Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. september 2024

Svolítið eins og hellisbúar

Diana Skotsenko. Ljósmynd/Axel Jón

„Fólk hér tók mér almennt vel en það var stundum erfitt að gera sig skiljanlega áður en ég lærði tungumálið. Ég verð alveg vör við fordóma gagnvart ákveðnum þjóðernum hér á landi. Ég reyni að taka þetta ekki nærri mér vegna þess að þá væri lífið einfaldlega leiðinlegt, ömurlegt sko.“

Eftir Axel Jón Ellenarson

Diana Skotsenko er fædd í Tallinn í Eistlandi. Hún ferðaðist hingað til lands með vinkonu sinni þegar hún var átján ára. Planið var að koma í sumarvinnu en svo æxluðust hlutirnir þannig að hún varð ástfangin eins og gengur og hefur búið á Íslandi síðan, í 24 ár. Diana starfar sem stuðningsfulltrúi og félagsliði hjá Reykjavíkurborg. Hún segist elska að ferðast um heiminn og nýtir hvert tækifæri sem gefst til að ferðast.

Hún talar fallega um fæðingarborg sína Tallinn og segir að þar sé margt fallegt að sjá. Hins vegar upplifði hún fyrst aðskilnað og útilokun sem barn við fall Sovétríkjanna.

„Ég upplifði aðskilnað þar sem ég bjó sem lítil stelpa í miðborg Tallinn. Rússneskumælandi börn voru þá send í rússneska skóla og þau blönduðust ekki okkur hinum. Ég varð vör við andúð á þeim í samfélaginu en ég ákvað með sjálfri mér að leika mér með rússnesku börnunum. Það var bara eitthvað inni í mér sem sagði mér að leika mér við þau þó að skólasystkini mín gerðu það ekki,“ segir Diana þegar hún rifjar upp æskuna.

Diana segir að hún reyni ekki að taka nærri sér þegar hún er sett í einhvern flokk þjóðernis sem hún tilheyrir ekki.

„Fólk hér tók mér almennt vel en það var stundum erfitt að gera sig skiljanlega áður en ég lærði tungumálið. Ég verð alveg vör við fordóma gagnvart ákveðnum þjóðernum hér á landi. Ég reyni að taka þetta ekki nærri mér vegna þess að þá væri lífið einfaldlega leiðinlegt, ömurlegt sko. Ég held að öllum þætti þreytandi að vera sífellt líkt við t.d. einhverja fræga persónu eins og leikara. Fólk hér þarf við fyrstu kynni að komast að því hvaðan maður sé. Mér finnst það pirrandi að vera oft spurð að fyrra bragði hvort ég sé pólsk. Eftir 24 ár hér á landi er ég samt orðin vön því að vera flokkuð sem Pólverji eða Lithái. Ástæðan fyrir því að fólki dettur ekki í hug að ég sé frá Eistlandi er vegna þess að það veit ekki betur og ályktar. Þetta er svona ómeðvitaður dónaskapur,“ segir Diana um upplifun sína.

„Ég þekki það af eigin raun að það eru fordómar gagnvart fólki sem ber ekki íslenskt nafn á húsaleigumarkaðnum. Fólk á varla séns á að fá húsnæði ef það er ekki Íslendingur. Það er mín reynsla áður en ég keypti mér sjálf húsnæði. Ég fékk aldrei svör við neinum póstum. Sama á við um vinnumarkaðinn. Ég fékk næstum aldrei nein svör til baka þegar ég sótti um vinnu. En svo tók ég til bragðs að mæta sjálf á vinnustaðinn og þá fékk ég vinnuna. Þetta er eitthvað til að hugsa um,“ segir Diana.

Hún segir barnshafandi konur eiga mjög erfitt með að fá vinnu. Það gildi um allar konur hér á landi.

„Ég man vel eftir því þegar ég sótti um vinnu og var þá stutt gengin með fyrsta barnið mitt. Þá tíðkaðist að spyrja konur í atvinnuviðtali um barneignir. Ég svaraði auðvitað því að ég ætti von á barni og fékk ekki þá þær vinnur sem ég sóttist eftir. Hellingur af konum hefur upplifað þetta á vinnumarkaðnum og þetta er auðvitað mismunun og útilokun. Nú er þetta sem betur fer bannað í atvinnuviðtölum og ekki er hægt að mismuna konum ef þær ganga með barn.“

Diönu þykir íslenskt samfélag og þjóðarsálin svolítið eins og hellisbúar á eyju út í íshafi.

„Ég viðurkenni það að maður getur orðið samdauna. Maður blandast því samfélagi sem maður býr í og við erum svolítið eins og hellisbúar með marga hluti. Við erum ekki komin eins langt og í mörgum öðrum löndum í fjölbreytileika samfélagsins. Við erum hellisbúar á eyju út í íshafi. Íslendingar eru gott fólk en við erum ekki komin langt í þróun samfélagsins en á sama tíma þykir Íslendingum þeir vera bestir í heimi. Þetta er í þjóðarsálinni. Ég ferðast eins mikið og ég get og mér finnst alltaf gott að koma aftur heim til Íslands, en eftir einhvern tíma er allt orðið svolítið grátt á ný og hversdagslegt. Þá fatta ég að ég er búin að skríða með öllum hinum aftur inn í hellinn og verð að komast út,“ segir Diana og skellihlær.