4. desember 2023
Spila með ótta og samsæriskenningar
Hulda Þórisdóttir prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Ljósmyndir/BIG
„Hér áður fyrr og kannski alveg fram til ársins 2016 var það bara talið akademískt hobbí að skoða samsæriskenningar og það væri kannski ekki mikil þörf á því. Það viðhorf snarbreyttist eftir Brexit og síðar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og samsæriskenningarnar tóku flugið fyrir alvöru.“
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Hulda Þórisdóttir er prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún er doktor í sálfræði og hennar sérsvið er stjórnmálasálfræði, stjórnmálaviðhorf, samspil tilfinninga og stjórnmálaskoðana og samsæriskenningar. Eftir doktorsútskrift 2007 starfaði hún í Princetonháskóla í Bandaríkjunum, síðan lá leiðin til Háskóla Íslands 2009 þar sem hún starfaði sem lektor, síðar dósent og nú prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ frá því í sumar. Árin 2018–20 gegndi hún stöðu aðstoðarprófessors í sálfræði við New York-háskóla í Abu Dhabi og stundaði þar þverfaglegar rannsóknir í stjórnmálasálfræði.
Hulda er einn helsti rannsakandi og sérfræðingur þjóðarinnar í þessu samspili viðhorfa almennings til stjórnmála og samfélags. Við settumst niður á heimili hennar í Laugarneshverfinu og ræddum saman um stjórnmálafræði og sálfræði og hvernig það tvennt fer saman. Tíu dögum eftir að Hulda hóf doktorsnám í New York-háskóla voru árásirnar á Tvíburaturnana í World Trade Center gerðar. Hún segir að doktorsverkefni sitt hafi mótast mjög af þeim atburðum og í kjölfarið hafi hún í rannsóknum sínum leitast við að svara því hvers vegna fólk hefur ákveðnar skoðanir – og hvort og þá hvað í umhverfinu hefur áhrif á þær skoðanir.
Á þessum tímum var fólk uppfullt af ótta og ég sá hvernig stjórnmálafólk og fjölmiðlar spiluðu mikið með óttann sér í hag.
„Rannsóknir mínar eru á þverfaglegu sviði stjórnmála-sálfræði. Þó ég starfi í stjórnmálafræðideildinni er öll mín menntun, BA-próf, meistarapróf og doktorspróf í sálfræði. Því nálgast ég mín viðfangsefni og rannsóknir, hvers vegna fólk hefur ákveðnar skoðanir og hverju þær tengjast, með gleraugum sálfræðinnar. Vegna atburðanna í New York mótaðist mitt doktorsverkefni mjög af þessu. Þar rannsakaði ég áhrif ótta og kvíða á stjórnmálaskoðanir fólks. Á þessum tímum var fólk uppfullt af ótta og ég sá hvernig stjórnmálafólk og fjölmiðlar spiluðu mikið með óttann sér í hag. Það fannst mér mjög áhugavert að verða vitni að. Ég byrjaði þá að skoða sálfræðilega forspárþætti þessa kerfis, þegar fólk sagðist vera annaðhvort til vinstri eða til hægri í stjórnmálunum sem leiddi mig svo árið 2016 í að kanna samsæriskenningar sem segja má að séu ekki svo fjartengdar atburðunum 11. september.“
Hulda starfar einnig á sviði hagnýtingar félagslegrar sálfræði sem er ótengt stjórnmálasálfræðinni, í svonefndum hegðunarvísindum. Þar er fengist við rannsóknir á hvernig hjálpa má fólki og stjórnvöldum í að fylgja eftir ætlunum sínum um góða hegðun; að hanna stefnur með velferð fólks í huga. Hún segir að vegna smæðar Íslands sé það á eftir mörgum vestrænum löndum í þessum efnum en þetta sé fastur liður í stjórnsýslukerfum norrænu landanna – að vísindasamfélagið hjálpi fólki en líka stjórnvöldum að fylgja eftir þeim velferðarstefnum sem þau hafa lofað almenningi að móta eftir kosningar. Hún segir að á Íslandi sé mikill áhugi fyrir slíku samstarfi en það skorti mannskap og fjármagn til að hrinda slíku verkefni eða hugmyndafræði af stað og opna sérstaka skrifstofu. Hún segist þó trúa því að stutt sé í að það breytist.
