjár byltingar hafi verið gerðar í kjarasamningum sem Reykjavíkurborg á þátt í – sé í raun upphafsaðili að.
„Það eru í raun þrjár stórar byltingar á vinnumarkaði sem eiga allar rætur sínar að rekja til forystu Reykjavíkurborgar. Fyrst ber að nefna feðraorlofið. Í tíð Ingibjargar Sólrúnar sem borgarstjóra var farið í tilraunaverkefni að leyfa feðrum að fara í feðraorlof. Kastljósviðtal við vöðvastæltan föður í feðraorlofi kláraði eiginlega þá pólitísku umræðu – ég verð að segja það. Önnur byltingin er að útrýma launamun kynjanna, og þér gæti nú dottið í hug hvers vegna í ósköpunum ég segi útrýma. Það er vegna þess að þegar þú skoðar launatölur stjórnvöld Reykjavíkurborgar ganga lengst í því að fá óháðan aðila til að skoða launin hjá sér sem einn vinnustað, að launamunurinn er innan við eitt prósent. Innan við eitt prósent, sem er innan tölfræðilegra skekkjumarka sem enginn trúði að væri hægt því hann var áður, á árunum 1995–96, alltaf um fjórðung lægri,“ segir Dagur háum rómi. „Þetta tókst með frábæru samstarfi við stéttarfélögin í gegnum starfsmatið þar sem við höfum kerfisbundið verið að endurmeta störf og hækka laun í samræmi við það,“ bætir Dagur við.
„Þriðja stærsta byltingin er svo stytting vinnuvikunnar. Það er ekki einfalt verkefni. Tilraunaverkefnið okkar varðandi styttingu vinnuvikunnar gekk vel en kallaði á mikla samstöðu, samtal og útsjónarsemi á vinnustöðunum. Auðvitað er stytting vinnuvikunnar gerð til að bæta velsæld og lífsgæði okkar starfsfólks án þess að það myndi bitna á þjónustunni. Við vildum ekki bjóða borgarbúum upp á að velja á milli styttri vinnuviku eða verri þjónustu. Verkefnið hefur heppnast vel – við getum verið stolt af þessu og Sameyki og verkalýðshreyfingin líka.“
Tekið við þjónustu í lamasessi
Fjármálaráðherra sagði nýverið í fréttum að það væri „ótrúlegt klúður þegar sveitarfélögin segja að kostnaðarauki við málaflokkinn sé einn milljarður en svo örfáum árum síðar segja menn, nei þetta eru 20 milljarðar.“ Hvað segir Dagur um þessi ummæli Bjarna Benediktssonar og hvers vegna vantar svona mikla fjármuni í málaflokkinn frá ríkinu?
„Ég held að það hafi verið gríðarlegt gæfuspor fyrir samfélagið allt og fólk með fötlun þegar málaflokkurinn var færður frá ríki til sveitarfélaganna. Það sem var vanmetið á sínum tíma í samningunum voru þættir í þjónustunni sem voru í algjörum lamasessi. Við hjá Reykjavíkurborg höfum byggt upp 18 búsetukjarna sem stuðla að sjálfstæðri búsetu víðs vegar um borgina og höfum komið til móts við þarfir fatlaðs fólk og fjölskyldur þeirra sem voru fyrir í miklum vanda. Þessi úrræði voru ekki til staðar áður hjá ríkinu fyrir þennan hóp. Þessu verkefni er ekki lokið og það er hárrétt sem þú bendir á, að forsendur hafa breyst og lög um málaflokkinn líka, en fjármunir hafa ekki fylgt með frá ríkinu. Sérstaklega 2018 eftir lagabreytingarnar sem leiddu til mikils kostnaðarauka án þess að nokkurt opinbert fé hafi fylgt. Við höfum ítrekað gagnrýnt þetta, ekki vegna þess að við viljum ekki veita þjónustuna með nútímalegum hætti í þágu fólks með fötlun, heldur til að sækja þá fjármuni til ríkisins sem þarf til að veita þjónustuna. Gatið milli þeirrar þjónustu sem veitt er og þeirra fjármuna sem fylgja frá ríkinu er nú 9 milljarðar á ári. Það munar gríðarlega um þessa fjármuni í rekstri sveitarfélaganna því þessi skortur á fjárveitingu ríkisins til málaflokksins hefur neikvæð áhrif á fjármál borgarinnar og fjárframlög hennar til annarra verkefna. Þess vegna hefur svigrúm sveitarfélaganna til að velja leiðir varðandi hvernig þjónustan er útfærð minnkað, frekar en að sveigjanleikinn hafi aukist – eins og við viljum frekar. Við erum býsna skýr og einörð í ætlun okkar að sækja þá fjármuni til málaflokksins sem upp á vantar.“
Sammála Bjarna að ótrúlegt klúður sé að nægt fé fylgi ekki málaflokki fatlaðra
