5. febrúar 2025
Setja þarf fókusinn á gerendur ofbeldis

Jenný Kristín Valberg, teymisstýra Bjarkarhlíðar. Ljósmynd/BIG
„Við eigum að hætta að vera hrædd við umræðuna um gerendur. Okkur á ekki að detta það í hug að ofbeldi lagist af sjálfu sér – að það bara hætti einn daginn. Þessi opna umræða um ofbeldi í nánu sambandi hefur sem betur fer skilað sér í því að þolendur leiti sér hjálpar.“
Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Jenný Kristín Valberg er teymisstýra Bjarkarhlíðar og sér um daglegan rekstur samtakanna. Í Bjarkarhlíð er boðið upp á viðtöl og ráðgjöf og er þjónustan öll á forsendum þolenda ofbeldis og þeim að kostnaðarlausu. Auk ráðgjafa eru á staðnum lögregla, ráðgjafi frá Kvennaathvarfi og lögfræðingur. Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Langflestir sem leita til Bjarkarhlíðar eru konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi af hendi karla. Allir sem telja sig verða fyrir ofbeldi, bæði í nánum samböndum eða á vinnustað, geta leitað til Bjarkarhlíðar.
Jenný Kristín er með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands, M.A. í kynjafræði með áherslu á ofbeldi í nánum samböndum og B.A. í mannfræði frá sama háskóla. Þá situr hún í stjórn samtakanna EFJCA (European Family Justice Centers Alliance) sem er evrópskt net þverfaglegrar nálgunar kynbundins ofbeldis, heimilisofbeldis og barnaníðs og fjölskylduréttarmiðstöðvar á vegum Evrópuráðsins.
Hún hefur umfangsmikla reynslu af að starfa með þolendum ofbeldis. Áður en hún kom til Bjarkarhlíðar starfaði hún um árabil sem ráðgjafi hjá Samtökum um kvennaathvarf. Hún hefur stundað rannsóknir og komið að kennslu í Háskóla Íslands ásamt að taka þátt í að móta nýjar áherslur í stjórnsýslunni til að koma betur og markvissar til móts við þarfir þolenda ofbeldis. Hún hefur fjölþætta reynslu af að styðja við þolendur ofbeldis í þverfaglegu samstarfi við aðrar stofnanir og kerfi, og leggur áherslu á að mæta brotaþolum ofbeldis á þeirra forsendum og þar með senda skilaboð um að ofbeldi er ekki liðið í samfélaginu.
Fyrir hönd félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins leiðir Jenný Kristín tilraunaverkefni um samþættingu og samhæfingu á þjónustu fyrir þolendur mansals og hefur sótt fjölda námskeiða í tengslum við það verkefni. Hún hefur sótt þjálfun OSCE/ODIER í Varsjá sem bar heitið Addressing human trafficking risks in light of military attack on Ukraine: Training for civil society and frontline responders. Að auki hefur hún lokið námskeiði sem bar yfirskriftina Tackling human trafficking and modern slavery: Delivering change í St. Mary’s háskólanum í London.
Jenný Kristín segir að mikilvægt sé að vera með að virka EKKO-áætlun á vinnustöðum sem er reglulega tekin upp og rædd.
Heimilisofbeldi og ofbeldi á vinnustað
Jenný Kristín segir að hún hafi persónulega reynslu af heimilisofbeldi í hjónabandi sem stóð yfir í 13 ár. Hún segir mikilvægt að setja fókusinn á gerendur ofbeldis. „Það á alls ekki að vera feimnismál að ræða um gerendur ofbeldis né hlífa þeim við gjörðum sínum með þögninni. Opna þarf meira umræðuna um gerendur ofbeldis.“
Hún segir að oftast sé ofbeldi framið í nánum samböndum en líka á vinnustöðum – sem birtist m.a. í að útiloka fólk, skapa umræðu sem grefur undan samstarfsfólki eða einstaklingi á vinnustaðnum. Þá segir hún að vel sé hægt að koma auga á einkennin hjá fólki sem beitt er ofbeldi á vinnustað. Þau komi fram í að hegðun þolandans breytist með áberandi hætti, t.d. að hann einangri sig frá vinnufélögum, taki ekki þátt í félagslífi á vinnustaðnum, taki síður þátt í umræðum og haldi sig almennt til hlés. Ábyrgð yfirmanna á vinnustað er því mikil og geta rétt viðbrögð þeirra haft mikið að segja um hvort ofbeldið heldur áfram eða er upprætt.
