20. september 2024
Inngilding til efstu metorða
Joachim Chimezie Obika . Ljósmynd/Axel Jón
„Ég hef blandast samfélaginu ágætlega. Ég kom hingað 2021 og fór að vinna en um leið leitaði ég mér að framtíðarstarfi sem hæfði menntun minni, en ég er lífefnafræðingur. Ég hef ekki fengið starf sem hæfir minni menntun.“
Eftir Axel Jón Ellenarson
Joachim Chimezie Obika kom hingað til lands til að starfa á íslenskum vinnumarkaði. Hann segir að honum líði vel hér á landi og blandist samfélaginu ágætlega þrátt fyrir tungumálaörðugleika. Hann er menntaður lífefnafræðingur frá opinbera tækniháskólanum í Owerra í Nígeríu og útskrifaðist þaðan árið 2012.
„Ég hef blandast samfélaginu ágætlega. Ég kom hingað 2021 og fór að vinna en um leið leitaði ég mér að framtíðarstarfi sem hæfði menntun minni, en ég er lífefnafræðingur. Ég hef ekki fengið starf sem hæfir minni menntun,“ segir Joachim.
Hann segir að honum líði vel þar sem hann starfar á frístundaheimili í Reykjavíkurborg. Honum finnst einkennandi að sérstaklega eldri kynslóðum finnist erfitt að hefja samræður.
„Það sem ég vil segja er að ég finn vel að samskipti eru Íslendingum oft erfið. Ég á við að eiga frumkvæði að samskiptum, hvort sem er á vinnustaðnum eða úti í samfélaginu. Á móti kemur að samskiptin geta verið mjög ánægjuleg ef maður þarf að bera upp ákveðið erindi sem hægt er að nálgast úrlausn á auðveldlega. Íslendingar koma sér venjulega beint að efninu í þeim kringumstæðum, og svo opnast oft fyrir gáttir í samtalinu.“
Joachim segir að hann verði ekki var við rasisma sem beinist að honum beint en kannski undir yfirborðinu eins og hann orðar það.
„Ég verð ekki var við rasisma beint, en ég verð var við hann undir yfirborðinu þegar ég hef sótt um störf. Ungt fólk og fólk á mínum aldri, en ég verð 31 árs í lok september, er mjög opið fyrir fólki. Það er líka reynslumeira. Ég á við, það hefur ferðast mikið þrátt fyrir ungan aldur og samfélagsmiðlar hafa opnað fyrir ákveðnar upplýsingar um ólíka menningarheima og alls konar fólk. Unga fólkið hér er opnara en það sem eldra er finnst mér og það er tilbúið að tala við fólk án þess að mismuna því á nokkurn hátt.“
Hann segir að verði hann vitni að rasisma andmæli hann honum hástöfum. Allt fólk, hvar sem það er, á að njóta sjálfsagðra mannréttinda og ekki vera mismunað á neinn hátt.
„Þú veist jafn vel og ég að í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum gilda mannréttindi, eða á þeim er ekki eins mikið troðið og víða annars staðar skulum við segja. Ég starfaði í Dubai áður og þar eru mannréttindi ekki virt, langt í frá, og erfitt er að tjá sig um rétt sinn sem mannvera á jörðinni í því samfélagi. Samt sem áður nýtur maður mannréttinda og í ljósi þess áttu að tjá þig þegar á þeim er brotið. Ég læt í mér heyra ef brotið er á mannréttindum mínum í samskiptum mínum við samborgara mína. Það geturðu bókað.“
Hann segir að vinnuveitendur eigi að byggja grunninn á menntun og hæfni fólks til starfa en ekki uppruna þess.
„Ég var eitt sinn staddur á námskeiði um íslenskan vinnumarkað og komst þá að því að það eru ákveðin störf hér á landi sem eingöngu útlendingar sinna. Íslendingar virðast ekki vilja þau nema á leið sinni upp metorðastigann. Ég komst líka að því að vel borguð störf og störf sem krefjast menntunar eins og ég er með eru frátekin að því er virðist fyrir Íslendinga. Það myndi ég flokka sem undirliggjandi rasisma eða mismunun. Þannig verður vinnumarkaðurinn að taka upp viðhorf inngildingar til efstu metorða á vinnumarkaði. Auðvitað á að skipta mestu máli í augum vinnuveitenda að fá hæft starfsfólk en ekki hvernig það lítur út ... þú veist hvað ég meina. Ég nefndi áðan Bandaríkin og Kanada. Þar er mikil fjölbreytni á vinnumarkaði en líka í samfélaginu. Þar er suðupottur menningar og ólíks uppruna milljóna manna. Ísland er ekki komið þangað. Mannfjöldi í einu fylki eða hverfi í Bandaríkjunum er miklu meiri en mannfjöldinn hér. Það sem gerir samfélög frjó er þegar ólíkir hópar blandast og eiga samtal. Þá lærir maður nýja hluti,“ segir Joachim.