Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. júní 2024

Áhersluatriði nýgerðra kjarasamninga

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/Axel Jón

Samninganefndir Sameykis skrifuðu undir kjarasamninga við ríkið annars vegar og Reykjavíkurborg hins vegar að kvöldi miðvikudags, og aðfaranótt fimmtudags sl. náðist kjarasamningur Sameykis og bæjarstarfsmannafélaganna innan BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Árangur náðist með að setja inn í kjarasamninga ákvæði um styttingu vinnuvikunnar sem byggt er á samkomulagi við ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga sem tók gildi í janúar 2020 fyrir dagvinnufólk, og 1. maí sama ár fyrir fólk sem starfar í vaktavinnu. Nú verða laun ávallt reiknuð út frá 36 stunda vinnuviku þegar þessir kjarasamningar taka gildi.

Þá eru breytingar vegna vaktahvatans og jöfnun launa milli markaða sem verið hefur á borði BSRB inn í kjarasamningum. Nýjar útfærslur og breytingar í þróun á launatöflum eru einnig í þessum kjarasamningum, en segja má að mesta vinnan og megináherslan hafi verið á launamyndunarþáttinn, launatryggingu og breytingar á tilhögun og skipulagningu vinnutímans í dagvinnu og vaktavinnu, auk mikilvægra sameiginlegra verkefna eins og jöfnunar launa milli markaða, auk annarra liða að sögn Þórarins Eyfjörð, formanns Sameykis.

Þórarinn segir að eftir kjarasamningana sem gerðir voru á almenna vinnumarkaðnum hafi teiknast upp ákveðinn rammi fyrir samninga sem á eftir komu, sem byggðist á samhentu átaki til að ná niður vöxtum og verðbólgu. Þar hafi verið lögð áhersla á stöðugleika. Sammerkt í viðræðunum við þessa þrjá samningsaðila, ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin, hafi verið útfærslan á betri vinnutíma sem hann segir að tekist hafi með ágætum.

„Við vorum að taka fyrir bæði dagvinnu og vaktavinnuna og útfæra hvað varðar betri virkniþætti í vinnutímanum og mér finnst það mikilvægt að þar náðist fram betri skilgreindur vinnutími, bæði hvað varðar dag- og vaktavinnuna.“

Hann segir gott að ganga frá samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar.

„Nú er búið að ganga frá því í kjarasamningum, að 36 stunda vinnuvika tekur formlega gildi. Það er í raun staðfesting á því samkomulagi sem gert var milli ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna. Þessi stóra breyting á vinnumarkaðnum er nú í höfn,“ segir Þórarinn.

Spurður hvað hann sé ánægðastur með í þessum kjarasamningum sem nú hafa verið undirritaðir segir hann að margt gott sé í þessum kjarasamningum, t.d. ákveðin sjálfvirkni í virkni launataflna.

„Það er svolítið erfitt að nefna eitthvað eitt fram yfir annað þegar samið er í þessu efnahagsástandi sem nú er og verið hefur. Ég er sáttur með frágang á þessum sameiginlegu verkefnum um betri vinnutíma, bæði í dagvinnu og vaktavinnu. Sérstaklega vil ég nefna það sem kallast launatöfluauki sem er rauninni launaþróunartrygging, álíka og kauptaxtaauki á almennum vinnumarkaði, sem bregst við launaþróuninni milli vinnumarkaða. Með þessari launaþróunartryggingu á opinberum vinnumarkaði mun síður verða hætta á að laun opinberra starfsmanna dragist aftur úr launum starfsfólks á almenna vinnumarkaðnum,“ útskýrir Þórarinn.

Þórarinn segir að samið hafi verið líkt og á almenna vinnumarkaðnum til að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Það hafi verið forsenda sem gengið hafi verið út frá í samningaviðræðunum, en um leið hugað að þörfum og kröfum félagsfólks í Sameyki.

„Við erum að vinna saman að því verkefni að kaupmáttur rýrni ekki, að stýrivextir lækki og vextir á húsnæðislánum lækki einnig. Við væntum þess að þessir kjarasamningar hjálpi til við að lækka vexti sem allur almenningur þarf svo mikið á að halda í þessu efnahagsumhverfi sem við lifum í. Það skiptir líka miklu máli að afborgarnir á húsnæðislánum lækki og við vonum öll að þróunin verði sú. Nú fer í hönd samtal við okkar félagsfólk þar sem við kynnum kjarasamningana og í kjölfarið verður boðað til atkvæðagreiðslu um þá. Þess ber þó að geta að með undirritun þessara samninga höfum við lokið við gerð hluta þeirra kjarasamninga sem við gerum. Á næstu dögum munum við hefjast handa við að gangsetja viðræður vegna þeirra sem eftir eru,“ segir formaður Sameykis að lokum.