Heilbrigð vinnustaðamenning skiptir máli og til að skapa jafnræði kynjanna og koma í veg fyrir ofbeldisfulla vinnustaðamenningu er ein af lausnunum að jafna ábyrgð kynjanna, hvort sem litið er til yfirmannsstöðu eða verkefna á vinnustað, en einnig að vera með virka EKKO-áætlun sem er reglulega tekin upp og rædd. Hún segir að sama eigi við þegar heimilisofbeldi á sér stað því einkennin séu þau sömu þó ofbeldið eigi sér stað annars staðar en á vinnustaðnum. Vel upplýstir stjórnendur á vinnustöðum um birtingarmyndir ofbeldis skipta öllu máli. Opinská umræða um gerendur ofbeldis, hvort sem karl eða kona á í hlut, og hvernig þeim eru sett mörk inni á vinnustaðnum eða gert að skilja við vinnustaðinn sökum ofbeldishegðunar, er sjálfsögð. Enginn á að þurfa að þola ofbeldishegðun innan veggja heimilisins né á vinnustað. Gerendur ofbeldis virðast þó njóta meiri verndar en þolendur sökum sönnunarbyrði og lagaverndar.
„Margir sem koma til okkar eru oft efins um að þeir séu þolendur ofbeldis,“ segir Jenný Kristín. „Ofbeldi í nánum samböndum er þannig að gerandinn velur sér þolanda. Atburðarásin verður oft mjög hröð. Hann gengur sem sagt mjög hratt inn í sambandið og það þróast eftir því. Gerandinn fer fljótt að nota stórar staðhæfingar eins og ástarjátningar og notar setningar eins og „þú ert mín“, „við verðum alltaf saman“, „við eignumst börn og stofnum fjölskyldu“, og mjög fljótt er sambúð hafin, jafnvel á fyrstu mánuðum sambandsins,“ segir Jenný Kristín og heldur áfram að lýsa ferli gerandans: „Þegar honum hefur tekist að stofna til sambúðar hefst önnur tegund ofbeldis. Gerandinn fer að krefjast hollustu í formi einangrunar, að vera ekki úti með vinum, hitta ekki fjölskyldu eða vinnufélaga – raða markmiðum gerandans í fyrsta sæti,“ útskýrir hún og bætir við: „Síðan eru settar persónulegar reglur inn í sambandið þar sem gerandinn er stöðugt að finna leiðir til að fá þolandann til raða hagsmunum gerandans í fyrsta sæti. Svo er þolandanum refsað ef honum mistekst það.“
Þegar gerandinn hefur tekist að stofna til sambúðar hefst önnur tegund ofbeldis og fer að krefjast hollustu.
