Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

17. september 2024

Öll erum við eins þó við séum ólík

Ósk Hoi Ning Chow. Ljósmynd/Axel Jón

„Ég kalla þetta microagressions sem mér finnst í raun verra heldur en fólk sem er bara opið með sinn rasisma. Þá veit maður hvar maður hefur það fólk eða hópa. Þegar ég hef bent fólki á þetta í samskiptum eru viðbrögðin oft á þann veg að ég sé að ofhugsa hlutina og þetta hafi bara verið „létt grín“.

Eftir Axel Jón Ellenarson

Ósk Hoi Ning Chow er fædd á Íslandi. Hún á íslenskan föður og kínverska móður. Hún segir að alla sína grunnskólagöngu hafi hún mátt þola einelti. Hún segist alltaf hafa kviðið fyrir matarhléum í grunnskólanum því börnin gerðu grín að matnum hennar sem foreldrar hennar útbjuggu handa henni í skólann. Hún segir að inngilding á vinnumarkaðnum og í samfélaginu þurfi að eiga sér meðvitað stað. Við séum þrátt fyrir allt öll eins þó við séum ólík.


„Inngilding er að velja fólk í störf eftir getu, starfsreynslu og menntun, en ekki uppruna þess, útliti eða kynhneigð. Ég rak mig á það þegar ég kom út á vinnumarkaðinn eftir nám að vinkonur mínar sem sóttu um sama starf og ég fengu það frekar vegna nafnsins míns. Ég sótti um svo margar vinnur en fékk ekki vegna þess að ég heiti Ósk Chow og er líka með kínverskt millinafn, Hoi Ning. Ég fékk aldrei svar og ég fékk aldrei atvinnuviðtal. Einu störfin sem ég fékk var vegna þess að ég þekkti einhvern sem þekkti einhvern annan o.s.frv. Pólsk vinkona mín sem ber pólskt nafn hefur upplifað nákvæmlega það sama á vinnumarkaðnum, aldrei fengið vinnu án þess að þekkja einhvern,“ segir hún.

Ósk bendir á að hér á landi finni hún oft fyrir útilokun, mismikilli þó. Minnst í þeim störfum sem hún hefur sinnt á undanförnum árum sem eru umönnunarstörf. Henni líður vel í núverandi umönnunarstarfi í Bríetartúni. Hún talar um „microagressions“ eða undirliggjandi rasisma sem felst í „gríni“ eða í meinlegum persónulegum athugasemdum.

„Ég kalla þetta microagressions sem mér finnst í raun verra heldur en fólk sem er bara opið með sinn rasisma. Þá veit maður hvar maður hefur það fólk eða hópa. Þegar ég hef bent fólki á þetta í samskiptum eru viðbrögðin oft á þann veg að ég sé að ofhugsa hlutina og þetta hafi bara verið „létt grín“. Þetta er verst finnst mér. Ég get nefnt nýlegt dæmi. Um daginn fór ég til læknis og þegar ég kom að móttökunni sagði ég á íslensku „Góðan daginn. Ég er að borga fyrir læknisheimsóknina.“ Móttökuritarinn, sem var íslenskur, byrjaði að svara mér á ensku og sagði: „What is your kennitala?“. Ég svaraði auðvitað á mínu móðurmáli og móttökuritarinn var smá tíma að átta sig og svara mér á íslensku. Þetta er ákveðinn vandi augljóslega.“

Ósk Chow segir að hún hafi orðið fyrir einelti í grunnskóla vegna þess að hún var með kínverskan mat í nesti að heiman.

„Ég þekki líka einelti vel. Ég varð fyrir því alla mína grunnskólagöngu. Venjan var að mamma hafði til fyrir mig nesti í skólann. Hollan og góðan kínverskan mat. Þá var mér sagt að maturinn minn liti ógeðslega út og það væri vond lykt af honum. Það tók mig langan tíma að losna við kvíðann fyrir nestistímum. Það var ekki fyrr en ég fór í menntaskóla þar sem ég tók eftir að því, að það skipti ekki máli hvað ég var með í nesti. Fólk var bara með alls konar nesti og ég gat bara borðað án þess að upplifa skömm. Þar var meiri fjölbreytileiki og þarna upplifði ég inngildingu má segja. Ég þurfti ekki að skammast mín.

Það sem mér finnst svo skrýtið að upplifa, er þegar fólk getur ekki tekið mark á öðru fólki nema það sé eins og það, líkt og hvítur karl talar bara við annan hvítan karl og getur ekki talað við nema aðra hvíta karla. Ég þekki þetta af eigin raun. Við þurfum að koma fram við hvert annað án aðgreiningar. Mikilvægt er að meirihlutinn standi með minnihlutanum.

Ég vil segja þetta um inngildingu: Það eru bara góðir hlutir sem koma með henni. Njótum fjölbreytileikans,“ segir Ósk Chow brosandi.