Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. maí 2024

Traustið skiptir höfuðmáli

Sigþrúður Erla Arnardóttir framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar. Ljósmyndir/BIG

„Ég held að það sem skipti höfuðmáli sé traust á vinnustaðnum. Að starfsfólkið finni að því er treyst og að það geti verið ófeimið við að takast á við sín verkefni og ræða málin opinskátt. Samtalið skiptir öllu máli. Ég hef lagt áherslu á að það sé ekkert rangt eða rétt svar – við vinnum málin saman.“

Eftir Bjarna Brynjólfsson

Vesturmiðstöð Reykjavíkurborgar hlaut viðurkenninguna Stofnun ársins í flokki stórra stofnana hjá Reykjavíkurborg á árinu 2023. Sigþrúður Erla Arnardóttir er framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar. Hún segir að viðurkenningin hafi komið sér á óvart en þessi framúrskarandi árangur í könnun Sameykis sanni fyrir henni að hjá Vesturmiðstöð vinni einvalalið starfsfólks.

 

Alsæl með viðurkenninguna
„Hér er ótrúlega flottur starfsmannahópur sem hefur verið að fást við miklar breytingar í starfsumhverfinu. Það er óskaplega gaman að fá þetta traust og greinilegt að starfsfólkið upplifir að vinnuandinn hérna er góður.“

Hún segir að starfsfólk Vesturmiðstöðvar hafi fagnað viðurkenningunni vel og innilega. „Við erum alsæl með þetta og ætlum að njóta þess. Við fengum okkur köku og freyðivín til að fagna þessu og hengdum upp borða og skreytingar. Þá var öllum boðið í hamborgaraveislu.“

Á skrifstofu og móttöku Vesturmiðstöðvar sem er til húsa á tveimur hæðum að Laugavegi 77 vinna um 130 manns en að sögn Sigþrúðar Erlu er starfsfólk sem heyrir undir Vesturmiðstöð alls 650 talsins. Það starfsfólk starfar við búsetuþjónustu, heimaþjónustu og heimastuðning, félagsstarf og annað sem tilheyrir velferðar- og skólaþjónustu í vesturhluta borgarinnar.

„Við komum að þjónustu við fólk allt frá fæðingu til andláts,“ segir hún. „Við veitum leikskólum og grunnskólum skólaþjónustu og fjölskyldum barna og sinnum allri velferðarþjónustu fyrir borgarhlutann. Það sem gerir okkur svolítið sérstök miðað við hinar þrjár miðstöðvar Reykjavíkurborgar er að við þjónum einnig hópi heimilislausra. Þetta fólk þarf fjölþætta þjónustu og við rekum einnig neyðarskýli og búsetuúrræði fyrir þau sem glíma við fíknivanda. Svo erum við líka með alþjóðateymið undir okkar hatti sem þjónar umsækjendum um alþjóðlega vernd og samræmdri þjónustu fyrir flóttafólk.“



 

Aldrei stöðnun hjá Reykjavíkurborg
Sigþrúður Erla hefur starfað hjá Reykjavíkurborg í 25 ár. Hún er menntaður sálfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Pepperdine-háskólanum í Los Angeles. Sigþrúður Erla hóf störf sem sálfræðingur hjá fjölskylduþjónustu Grafarvogs í Miðgarði árið 1998. Hún varð síðan deildarstjóri sérfræðisviðs í Miðgarði og síðan í Vesturgarði, þjónustumiðstöð Vesturbæjar árið 2005. Hún varð framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvarinnar árið 2011 og tók við sem framkvæmdastjóri í sameinaðri þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða árið 2015 sem varð að Vesturmiðstöð árið 2022. Það ár hófst verkefnið Betri borg fyrir börn þar sem þjónusta velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs var sameinuð í fjórum miðstöðvum sem kenndar eru við borgarhlutana.

Sigþrúður Erla segir að þessar skipulagsbreytingar hafi í meginatriðum gengið vel þrátt fyrir að áskoranir séu margar.