„Starfsfólk Reykjavíkurborgar, sem ég er gríðarlega stoltur af, sem starfar í þessum málaflokki og sérfræðingar sem þekkja vel til hans, geta ekki tekið undir þá fullyrðingu fjármálaráðherrans að verið sé að ofþjónusta fatlað fólk. Í greiningu á fjárþörfinni til málaflokksins er kannski ekki óeðlilegt að sú spurning komi upp hvort verið sé að ofþjónusta málaflokkinn. Það hefur verið sest yfir það og það er afdráttarlaus niðurstaða að það er ekki verið að ofþjónusta fatlað fólk, bara alls ekki. Reykjavíkurborg vill tryggja mannréttindi fatlaðs fólks og veita því góða þjónustu á hagkvæman hátt. Allir þurfa að átta sig á að það kostar peninga að tryggja öllum manneskjulegt húsnæði og samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd. Nú er búið að verja tveimur árum í að greina stöðuna og það er gríðarlega brýnt í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum að bregðast við núna strax. Þegar fjármálaráðherra segir þetta vera klúður þá er ég sammála því. Auðvitað er klúður að peningar hafi ekki fylgt með auknum kröfum með lagasetningu. Það er hins vegar ekki alveg rétt hjá ráðherranum, að þegar lögin voru sett hafi enginn bent á þann augljósa kostnaðarauka sem lagabreytingunum fylgdu. Þó að ráðuneytin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi ekki áttað sig á að fjárveiting fylgdi ekki lögunum gerðum við það hjá Reykjavíkurborg og erum með gögn því til staðfestingar. Starfsfólk Reykjavíkurborgar stendur með fötluðu fólki og það brennur af áhuga að fatlað fólk fái sanngjarna þjónustu.“
Dagur segir að það sé dálítið magnað að stærsti áhættuþátturinn í fjármálum íslenskra sveitarfélaga sé ríkið.
„En í þessu sambandi er það dálítið magnað í efnahagsumhverfi þar sem verðbólgan er í kringum átta prósent og gengið á íslensku krónunni sveiflast, ásamt óvæntum efnahagslegum uppákomum sem geta komið upp, er stærsti áhættuþátturinn í fjármálum íslenskra sveitarfélaga ríkið. Við eigum í stöðugt í samtölum við ríkisvaldið, ráðherra og ráðuneyti að þoka þessum málum áfram og ég vona að við náum farsælli niðurstöðu áður en langt um líður í þessum málaflokki,“ segir borgarstjóri.
Reykjavíkurborg tekur á móti 77 prósent fólks á flótta
Dagur segir að málefni flóttafólks séu umfangsmikið verkefni hjá Reykjavíkurborg, en miðað við stærðargráðuna hefur móttaka flóttafólks gengið vel, þökk sé starfsfólki Reykjavíkurborgar. Hann segir að borgin sé með samninga við ríkið varðandi komu flóttafólks og þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd.
„Reykjavíkurborg er eitt af þremur sveitarfélögum, með Reykjanesbæ og Hafnarfirði, sem hafa mesta reynslu í þessum málefnum. Það sem við höfum fundið helst að er þessi brýnu verkefni mætti dreifast jafnar á sveitarfélögin um landið en Reykjavíkurborg er að taka á móti 77 prósentum þeirra sem hingað koma. Full fjármögnun í móttöku flóttafólks skiptir miklu máli en stóri þátturinn sem stendur út af borðinu er stuðningur við börn á skólaaldri.
Þegar umfangið var minna voru gerðir samningar við ríkið sem voru skraddarasaumaðir um hvern hóp og þá var sveitarfélögunum mætt af mikilli sanngirni til að mæta sérstökum stuðningi þessara hópa innan skólakerfisins. Þá eins og nú skiptir það verulegu máli þegar börn koma þaðan sem slitrótt eða engin skólaganga hefur verið jafnvel árum saman. Núna þegar stærstu hóparnir hafa verið að koma, t.d. frá Úkraínu og Venesúela, er þessu öðruvísi háttað. Meginhluti barna frá Úkraínu er með órofna skólagöngu og býsna vel í stakk búinn að setjast hér á skólabekk og læra. Þau þurfa engu að síður stuðning þegar þau koma inn í nýtt samfélag og þar hefur vantað skilning hjá ríkinu, en Reykjavík hefur verið tilbúin til að taka þátt í þessum verkefnum og viljað vera griðastaður fólks á flótta.