Samsæriskenningar taka flugið
En áfram með samsæriskenningarnar. Þetta er djúpt rannsóknarefni og ekki á hvers manns færi að tala um stjórnmálasálfræði. Um hvað ertu að tala?
„Sko,“ segir Hulda og hlær. „Hér áður fyrr og kannski alveg fram til ársins 2016 var það bara talið akademískt hobbí að skoða samsæriskenningar og það væri kannski ekki mikil þörf á því. Það viðhorf snarbreyttist eftir Brexit og síðar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og samsæriskenningarnar tóku flugið fyrir alvöru um þetta leyti. Sem fræðimaður og rannsakandi samsæriskenninga fannst mér mjög áhugavert að verða vitni að þessum breytingum. Þessu varð ég líka vitni að í Brexit þar sem mikið var um samsæriskenningar í kringum það. Allt fer þetta svo í einn hrærigraut við upplýsingaóreiðuna, þó að hún feli ekki endilega í sér samsæriskenningar. Í Brexit var í gangi kenning sem kennd er við The Great Replacement Theory [er þekkt samsæriskenning hvítra þjóðernissinnaðra hægriöfga] sem tekur á sig margar birtingarmyndir en í Brexit umhverfðist hún um að öfgafullir múslimar í Arabalöndunum hefðu vísvitandi sent fólk á sínum vegum til Evrópu til þess að ná þar yfirhöndinni, koma á Sharia-lögum og taka yfir álfuna. Þessi kenning er sterk meðal hægri þjóðernispopúlískra flokka í Evrópu.“
„Það er algjörlega þannig, af ýmsum sálfræðilegum ástæðum, að covid-faraldurinn er einn sá frjóasti jarðvegur sem þú getur fundið fyrir uppsprettu samsæriskenninga.“
Hópur satanískra mannæta
Hulda segir að eins sé farið í Bandaríkjunum sem kalla megi vöggu samsæriskenninganna. Hún segir að þær hafi svo tekið flugið í kosningabaráttu Donalds Trump og tengt saman áður Pizzagate og í beinu framhaldi QAnon. Hún segir að Trump og hans fylgjendur hafi haldið því fram í kosningabaráttunni að Obama væri ekki fæddur í Bandaríkjunum og þar af leiðandi ekki löglegur forseti landsins.
„Samsæriskenningarnar hefjast um þetta leyti fyrir alvöru með Pizzagate og í framhaldi QAnon, en Trump var mjög harður í að halda fram þessum samsæriskenningum. Það sem byrjaði með Pizzagate og svo QAnon sjáum við svo birtast með mjög alvarlegum hætti með innrásinni í þinghúsið 6. janúar 2021 þar sem fólk hélt því fram að kosningunum hefði verið stolið,“ segir Hulda.
[Pizzagate samsæriskenningin er almennt talin forveri QAnon samsæriskenningarinnar. Pizzagate er samsæriskenning um tölvupósta Hillary Clinton þar sem fullyrt var að þeir innihéldu kóðuð skilaboð sem tengdu saman nokkra háttsetta embættismenn Demókrataflokksins og áttu að sanna mansal og barnakynlífshring.
QAnon fjallar um tilhæfulausar fullyrðingar gerðar af nafnlausum einstaklingi eða einstaklingum sem kallast „Q“. Þessar fullyrðingar hafi verið settar fram og þróaðar af netsamfélögum og áhrifafólki. Kjarninn í þeim er sá að um sé að ræða hóp satanískra mannæta og barnaníðinga sem reka alþjóðlegan barnasmyglhring og stunda samsæri gegn Donald Trump.]
Covid-faraldurinn frjóasta uppsprettan
Hún segir að um þetta leyti hafi almenningur verið kominn með miklar áhyggjur af pólitískum afleiðingum samsæriskenninga á lýðræðið í Bandaríkjunum en á sama tíma hófst COVID-19 heimsfaraldurinn.