„Það er aldrei stöðnun hjá Reykjavíkurborg og alltaf eitthvað nýtt að koma upp í fangið á manni sem gerir starfið krefjandi og skemmtilegt.“

 

Fólki er treyst til að vinna faglega og fær endurgjöf fyrir sín störf
Sigþrúður er ekki aðeins öflugur stjórnandi því hún hefur sett mörg met í kraftlyftingum. Hún hefur orðið Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum og varð Evrópumeistari öldunga í kraftlyftingum 2018. „Já, ég hef tekið nokkra titla en lyfti nú ekki eins mikið og áður. Líkaminn þurfti smá hvíld,“ segir hún og bætir við að sonur hennar hafi hvatt hana til að æfa lyftingar og tjáð henni að hún gæti orðið góð. „Það tók mig smá stund að samþykkja það, en ég fann mig í þessu,“ segir hún kímin á svip.

Hún nýtir frístundir sínar einnig til söngnáms og tekur virkan þátt í starfi kammerkórs Seltjarnarneskirkju. „Ég hlusta mikið á tónlist og syng mikið,“ segir hún brosandi. „Annars er samvera með fjölskyldunni minni, börnum og barnabörnum mér langmikilvægust. Svo finnst mér alltaf gaman í vinnunni og að sökkva mér ofan í þau mál sem ber hæst hjá okkur hverju sinni.“



Hverju þakkar þú þennan góða árangur í mannauðskönnun Sameykis um stofnun ársins?

„Ég held að það sem skipti höfuðmáli sé traust á vinnustaðnum. Að starfsfólkið finni að því er treyst og að það geti verið ófeimið við að takast á við sín verkefni og ræða málin opinskátt. Samtalið skiptir öllu máli. Ég hef lagt áherslu á að það sé ekkert rangt eða rétt svar – við vinnum málin saman. Saman getum við verið mjög öflug. Ég tel að þessi afstaða skipti miklu máli fyrir vinnustað sem tekst á við mjög krefjandi verkefni. Fólki er treyst til að vinna faglega og fær endurgjöf fyrir sín störf.“

Starfsemin í Vesturmiðstöð er einkar fjölbreytt að sögn Sigþrúðar Erlu. „Enginn dagur er eins og það er einmitt það sem er svo skemmtilegt við vinnuna. Við erum að vinna með manneskjum og starfið snýst um hvernig við getum stutt við og veitt fólki þjónustu. Við erum ekki hérna til að segja af eða á heldur til að finna lausnir.“

 

Mikilvægast að hlusta á aðra og taka umræðuna
Hvað gerir Sigþrúður Erla til að viðhalda góðum starfsanda?

„Góð samskipti eru mikilvæg. Mikilvægast er að vera tilbúin til að hlusta og taka umræðuna. Við höfum opna fundi þar sem við miðlum stefnum Reykjavíkurborgar sem við vinnum eftir. Við erum líka í beinum samskiptum við ráðuneytin út af málaflokkum og þurfum öll að vita hvert við erum að fara. Við reynum að horfa til þess að við erum ólík, með ólíkan bakgrunn og menntun, og það skiptir mjög miklu máli að við tökum tillit til allra og fáum öll sjónarmið upp á borðið. Stuðningur stjórnenda og samstarfsmanna hefur einnig mikið að segja. Það er mjög dýrmætt að samstarfsfólk styðji hvert annað í vinnunni.“

Að sögn Sigþrúðar Erlu heldur starfsfólk Vesturmiðstöðvar uppi fjölbreyttu félagslífi. „Við höfum að leiðarljósi að hafa skemmtilegt í vinnunni. Við erum með tvö félög sem halda utan um félagslífið, annars vegar starfsmannafélagið okkar Fröken Reykjavík sem heldur utan um ýmsa gleði utan vinnutíma og svo erum við með Fiskinn sem stendur fyrir ýmsu hér innandyra.“

Sigþrúður segir að álag á starfsfólkið sé töluvert enda sinnir það flóknum málaflokkum. „Álagið stafar bæði af þyngd mála og þeim málafjölda sem hver og einn starfsmaður sinnir. Það koma upp mörg erfið mál en hópurinn sem sækir í þessi störf hefur áhuga á fólki og vill leggja sig fram. Eitt aðalverkefni stjórnanda á svona vinnustað er að finna út styrkleika og áhugasvið hvers og eins starfsmanns. Það er afleitt að vera með starfsfólk sem hefur ekki áhuga á vinnunni sinni. Við verðum að hafa áhuga og gleði af starfinu okkar til þess að skila árangri.“