Hverjar eru þessar birtingarmyndir ofbeldis? „Þær geta verið með ýmsu móti. Algengasta birtingarmyndin er andlegt ofbeldi þar sem verið er að fyrirstjórna og hunsa, ógnarstjórn, gaslýsing eins og „þér líður ekki svona“, „þetta er ekki rétt hjá þér, ég sagði þetta aldrei!“ o.s.frv. Það sem er dulið í þessu er að gerandinn kannski bannar þér ekki beint að fara út, heldur fer í fýlu og gefur merki um að það sé óæskilegt. Jafnvel eru afleiðingar þegar þú kemur til baka; fýlustjórnun í nokkra daga eða vikur. Þá gæturðu þurft að þola fjárhagslega aðþrengingu og jafnvel þurft að borga fyrir með kynferðislegum greiðum,“ segir hún og bætir við að þolandi upplifi oft að hann hafi tekið þessar ákvarðanir sjálfur. „Þolandinn er svo mikið að reyna að skaðaminnka umhverfið og er í raun að ganga á glerbrotum alla daga. Hann er alltaf að vega og meta og spyr sig sífellt: „Ef ég geri þetta, þá gerist þetta og hvaða afleiðingar getur það mögulega haft fyrir mig?“ Með tímanum býr þolandinn við krónískan ótta þar sem hann er stöðugt á varðbergi.“
Taugakerfið gerir ekki greinarmun á tegund ofbeldis
Jenný Kristín segir að taugakerfi þess sem verður fyrir ofbeldi geri ekki greinarmun á hvers eðlis það er. Afleiðingar ofbeldis, hvort sem það er í nánum samböndum eða á sér stað inn á vinnustað, eru þær sömu fyrir taugakerfið.
„Taugakerfið okkar gerir ekki mikinn greinarmun á hvort við séum að verða fyrir andlegu, líkamlegu, kynferðislegu eða fjárhagslegu ofbeldi. Það er vegna þess að áfallið getur verið það mikið í hvert skipti, að viðbrögðin við ofbeldinu í taugakerfinu eru þau sömu. Varðandi andlegt ofbeldi, þá gerist það með tímanum að þolandinn hættir að treysta á innsæið sitt, mörkin sín og viðbrögð vegna þess að gerandinn segir stöðugt að þau séu röng. Þá kennir gerandinn þolandanum um ofbeldið sem hann beitir og sakar þolandann um að hann hafi beitt ofbeldinu. Með einangruninni sem þessu fylgir, eins og ég nefndi áðan, getur þolandinn ekki speglað sig við aðra og fer að trúa þessu. Það er sagt að þolendur sem koma út úr ofbeldissambandi séu með persónuleika eins og óskrifað blað. Þeir vita ekki hvort þeim líki t.d. fiskur eða kjöt því þeim hefur verið sagt að þeim líki annað fremur en hitt.“
Hvar liggja þessi mörk ofbeldis í samskiptum milli fólks? „Munurinn er sá að þegar tveir einstaklingar takast á (e. common couple violence) er hvorugur aðilinn hræddur við hinn. Bæði geta sett mörk og komið markmiðum sínum, tilfinningum og skoðunum á framfæri án afleiðinga. En ofbeldi í nánu sambandi er þannig að annar aðilinn beygir hinn undir vilja sinn. Þá er gerandinn í ráðandi stöðu, stýrir öllu sem fer fram á heimilinu og refsar fyrir það. Eðlilega mun þolandinn aldrei upplifa öryggi, jafnvel þó gerandinn sé ekki viðstaddur. Þú upplifir að verið sé að fylgjast með þér – og oft er verið að fylgjast með þér. Óttinn við afleiðingar sviptir þolandann hvers kyns öryggi sem fólki þykir sjálfsagt sem ekki hefur upplifað ofbeldi í nánum samböndum.“
Eitraður þríhyrningur
Nú langar mig til að beina sjónum okkar nánar að vinnustöðunum og samskiptum milli fólks þar. Yfirmenn og samstarfsfólk er auðvitað alls konar en í samtali okkar um ofbeldi koma upp myndir sem við sem störfum í verkalýðshreyfingunni þekkjum mætavel – stjórnsamir yfirmenn sem beita útilokunum, hika ekki við að reka fólk sem andmælir þeim.