Það þarf að standa vel að þessu en við þekkjum auðvitað dæmi þess, að ef ekki er staðið vel að móttöku flóttafólks frá upphafi, þá einangrast þessi hópur frá samfélaginu og upplifir vonleysi til lengri tíma. Þarna gegnir skóla- og menntakerfið lykilhlutverki að styðja við þessi börn, að þau fóti sig vel í nýju landi og því er mikilvægt að við eigum í gagnlegu samtali og samvinnu um þessi mál. Umræður um fjöldatölur og beinan kostnað við móttöku flóttafólks má ekki yfirskyggja þá langtímasýn gagnvart því að taka vel á móti fólki inn í landið.“
Þurfum að búa til húsnæðissáttmála
Spurður um húsnæðismálin segir Dagur að þau séu honum hjartans mál. Hann segir að saga Reykjavíkurborgar sé saga samfelldrar húsnæðiseklu.
„Þessi málaflokkur stendur mér gríðarlega nærri hjarta. Reykjavík hefur verið í samfelldum vexti síðastliðinn 100 ár og því held ég að margar, ef ekki allar kynslóðir fjölskyldna í Reykjavík eigi sína reynslusögu af húsnæðiseklu. Afi og amma hröktust með börnin sín í Mosfellsdal vegna húsnæðiseklu þegar pabbi var að alast upp. Þegar mamma flutti í bæinn með sinni fjölskyldu þá var fyrst flutt inn í eitt og hálft herbergi í kjallaraíbúð, hjón með fimm börn. Víða bjó fólk mjög þröngt í borginni hér áður fyrr og þess vegna hefur það verið alltaf rauður þráður hjá mér að muna eftir húsnæðismálunum,“ segir Dagur.
Hann segir að enn sé verið að bíta úr nálinni með þá skelfilegu ákvörðun um að leggja niður verkamannabústaðakerfið sem sá ungu barnafólki, verkafólki, láglaunafólki og fólki með lægri millitekjur fyrir öruggu framtíðarhúsnæði.
„Við erum enn að bíta úr nálinni með að verkamannabústaðakerfið var lagt niður um aldamótin þegar ákveðið var að treysta einungis markaðnum fyrir húsnæðismálum þjóðarinnar. Í raun gerðist ekkert af alvöru í húsnæðismálum sem kom í staðinn fyrr en Bjarg íbúðafélag var stofnað í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, ASÍ og BSRB, að koma í gegn lögum um almenna íbúðakerfið eins og það var kallað. Við skrifuðum sameiginlega yfirlýsingu með áðurnefndum bandalögum á 100 ára afmælisdegi Alþýðusambandsins 12. mars 2016 um fyrstu 1000 íbúðirnar og stofnun Bjargs. Það var alveg rétt metið hjá verkalýðshreyfingunni og Reykjavíkurborg að þetta vantaði á húsnæðismarkaðinn. Við höfum með sambærilegum hætti unnið að byggingu stúdentaíbúða sem eru núna nærri 2000 talsins. Það tók fimmtíu ár að byggja fyrri þúsund íbúðirnar, en fimm ár að byggja seinni þúsund. Þannig að þetta er spurning um viðhorf, vilja og stefnu í húsnæðismálum. Meðan Reykjavíkurborg hefur byggt svona húsnæði hefur ekkert gerst í nágrannasveitarfélögunum af þessum skala fyrir þessa hópa. Ef öll sveitarfélögin væru að ganga í takt í húsnæðismálunum myndum við ná markinu tvöfalt hraðar. Því er umhugsunarvert, að þegar ríkisstjórnin er komin með sýn á hvernig eigi að gera þetta og gengur í takti að þessu leyti við verkalýðshreyfinguna, ásamt að boða samninga við öll sveitarfélögin um uppbyggingarátak húsnæðis á Íslandi, þá er einungis eitt sveitarfélag sem hefur gert slíkan samning og það er Reykjavíkurborg. Í þeim samningi erum við að segja að 30 prósent af uppbyggingunni verða hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, fólk með lágar tekjur. Líka verða 5 prósent íbúða byggðar sem félagslegar íbúðir á vegum borgarinnar fyrir þá sem hafa allra minnst á milli handanna.“
Borgarstjóri segir ótvírætt að Reykjavíkurborg hafi algjöra forystu í húsnæðismálum þjóðarinnar.
