Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. nóvember 2024

Allir hópar jafn mikilvægir innan Sameykis

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG

„Ég mun beita mér fyrir samstarfi og samstöðu í baráttunni fyrir betri kjörum og að verja áunnin réttindi, sérstaklega hjá þeim hópum sem eru á lægstu laununum, ekki bara bættum kjörum heldur réttum kjörum. Í þessu sambandi skiptir máli að beita sér í verkalýðspólitíkinni, hvernig við skiptum auðnum með réttlátum hætti því launafólk skapar verðmætin.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir ísleifur Gunnarsson/BIG

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir tók við formennsku hjá Sameyki 11. október síðastliðinn í kjölfar ágreinings milli formanns og stjórnar Sameykis um áherslur og stefnu í verkefnum þess, en eins og kunnugt er náði fyrrum formaður félagsins, Þórarinn Eyfjörð, ekki kosningu sem fyrsti varaformaður BSRB á 47. þingi þess sem haldið var í byrjun októbermánaðar.

Ingibjörg Sif var áður varaformaður Sameykis frá apríl 2021 og hefur setið í stjórn félagsins frá stofnun þess árið 2019, áður StRv frá árinu 2014. Samkvæmt lögum félagsins er kosið til formanns og í stjórn á þriggja ára fresti, næst í mars 2027.

Aðrar breytingar í stjórn Sameykis urðu þegar Kári Sigurðsson var kosinn af stjórn sem varaformaður félagsins í stað Ingibjargar Sifjar.

 

Hver dagur upphaf að einhverju nýju og skemmtilegu
Rétt er að spyrja nýjan formann félagsins fyrst að því hvernig henni hafi gengið að takast á við þetta nýja hlutverk í stóru stéttarfélagi?

„Þetta hefur verið mikil áskorun en ég kem svo að segja úr frekar formföstu starfi sem bókari hjá Orkuveitu Reykjavíkur en þar hef ég starfað í rúm 32 ár og því er starf formanns mjög frábrugðið því sem ég hef áður fengist við í störfum mínum. Hins vegar hef ég fengið góða innsýn í rekstur félagsins því ég hef verið varaformaður í Sameyki frá 2021 og þar áður í stjórn félagsins. Þannig að frá þeim sjónarhóli þekki ég félagið og hvernig það starfar vel. Dagarnir eru fjölbreyttir og stundum veit maður ekki hvað dagurinn sem hefst snemma ber í skauti sér, en oftast eitthvað nýtt og skemmtilegt. Á hinn bóginn er þetta mjög fjölbreytt og lifandi starf að vera formaður í þessu frábæra félagi sem Sameyki er. Enginn dagur er eins, mikið er af fjölbreyttum verkefnum, samtölum, hitta félagsfólk og síðast en ekki síst að setja mig inn í samstarfið á ólíkum vettvangi stéttarfélagsins; viðsemjendur okkar, innra starf félagsins sem er fjölbreytt, kjarasamninga og stofnanasamninga, orlofsmál, og svo mætti lengi telja,“ segir Ingibjörg Sif brosandi.


„Ég held að það sé gott að fá smá sting í magann þegar maður veit ekki endilega hvert förinni er heitið þegar breytingarnar ber brátt að.“

Spurð hvort henni þyki starf formannsins eiga vel við sig, svarar hún að það sé fyrst og fremst gefandi þó að það sé krefjandi að setja sig inn í formannsstarfið á eins skömmum tíma og raun ber vitni.

„Það er aldrei leiðinlegt hér,“ segir hún og hlær. „Ég held að það sé gott að fá smá sting í magann þegar maður veit ekki endilega hvert förinni er heitið þegar breytingarnar ber brátt að. En áskorunin er góð og það er gott að stíga aðeins út fyrir þann ramma sem ég áður lifði í og er kippt úr honum fyrirvaralaust má segja. Starfsfólkið hjá Sameyki hefur verið mér ómetanlegt. Ég stökk ekki út í óvissuna því starfsfólkið hefur upplýst mig og hjálpað mér að komast mjög hratt inn í verkefnin. Þvílíkur fjársjóður verð ég að segja.“

 

Samstarf BSRB er Sameyki mikilvægt og nauðsynlegt
Tölum um BSRB og samvinnuna við bandalagið. Er samvinnan við bandalagið í tengslum við verkalýðsbaráttuna og verkalýðspólitíkina mikilvæg fyrir félagið?

