Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2024

Finnur ekki fyrir útilokun hér

Maria Felisa Delgado Torralba. Ljósmynd/Axel Jón

„Ég hef ekki orðið vör við að vera útskúfuð vegna uppruna míns hér. Ég kom fyrst til Vestmannaeyja og ég upplifði samfélagið þar sem eina fjölskyldu og mér var vel tekið. Ég var þar á meðal fólksins í því litla samfélagi og leið vel. Mér þótti dásamlegt að vera þar.“

Eftir Axel Jón Ellenarson

Maria Felisa Delgado Torralba er fædd og uppalin á Spáni en kom til Íslands að vinna fyrir um tveimur árum síðan. Hún dvaldi fyrst um sinn í Vestmannaeyjum og fór síðan til Reykjavíkur eftir að vinir hennar hvöttu hana til að fá starf sem hæfði menntun hennar betur.

Felisa, eins og hún kallar sig, segir að hún eigi góða reynslu af að vera á Íslandi þann tíma sem hún hefur lifað hér og starfað. Hún er kennari að mennt og með meistaragráðu í kennslu með fötluðum börnum. Felisa starfar á frístundaheimili fyrir börn á aldrinum 6–9 ára. Þau geta dvalið þar frá því að skóladegi lýkur og fram á síðdegið. Vinnustaðurinn er fjölbreyttur, þar starfar fólk með uppruna frá ýmsum löndum og talar fjölbreytt tungumál auk íslenskunnar.

„Ég hef ekki orðið vör við að vera útskúfuð vegna uppruna míns hér. Ég kom fyrst til Vestmannaeyja og ég upplifði samfélagið þar sem eina fjölskyldu og mér var vel tekið. Ég var þar á meðal fólksins í því litla samfélagi og leið vel. Mér þótti dásamlegt að vera þar.

Ég flutti hingað til lands eftir COVID-19 og fann strax að ég var velkomin hér. Íslendingar eru snöggir að grípa til enskunnar um leið og þeir skynja að ég tala ekki tungumálið. Mér finnst það ágætt og allir íslensku vinir mínir hjálpa mér með allt sem ég spyr þá um varðandi samfélagið, þannig að ég á gott með að vera hér.

Ég veit til þess að sumt fólk sem kemur hingað upplifir fordóma, jafnvel rasisma úti í samfélaginu. Ég þekki það ekki sjálf en ég þekki fólk sem upplifir þessa fordóma, eða eins og við köllum það, dulinn rasisma sem er eins og undir yfirborðinu. Hann getur birst þegar reynir á eitthvað í samskiptum. Við ræðum saman á vinnustaðnum um þennan rasisma en aftur á móti á einhvers konar útilokun líka við um önnur lönd, ekki bara Ísland. Á Spáni færðu ekki vinnu ef þú talar ekki spænsku, en á Íslandi geta útlendingar fengið gott starf þó þeir tali ekki tungumálið.

Mér finnst sjálfsagt að við sem komum hingað til að vinna leggjum á okkur að læra tungumálið og einnig að kynnast menningunni sem hér er,“ segir Felisa að lokum.