„Það er alveg ótvírætt að Reykjavíkurborg hefur forystu í húsnæðismálum á Íslandi. Við höfum í samstarfi við verkalýðshreyfinguna verið að þróa aðferðir og fjármögnunarmódel á síðustu árum sem hafa reynst þannig að til hefur orðið ný húsnæðisstefna fyrir Ísland. Því miður hefur ekki tekist að gera fleiri samninga við ríkið og lífeyrissjóði. Það þarf að búa til húsnæðissáttmála alveg eins og við búum til t.d. samgöngusáttmála. Það gengur ekki að við séum bara að sinna hópi sem borgar hæsta verð fyrir húsnæði heldur þarf að huga að heildinni. Fólk þarf ekki endilega allt það sama heldur þurfa allir öruggt þak yfir höfuðið á verði sem það ræður við.
Sjónarmið læknisins
Hver er sýn Dags á skipulag borgarinnar, bæði hvað varðar samgöngumál og húsnæðismál, frá sjónarhóli lýðheilsunnar – læknisins?
„Fyrir hundrað árum voru baráttumenn fyrir bættum húsakosti í Reykjavík læknar. Einn þeirra var borgarstjóri í Reykjavík, Guðmundur Hannesson læknir, og þó að hann hafi verið sjálfstæðismaður hélt hann erindi á þingi jafnaðarmanna um húsnæðismál Reykvíkinga og barðist fyrir því t.d. að nota steinsteypu í hús ásamt að tryggja gott loft í húsum miðað við sem áður var, tryggja hita o.s.frv. Ég held að vel sé hægt að spyrja sig hvort læknirinn leiti í húsnæðismálin vegna vegna þekkingar á lýðheilsu og heilsu fólks. Mér er annt um þetta því lýðheilsa er kjarninn í samfélaginu og að góðum lífsgæðum. Lýðheilsa skiptir líka máli í lífi fjölskyldunnar – hvernig við náum endum saman. Stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar er húsnæði en þar á eftir, nokkuð jafnhár, er matur og samgöngur.
Við hugsum alltof sjaldan um það hvernig höfuðborgarsvæðið var og er skipulagt. Hvernig höfuðborgarsvæðið var skipulagt á árunum upp úr 1960 skilur eftir risastóran reikning hjá meðalstóru heimili í dag sem þarf kannski að reka tvo bíla, jafnvel fleiri til að komast um borgina. Við vitum að það er mjög dýrt að þjóna dreifðari byggð með góðum almenningssamgöngum. Þess vegna erum við að skipuleggja hvernig almenningssamgöngur eiga að vera í framtíðinni. Við sjáum fyrir okkur að 80 prósent af uppbyggingu nýs húsnæðis verði í kringum góðar almenningssamgöngur svo fólk geti losnað við eitthvað af þeim kostnaði sem fylgir einkabílnum. Þetta er þó ekki raunhæft nema samgöngurnar verði miklu, miklu betri.
Einkavæðing í samgöngum og borgarlínan
Félagsfólk í Sameyki sem starfar hjá Strætó bs. hefur mótmælt harðlega öllum hugmyndum um einkavæðingu á akstursleiðum Strætó og haft miklar áhyggjur af lægri kjörum og skertri þjónustu sem alltaf fylgir þegar opinber þjónusta er einkavædd.
„Við náðum ákveðnum viðsnúningi í rekstri Strætó bs. á síðustu tíu árum. Í raun er það þannig að farþegum hefur farið fækkandi ár frá ári nánast frá 1970 en á síðustu tíu árum hefur þeim farið að fjölga aftur. Svo varð met í farþegafjölda árið eftir COVID-19. Heimsfaraldurinn setti auðvitað strik í reikninginn. Það sem fólk áttar sig almennt ekki á er að núverandi Strætó bs. er sett saman úr tveimur mismunandi fyrirtækjum, SVR sem var í opinberum rekstri og svo strætófélög nágrannasveitarfélaganna sem öll voru rekin í verktöku. Það sem ekki hefur breyst er að þetta er enn blandað innan félagsins í dag, verktakar sem aka vögnum og svo starfsmenn Reykjavíkurborgar. Spurning er hvort farin verði sú leið sem er á Norðurlöndunum að bjóða allar leiðir út en þar eru strætófélögin sem stjórna starfseminni og hvaða leiðir eru eknar o.þ.h. Það sem hefur vakið athygli og eru skiptar skoðanir um er að hvort hver kílómetri sem er ekinn sé misdýr eftir því hvort að um beint ráðningarsamband sé við strætó eða ekki. Svo líka hvort það sé sveigjanleiki í að hafa hluta vagnaflotans undir beinni stjórn sem við myndum missa ef allt færi í útboð. Um þetta snýst umræðan,“ segir hann.