„Já, það er mjög mikilvægt að innan okkar raða séu náin tengsl og samvinna. Þannig náum við bestum árangri. Við getum ekki hugsað okkur að tilheyra ekki þeim krafti sem felst í samstöðunni innan bandalagsins. Ég á við, að við gerum ekkert ein þó að Sameyki sé stærsta stéttarfélagið innan bandalagsins. BSRB heldur á mikilvægum málum í baráttu opinberra starfsmanna fyrir bættum kjörum og ýmsum réttindum sem hafa áunnist. Samstarfið er okkur öllum mikilvægt, bæði okkur og öðrum stéttarfélögum innan bandalagsins. Þó að við höfum ekki náð kosningu 1. varaformanns BSRB á þingi þess í október eigum við fulltrúa í stjórn bandalagsins, og erum við partur af stjórn BSRB og tökum fullan þátt í því samstarfi áfram. Sameiginlegir hagsmunir Sameykis innan BSRB, t.d. að gæta hagsmuna okkar félagsmanna, eru hluti af sameiginlegri vegferð aðildarfélaganna að berjast áfram fyrir réttindum og kjarabótum félagsfólks sem starfar í grunnþjónustunni, oftar en ekki stórir láglaunahópar kvenna. Við verðum að berjast áfram og styrkja kvennastéttirnar sem starfa hjá Reykjavíkurborg og ríkinu. Það er okkar frumskylda að bæta kjör þessara hópa sem starfa í almannaþjónustunni og allir landsmenn vilja njóta.“


Þetta er baráttumál okkar; að hafa áhrif og gagnrýna ákvarðanir og stefnu stjórnvalda sem skaðar launafólk og leggja til aðrar leiðir í stjórn efnahagsmála.

 

Réttindi kvenna sniðgengin
„Almennt séð hafa kvennastéttir átt undir högg að sækja og við verðum að opna augu okkar fyrir þeim staðreyndum. Réttindi kvenna hafa oftar en ekki setið á hakanum og kynbundinn launamunur er mikið óréttlæti á vinnumarkaði, að kvennastörf séu ekki metin til jafns á við karlastörf er rangindi, sama á við um kvenréttindi sem hafa verið sniðgengin. Ég vil líka nefna ungar konur í láglaunastörfum. Þeirra möguleikar eru einhvern veginn alltaf verri, það er alltaf erfiðara fyrir þær að afla sér menntunar, njóta velgengni í starfi, hafa sömu réttindi og karlar, og njóta sömu tækifæra og þeir. Þetta er ekki gott, ekki eðlilegt og verður að breytast. Við getum það með samstarfi og samvinnu.“

Hvaða hlutverki finnst þér Sameyki þjóna í þessu sambandi?

„BSRB er búið að ávinna sér þessa rödd kvenréttinda og jöfnuðar. Bandalagið hefur gengið lengst í að tala máli kvenna á vinnumarkaðnum, talað máli kvenréttinda og fyrir virðismati kvennastarfa. Það er hlustað á rödd BSRB úti í samfélaginu og hjá stjórnvöldum. Ég vil nefna Kvennaverkfallið í fyrra. Þar náðist þessi mikla samstaða og samhljómur í samfélaginu. Þátttakan sýndi að samstaða kvenna er sterkt afl og konur hafa valdeflst í þessari baráttu sem við erum að tala um. Ég er stolt af því að Sameyki á rödd innan BSRB í þessari baráttu – því má ekki gleyma að meirihluti alls félagsfólks í Sameyki eru konur,“ segir hún og merkja má að hún finni til hjartans.

Hún segir að það skipti máli að konur séu í forystu í verkalýðshreyfingunni, og einnig gott að sjá konur leiða stjórnmálaflokkana en líka að í stjórnmálabaráttuna séu nú komnir fulltrúar úr verkalýðshreyfingunni sem spennandi verður að fylgjast með í komandi kosningum. Það fólk hefur umfram aðra stjórnmálamenn verið að berjast fyrir réttindum og kjörum launafólks í gegnum grasrót stéttarfélaganna.