„Slíkir yfirmenn á vinnustað sem grafa undan trausti, kúga fólk og með því láta það efast um hæfni sína, líta yfir öxl þess, refsa því með því að hunsa það, útiloka það frá verkefnum o.s.frv. eru gerendur andlegs ofbeldis og má segja að séu okkar helsta áskorun – hvað eru góð og heilbrigð samskipti á vinnustað og reyndar í samfélaginu öllu? Við sjáum víða óheilbrigð samskipti út um allt á vinnustöðum, það sem við köllum „eitraðan þríhyrning“ þar sem tveir eru að tala illa um þann þriðja og fara svo á milli til að grafa undan einstaklingnum. Þetta er mjög skemmandi og einungis gert til að ná fram eigin vilja og stjórn. Þetta gera gerendur til að ýta öðrum niður. Þetta getur einnig átt sér stað milli foreldra og barna, milli vina, eins á milli yfirmanna og starfsfólks og samstarfsaðila. Þá gerist þetta þegar starfsfólk er t.d. að sækjast eftir starfi eða stöðuhækkun. Yfirmaður sem er gerandi ofbeldis bregst oft við með því að segja: „Já flott hjá þér, en þú hefur nú alltaf litið svolítið stórt á þig,“ og dregur þannig úr viðkomandi og jafnvel kemur í veg fyrir að viðkomandi fái starfið sem sóst er eftir, eða stöðuhækkunina.“
Vinnustaðirnir þurfa að þekkja aðferðir gerenda ofbeldis, viðurkenna undanbragðalaust ef og þegar það á sér stað og bregðast við.
Gerendur ofbeldis njóta vafans
Hvernig stöðvum við ofbeldi, eða kannski frekar, hvernig er hægt að sanna tilfinningar og upplifanir og þannig láta gerandann taka afleiðingum ofbeldisins?
„Það eru allir hræddir við að tala um gerendurna og því skiptir upplýst stefna gegn ofbeldi á vinnustöðunum máli. Vinnustaðirnir þurfa að þekkja aðferðir gerenda ofbeldis, viðurkenna undanbragðalaust ef og þegar það á sér stað og bregðast við. EKKO-stefna eða slíkir ferlar eru mjög hjálplegir ef farið er eftir þeim. Þá er áríðandi að leita til óháðra aðila til að styrkja við þolendur, að þeir upplifi öryggi. Þú sérð að það getur verið erfitt fyrir þolanda að tilkynna yfirmann sinn til mannauðsstjórans sem situr alltaf með honum í hádegismat. Því þurfa þolendur að upplifa raunverulegt öryggi og stuðning í að tilkynna ofbeldi án þess óttast að missa starfið. Þá er mikilvægt fyrir vinnustaðinn að missa ekki starfsfólk vegna ofbeldis sem á sér stað heima fyrir. Við þekkjum dæmi þess að EKKO-stefna hafi komið því til leiðar að yfirmaður eða samstarfsmaður hefur þekkt einkenni þess sem verður fyrir ofbeldi og þannig búið til svigrúm fyrir þolanda til að geta mætt til sálfræðings og lögfræðings. Dæmi eru um að yfirmenn hafi komið með þolanda ofbeldis hingað til okkar. Það er gott að sjá þannig stuðning. Mannauður hvers vinnustaðar er það dýrmætasta sem vinnustaðurinn á og að missa dýrmætt starfsfólk í kulnun vegna ofbeldis er auðvitað kostnaðarsamt fyrir allt samfélagið, fyrir utan þá þekkingu og hæfni sem tapast um leið,“ segir Jenný Kristín.
Aðgerðaleysi gagnvart gerendum
Mig langar til að spyrja þig undir lokin hvaða hindranir í lögum hamla getu Bjarkarhlíðar til að aðstoða þolendur ofbeldis?
„Helstu hömlurnar sem við stöndum frammi fyrir er aðgerðaleysi gagnvart gerendum. Hömlur sem koma í veg fyrir að þolendur heimilisofbeldis greina frá ofbeldi, þ.e. hér hjá okkur, hjá lögreglu, félagsþjónustu, sýslumannsembættinu, barnavernd eða hvar sem er, þá er svo lítið sem hægt er að gera til að stöðva gerandann. Þröskuldurinn er of hár fyrir inngrip. Það þarf oftast að vera mjög mikið og alvarlegt líkamlegt ofbeldi til að gripið sé inn í. Það er líka því miður sjaldgæft að einstaklingur sem beittur er andlegu ofbeldi, sem hann er oftast lengur að jafna sig á, að það sé brugðist við. Það virðist eiginlega aldrei, vil ég fullyrða, að í þeim tilfellum séu gerendur skikkaðir í heimilisfrið [úrræði fyrir gerendur] og þá upplifa þolendur sig án stuðnings.