„Það er algjörlega þannig, af ýmsum sálfræðilegum ástæðum, að covid-faraldurinn er einn sá frjóasti jarðvegur sem þú getur fundið fyrir uppsprettu samsæriskenninga, enda urðu þær til í miklu magni sem tengdust tilurð faraldursins, hvernig hann dreifðist og svo tengt bóluefnum – hverjir væru að hagnast á þeim og hvað lægi þar að baki. Allt í einu voru samsæriskenningar ekki lengur einhver gæluverkefni sérvitra fræðimanna, heldur skipti það raunverulega miklu máli að skilja hvers vegna fólk aðhyllist samsæriskenningar og hverjar afleiðingarnar af þeim eru fyrir lýðræðið og lýðheilsu.“
Þú nefnir þessi átök milli hópa, skoðana og samsæriskenninga. Við sjáum átök um allan heim – en hver er ógnin?
„Það fer mjög eftir því hvar maður er staddur í heiminum hver ógnin er, ekki aðeins landfræðilega, heldur efnahagslega og félagslega og hvaða kyni þú tilheyrir. Það steðjar að okkur mismikil ógn eftir þessari stöðu.
Allt frá tímum Niccolòs Machiavelli, sem skrifaði bókina Furstann og kom úr á 16. öld, til dagsins í dag má segja að ógn eða ótti sé valdatæki. Machiavelli starfaði í opinberri þjónustu og bókin sem hann skrifaði er leiðarvísir handa kóngafólki og furstum um hvernig halda skuli völdum og auka þau. Þar sagði hann um óttann: „Þú vilt bæði að þegnar þínir elski þig og óttist þig, en ef þú þarft að velja, viltu frekar að þegnar þínir óttist þig.“ Allt frá þessum tímum hafa kænir stjórnmálamenn áttað sig á mikilvægi þess að spila rétt með óttann, því ef kallaður er fram hæfilega mikill ótti við eitthvað, hvort sem það er ótti við innflytjendur, ótti við lýðræði, ótti við efnahagslegan jöfnuð eða hvað sem er, er hægt er að búa til ógn og ótta við ýmsu,“ útskýrir hún.
Hulda segir að ef stjórnmálafólk nái að búa til einhverja ógn og nái að sannfæra sitt fólk um að ógnin sé aðsteðjandi, og sannfæri um leið um að sá eða sú komi því til bjargar frá ógninni, sé komið mikið vald og öflugt tæki til að fá fólk til fylgis við sig.
„Þetta er vel þekkt en þetta getur líka misheppnast. Það eru til dæmi um stjórnmálamenn sem reyndu að spila fram óttaspilinu en mistókst einfaldlega vegna þess að þeir voru ekki trúverðugir – fólk sá í gegnum þá. Það er náttúrulega þannig að ef ég sé í gegnum það að þú ætlir að spila með mig geturðu gleymt því að ég ætli að fylgja þér.“
Langsóttar samsæriskenningar
Þegar umræðunni er snúið að ungu fólki og lýðræðinu segir Hulda að samkvæmt rannsóknum trúi eldra fólk fremur en yngra fólk samsæriskenningum hér á landi, og frekar konur en karlar. Þá sé einkenni fólks sem trúir á samsæriskenningar að það hefur ákveðið óþol gegn óvissu og óreiðu.
Svo eru falsfréttir og samsæriskenningar líka framleiddar – þær spretta ekki upp úr engu?
„Það er alveg rétt, en svo skiptir það líka mjög miklu máli að hafa í huga að það er ekki alltaf óskynsamlegt að trúa samsæriskenningu upp á stjórnvöld sem þú treystir ekki, bara alls ekki. Skýrt dæmi um það er í Rússlandi. Það er ekki óskynsamlegt ef þú býrð þar að draga fullyrðingar þinna stjórnvalda í efa og hvað búi þar að baki. Það er ekki endilega hægt að ganga að því vísu að það sem þér er sagt af stjórnvöldum sé endilega sannleikurinn, heldur að þar sé einmitt samsæri að baki,“ segir Hulda.
Hún segir að þegar hún hóf að rannsaka samsæriskenningar hafi hún haft einfalda sýn á viðfangsefnið miðað við þá sem hún hefur nú.
Hulda segir að samsæriskenningar eigi það sameiginlegt að þær eru langsóttar skýringar sem ganga yfirleitt gegn viðurkenndum skýringum.