„Leiðarljósið er félagsfólkið, að við séum alltaf að gæta hagsmuna félagsmannsins, hvort sem um er að ræða kjarasamninga, kjaramál, réttindi í sjóðum Sameykis eða orlofsmál, á öllum sviðum starfsemi félagsins.“

 

Þetta eru ekki geimvísindi
Nú langar mig að spyrja þig um hvernig þú munt beita þér innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir félagsfólk í Sameyki?

„Ég mun beita mér fyrir samstarfi og samstöðu í baráttunni fyrir betri kjörum og að verja áunnin réttindi, sérstaklega hjá þeim hópum sem eru á lægstu laununum, ekki bara bættum kjörum heldur réttum kjörum. Í þessu sambandi skiptir máli að beita sér í verkalýðspólitíkinni, hvernig við skiptum auðnum með réttlátum hætti því launafólk skapar verðmætin. Við stöndum frammi fyrir því að það þarf að berjast fyrir jöfnuði. Augljósasta leiðin til að jafna kjörin er að þeir hópar launafólks sem eru á lægstu laununum í okkar samfélagi greiði lægri skatta, og þeir sem hafa hæstu launin greiði meira til samfélagsins. Það er t.d. mjög auðveld aðgerð að hækka fjármagnstekjuskattinn, bara sanngirnismál augljóslega.

Þetta eru ekki geimvísindi,“ segir hún og heldur áfram: „Það ætti að vera auðvelt að skipta kökunni með réttlátari hætti. Það er ekki sanngjarnt að það séu alltaf sömu fáu aðilarnir sem alltaf er skömmtuð stærsta sneiðin. Ég tel að það sé vel hægt að jafna þetta þegar horft er til launa, launaskatts og útsvars, en líka auðlinda þjóðarinnar. Þetta er baráttumál okkar; að hafa áhrif og gagnrýna ákvarðanir og stefnu stjórnvalda sem skaðar launafólk og leggja til aðrar leiðir í stjórn efnahagsmála. Þetta getur verið auðvelt, það hefur bara skort viljann til þess hjá stjórnvöldum.“

 

Stytting vinnuvikunnar í vaktavinnu
Snúum okkur að kerfisbreytingunni sem varð á vinnumarkaðnum þegar stytting vinnuvikunnar var innleidd og er nú staðfest í kjarasamningum. Nú hefur stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki fallið í grýttan jarðveg. Hver er staðan í þessu verkefni núna?

„Núna 1. nóvember tóku gildi breytingar vegna styttingar vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki samkvæmt kjarasamningum og stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki er orðin staðreynd. Vaktavinnuhópurinn hefur þurft að bíða eftir betri útfærslum en BSRB hefur leitt þá vinnu og samstarfshópurinn innan bandalagsins er að fylgja þessu verkefni vel eftir. Þetta er í endurskoðun og því verður siglt farsællega í höfn á næstu misserum í samstarfi við vaktavinnufólkið sjálft. Þetta er risastórt verkefni sem er ekki ákveðið með einu pennastriki þar sem allt er látið jafnt yfir alla ganga. Verkefnið krefst stöðugrar endurskoðunar svo hægt sé að mæta kröfum þeirra sem starfa í vaktavinnunni um endurbætur á útfærslum. Ég ber fullt traust til starfshópsins innan BSRB, að við sem komum öll að þessu verkefni fylgjum ákveðnu tímaplani, og eins og ég sagði komum þessu verkefni vel í höfn,“ segir formaður Sameykis.


Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Segðu mér að lokum, hvert er leiðarljósið í starfi Sameykis?

„Leiðarljósið er félagsfólkið, að við séum alltaf að gæta hagsmuna félagsmannsins, hvort sem um er að ræða kjarasamninga, kjaramál, réttindi í sjóðum Sameykis eða orlofsmál, á öllum sviðum starfsemi félagsins; styrktarsjóðum, orlofsmálum, kjaramálum, fræðslumálum og þjónustu sem félagið veitir okkar fólki. Við komum líka beint að kjarasamningum en líka öðrum réttindum en kaupi og kjörum eins og veikindaréttindum, endurmenntunarmöguleikum og fleiru. Þannig að félagsfólkið er okkar leiðarljós, okkar fólk er í öndvegi og það er skylda okkar að gæta ávallt að þeirra hagsmunum,“ segir Ingibjörg Sif að lokum.