Er þetta ekki alltaf spurning um traust og er ekki rétt að fólk treystir ekki einkavæðingunni? Getur fólk treyst því að þjónustan batni, að fargjöldin rjúki ekki upp í verði þegar akstursleiðir eru settar í útboð?
„Já það er alveg rétt en við höfum í raun góða reynslu af hvoru tveggja, að vera með vagnstjóra í vinnu hjá Reykjavíkurborg og líka að helmingur kerfisins sé keyrður af verktökum. Ég vil benda þér á að öllum akstri í ferðaþjónustu fatlaðra er sinnt af verktökum. Þessu fylgja kostir og gallar sem við verðum að ræða saman um.“
Hver er framtíð borgarlínunnar? Borgarbúar vilja ekki þessa umferðarstöppu og miklu umferð á morgnana og eftirmiðdaginn úr og í vinnu. Er það lýðheilsuspurning framtíðarinnar?
„Svarið er að þetta er hluti af heildarmynd sem botnar í því hvað skapar lífsgæði og hvaða val við viljum hafa í lífi okkar í samgöngum. Því miður skiptist umræðan oft á milli hjólara og bílstjóra og þannig er verið að skipa okkur í skotgrafir, en í raunveruleikanum viljum við kannski geta ferðast meira án bílsins, en til þess þurfa samgöngur að batna með borgarlínunni. Við viljum geta tekið strætó og komist heim til okkar í stað þess að sitja undir stýri í umferðinni og bíða. Borgarlínan á að vera í forgangi í samgöngumálum vegna þess að hún nýtist öllum best, líka þeim sem ætla aldrei að nota hana vegna þess að hún mun létta mikið á umferðinni. Í rannsókn sem við gerðum 2012–13 kom í ljós að ef við ætlum að nota einkabílinn áfram kemur að því að umferðin verður stopp. Við erum komin þangað. Þá vissum við að við værum að undirbúa okkur undir vöxt á höfuðborgarsvæðinu sem nemur 70 þúsund manns til ársins 2040. Það er einn Kópavogur, einn Garðabær og hálfur Hafnarfjörður eða álíka. Núna 2023 hefur vöxturinn orðið meiri en við spáðum og um mitt þetta ár hefur fólki fjölgað á höfuðborgarsvæðinu í 45 þúsund manns og verður búið að fjölga í 50 þúsund manns í lok ársins. Það er því ekkert skrýtið að umferðin sé svona treg á morgnana. Við vorum búin að spá því að ef ekki kæmi afkastameiri almenningssamgöngur þá myndi umferðin verða stopp. Þetta liggur fyrir en það hefur tekið tíma að koma þessu af stað og ég tel að við séum á þröskuldinum að fara með borgarlínuna af stað. Það er mikilvægt að það komi ekki hik og að við leysum úr því að sveitarfélögin og ríkið fjármagni verkefnið til fulls og drífum í að koma borgarlínunni á koppinn. Það er lýðheilsumál.“
En hver er þín framtíð?
„Hún er vonandi bara góð,“ segir Dagur og hlær en heldur áfram: „Það verða borgarstjóraskipti eftir miðjan janúar á næsta ári, þá er ég búinn að vera borgarstjóri í tíu ár. Þetta eru svona kaflaskipti og þá ég tek við formennsku í borgarráði en svo sjáum við bara hverju fram vindur í lífinu,“ segir hann og veltir vöngum.
Viljum við sjá Dag B. Eggertsson í landsmálunum, fara á þing og láta til sín taka þar?
„Það verður bara að koma í ljós. Ég hef aldrei útilokað það en ekki lofað því heldur. Það hefur mjög oft komið til tals en einhvern veginn hefur hjarta mitt verið í borgarmálunum og mér finnst skipta miklu máli að þau hafi framgang. Einnig vil ég sjá verkefni ná til enda. Ég er ekkert hlaupinn neitt annað í bili,“ segir Dagur B. Eggertsson og hleypur á næsta fund.