„Ég hafði rosalega einfaldaða sýn á hvað hverjir trúðu o.s.frv. Veröldin er miklu flóknari og ég hef mun meira umburðarlyndi en áður eftir því sem ég skoða þetta betur. Það er líka mjög mikill munur á því að trúa ýktri samsæriskenningu eins og að jörðin sé flöt og að heiminum sé stýrt af eðlufólki eða trúa því hvort lyfjafyrirtækin hafi kannski einhvern tímann logið að fólki til þess að tryggja eigin hagnað. Þarna er langur vegur á milli og því má ekki setja allar samsæriskenningar undir sama hatt. Samsæriskenningar eiga það sameiginlegt að þær eru langsóttar skýringar sem ganga yfirleitt gegn viðurkenndum skýringum, og þær innihalda þá kröfu að fjöldi fólks hafi náð að þaga yfir einhverri yfirhylmingu sem margir halda fram að sé útilokað þegar um stórar samsæriskenningar sé að ræða. Ég vil að það komi fram að það sem einkennir fólk sem trúir á samsæriskenningar er að það hefur ákveðið óþol gegn óvissu og óreiðu og hefur mjög sterka þörf fyrir að fá skýringu á hlutunum.“
Ungt fólk tortryggnari en eldri kynslóðir á stjórnmálin
En hvað segir stjórnmálasálfræðin um ungt fólk. Tekur ungt fólk virkan þátt í lýðræðinu og treystir það stjórnmálafólki?
„Stórt er spurt,“ segir Hulda alvarleg í fasi. „Kjörsókn ungs fólks 18 ára og eldri hefur farið niður á við og hefur minnkað meira en hjá öðrum hópum í okkar þjóðfélagi. Það er sannar-lega áhyggjuefni. Við fengum upplýsingar eftir síðustu alþingiskosningar þar sem greint er eftir bakgrunni fólks, þ.e. hvort viðkomandi sé með uppruna annars staðar en hér á landi, er af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda o.s.frv. Þá kemur í ljós að gríðarlegur munur er á þátttöku þessara hópa í lýðræðislegum athöfnum samfélagsins eins og kosningum. Ólíkt hér á landi hefur samkvæmt rannsóknum á kosningaþátttöku í Svíþjóð tekist mjög vel þar að ná til fólks sem er ekki einungis með sænskan uppruna til þess að taka þátt í stjórnmálum.
Ef við skoðum ungt fólk nánar og spyrjum það spurninga, t.d. um hvort þau hafi áhuga á stjórnmálum og hvort þau kunna að meta lýðræðið, sjáum við nánast engan mun á milli kynslóða og heldur ekki minni áhuga á stjórnmálum nú heldur en áður. Allar mælingar sem við höfum eru ekki á þá leið að ungt fólk hafni lýðræðinu. Þó kemur einnig í ljós að ungt fólk er líklegra en þau sem eldri eru að telja stjórnmálafólk spillt. Þannig að þau eru tortryggnari en eldri kynslóðir á stjórnmálin. Þau hafa hins vegar jafn mikið traust á stjórnarfarinu og þau sem eru eldri, en treysta samferðafólki sínu jafnvel meira en þau sem eldri eru.“
Að lokum segir Hulda að Íslendingar trúi almennt ekki samsæriskenningum sem tengjast vísindum en hallist frekar undir samsæriskenningar af pólitískum toga. Því má segja að við sem þjóð treystum vísindum og vísindafólki en séum tortryggnari á stjórnmál og stjórnmálafólk sem hún telur án efa tengjast efnahagshruninu og enn sé verið að súpa seyðið af því. Hún er þó bjartsýn á að traust aukist og ungt fólk valdi þeirri ábyrgð að greina rétt frá röngu.
„Ég er ein af þessum óþolandi bjartsýnispésum og ég get eiginlega ekki verið annað en bjartsýn miðað við þau gögn sem við höfum. Að því sögðu fleygir tækninni fram og þó að ungt fólk geti verið snjallara í að greina rangar upplýsingar frá réttum megum ekki að sofna á verðinum því þau sem búa til og dreifa falsfréttum og samsæriskenningum gera það ekki.“