Oft ná þolendur þó með grettistaki að koma sér út úr ofbeldissambandinu og jafnvel ná fjáreignaskiptum sem oft tekur gríðarlega langan tíma því gerendurnir vilja ekki gefa krónu eftir því þeim finnst þeir eiga allt og vilja að auki ekki missa stjórnina. Þá sjáum við oft að þeir hanga á forræðis- og umgengnissamningum eins lengi og þeir geta og reyna að gera það ferli eins sársaukafullt og þeir mögulega geta fyrir þolendur. Stefna laganna er sú, að ef gerandinn er ekki í afplánun eða hreinlega ekki á landinu af einhverjum ástæðum, þá gildir jafn umgengnisréttur út frá jafnréttissjónarmiðum. Lagalegur réttur þolenda ofbeldis er því ekki meiri en geranda ofbeldisins.“
„Við eigum ekki að þurfa að verða fyrir ítrekuðu ofbeldi. Höfum það í huga að eitt atvik hefur gríðarleg áhrif á líf og líðan þolanda, hvað þá heldur ítrekað.“
„Við eigum ekki að þurfa að verða fyrir ítrekuðu ofbeldi“
Þá segir hún að litlar lagalegar heimildir séu til staðar fyrir þolendur til að bregðast við gerendum ofbeldis. Meðan þetta sé stefnan þá liggi ábyrgðin hjá þolendum að halda góðu umgengnissambandi vegna umgengnisréttar við gerandann sem styrkir hann aftur í að halda ofbeldinu áfram.
„Eftir því sem barnið er yngra, jafnvel yngra en ársgamalt, þá fer umgengnin oft fram inni á heimili móðurinnar sem er þolandinn. Þetta er vond staða fyrir þolandann að fá gerandann inn á heimilið sem getur þá haldið ofbeldinu áfram, auk þess sem ógnin við að fá gerandann aftur inn á heimilið er viðvarandi. Óvissan við að geta jafnvel ekki komið gerandanum út af heimilinu eftir umgengnisheimsókn er mikil og veldur vanlíðan. Það er ósköp lítið í lagaumhverfinu sem styður við þolendur í þessari stöðu, og sem tryggir að konur verði ekki fyrir áframhaldandi ofbeldi. Eins og ég hef áður sagt þá er ábyrgðin öll á þolandanum, og heimildir lögreglu eru of litlar og koma ekki til skjalanna fyrr en ofbeldið er orðið það alvarlegt; ítrekuð eltihrellahegðun, ítrekað líkamlegt ofbeldi, ítrekað kynferðislegt ofbeldi og kyrkingartök. Við eigum ekki að þurfa að verða fyrir ítrekuðu ofbeldi. Höfum það í huga að eitt atvik hefur gríðarleg áhrif á líf og líðan þolanda, hvað þá heldur ítrekað.
Við eigum að hætta að vera hrædd við umræðuna um gerendur. Okkur á ekki að detta það í hug að ofbeldi lagist af sjálfu sér – að það bara hætti einn daginn. Þessi opna umræða um ofbeldi í nánu sambandi hefur sem betur fer skilað sér í því að þolendur leiti sér hjálpar. Gerendur þurfa að gera miklu betur því við þekkjum það að þeir leita sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum. Þeir aðilar sem hafa mögulega snertifleti við gerendur; lögregla og félagsþjónustan, vinnuveitendur – það þarf að efla heimildir þeirra til inngrips þannig að það verði hægt að loka þessum ofbeldishring í eitt skipti fyrir öll,“ segir Jenný Kristín Valberg að lokum.