SFR: Fullvinnandi konur hafa að meðaltali 7% lægri grunnlaun en karlar í fullu starfi en 18% lægri heildarlaun
Ef við byrjum á að skoða þann hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR, má sjá að karlar í 100% starfi eru með ríflega 684 þúsund á mánuði í heildarlaun að meðaltali en heildarlaun kvenna eru tæplega 562 þúsund. Konur í fullu starfi hafa því tæplega 18% lægri laun en karlar í fullu starfi. Hér er þó ekki tekið tillit til lengri vinnutíma karla en kvenna eða annarra breyta sem áhrif hafa á laun.
Grunnlaun karla í fullu starfi eru ríflega 512 þúsund, en kvenna ríflega 476 þústund. Konur eru því með 7% lægri grunnlaun en karlar að meðaltali fyrir fullt starf.
St.Rv: Konur og karlar í fullu starfi hafa sömu grunnlaun en konur hafa að meðaltali 7% lægri heildarlaun en karlar í fullu starfi
Ekki mælist munur á grunnlaunum karla og kvenna hjá St.Rv. hluta Sameykis. Nokkur síðustu ár hefur það sama verið upp á teningnum, t.d. 2012, 2014 og 2015. Munur á heildarlaunum fullvinnandi karla og kvenna, hefur á hinn bóginn aldrei mælst lægri en nú, en hann hefur að jafnaði verið um 14%.
SFR konur hafa 11% lægri heildarlaun pr. vinnustund en karlar
Hjá SFR hluta Sameykis vinna karlar í fullu starfi nærri 46 tíma á viku, en konur í fullu starfi vinna tæplega 42 tíma á viku. Karlar vinna því ríflega fjórum stundum lengur en konur á viku, sem gera um 18 stundir á mánuði.
Með því að deila heildarlaunum á vinnustund, fæst svokallaður „óleiðréttur launamunur.“ Þess ber þó að geta að greidd laun fyrir yfirvinnu er inni í útreikningum en hver yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu. Því meiri yfirvinna sem er inni í laununum, því hærra verður heildartímakaupið.
Laun pr. vinnustund eru tæplega 3.500 kr. hjá körlum að meðaltali en ríflega 3.100 kr. hjá konum. Konur hafa um 11% lægri heildarlaun pr. vinnustund en karlar. Munurinn er mismunandi milli yfirflokka starfsstétta og er minnstur í skrifstofustörfum (4%) og einnig lítill meðal stjórnenda (5%) og sérfræðinga (5%). Hann er á hinn bóginn mestur meðal sérhæfðs starfsfólks (16%), en þar munar líka mestu á vinnutíma karla og kvenna, eða um fimm tímum á viku.
St.Rv. konur og karlar hafa sömu heildarlaun pr. vinnustund
Hjá St.Rv. hluta Sameykis vinna karlar tæpum þremur stundum lengur á viku en konur, eða um 12 tímum meira á mánuði. Þrátt fyrir þetta, þá hafa karlar og konur sömu laun pr. vinnustund, eða ríflega 3200 kr.
Þó er munur á launum karla og kvenna í einstökum yfirflokkum starfstétta, eða frá því að vera konum í hag (+4%) meðal stjórnenda og í að vera konum í óhag með sérhæfðs starfsfólks (-14%) og í skrifstofu-/afgreiðslustörfum (-14%).
SFR: Kynbundinn launamunur 10%
Eins og áður sagði hafa fullvinnandi konur 18% lægri heildarlaun en fullvinnandi karlar hjá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR. Til samanburðar var munurinn 27% árið 2008, þegar hann mældist mestur. Fullvinnandi konur mældust núna með 7% lægri grunnlaun en fullvinnandi karlar, en var 15% þegar hann var mestur árið 2008.
Þá mældust fullvinnandi konur með 11% lægri heildarlaun pr. vinnustund en karlar og kallast sá munur „óleiðréttur launamunur kynjanna.“
Að teknu tilliti til aldurs, aldurs í öðru veldi, vinnutíma (fjölda vinnustunda á viku), starfsaldurs, starfsaldurs í öðru veldi, yfirflokka starfsstétta, menntunar, atvinnugreinar, vaktaálags og mannaforráða lækkaði munurinn á heildarlaunum í 10,2% (vikmörk +/- 3,7%). Því er með 95% vissu hægt að segja að á meðal fólks á svipuðum aldri, með sama starfsaldur, í sama yfirflokk starfsstéttar, með sambærilegan vinnutíma, sambærilega menntun, í sambærilegri atvinnugrein, með mannaforráð eða ekki og með sambærilegt vaktaálag séu konur með á bilinu 6,4% til 13,9% lægri heildarlaun en karlar.
St.Rv: Ekki mælist kynbundinn launamunur
Meðal St.Rv. hluta Sameykishópsins er ekki hægt að segja með fullri vissu að kynbundinn launamunur finnist. Þá er tekið tillit til aldurs, aldurs í öðru veldi, vinnutíma (fjölda vinnustunda á viku), starfsaldurs, starfsaldurs í öðru veldi, yfirflokka starfsstétta, menntunar, atvinnugreinar, vaktaálags og mannaforráða.
Sameyki í heild: Munur á launum karla og kvenna
Fyrir Sameyki í heild eru konur með 92% af tímakaupi karla, sé heildarlaunum deilt á vinnustundir, eða 8% lægra tímakaup en karlar. Til samanburðar þá mælist óleiðréttur launamunur kynjanna 15% hjá Hagstofu árið 2017. Hann mælist minni hjá sveitarfélögum (9%) en hjá ríki (16%) og einkamarkaði (16%). Niðurstaðan Sameykis nú er því talsvert lægri en í mælingum Hagstofu fyrir árið 2017.