Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Launakönnun 2019

Markmiðið með launakönnun er að veita upplýsingar um markaðslaun í mismunandi starfsgreinum ásamt því að veita mikilvæga innsýn í þróun launa og launamunar kynjanna.
Halda áfram

Launakönnun Sameykis lítur nú dagsins ljós þrettánda árið í röð, en félagið fól Gallup vinnslu könnunarinnar. Síðustu ár hafa SFR og St.Rv. staðið saman að gerð launakönnunar fyrir hvort félag um sig, en nú er í fyrsta skipti um sameiginlega könnun að ræða, þó launatöflur séu að svo stöddu birtar í sitthvoru lagi. Launakönnunin veitir mikilvægar upplýsingar um starfskjör félagsmanna. Félagsmenn eiga þess kost að bera laun og starfskjör sín saman á milli ára og fylgjast með launaþróun í sinni starfsgrein sem og almennt. Mikilvægur þáttur í könnuninni er samanburður á starfskjörum á opinberum og einkamarkaði.

Könnunin gefur félagsmönnum tækifæri til að fylgjast með áhrifum efnahagssveiflna á laun og starfsskilyrði. Hægt er að sjá hver meðalhækkun launa er á milli ára, hvort föst eða breytileg yfirvinna sé að aukast eða minnka, hvort einhver munur sé á þróun launa karla og kvenna og hvort kynbundinn launamunur standi í stað, minnki eða aukist. Samanlagt gefa þessar upplýsingar skýra mynd af þeirri þróun sem er á launum og starfsskilyrðum félagsmanna milli ára. Gögnum var safnað af Gallup í febrúar og mars 2019 og var gerð með líkum hætti og síðustu ár. Spurt var um janúarlaun – laun greidd í byrjun febrúar 2019.

Könnunin, sem var netkönnun, var send á netföng félagsmanna í febrúar og mars 2019. Ef netfang var ekki til staðar, var hringt í viðkomandi og reynt að afla netfangs. Ef ekki náðist í viðkomandi, eða viðkomandi var ekki með gilt netfang, en GSM númer var til staðar, var send slóð í síma viðkomandi og gat félagsmaður þá svarað í símanum, að því gefnu að um snjalltæki væri að ræða.

Alls sendu tæplega 4.000 Sameykisfélagar inn lista og svarhlutfall 41%. Þegar búið er að draga frá lista sem ekki voru fylltir út á fullnægjandi hátt stóðu eftir tæplega 3.700 svör sem voru notuð við úrvinnslu gagna. Af þeim sem svöruðu voru konur 69% og karlar 31%.

Tæplega 1200 svör komu frá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði St.Rv. og um 2500 svör frá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR. Flestir svarendur starfa hjá ríkinu, eða 60%, næst flestir hjá Reykjavíkurborg eða 25% svarenda.

Spurt var um laun fyrir janúarmánuð – laun greidd í byrjun febrúar 2019. Í fyrsta skipti eru niðurstöður nú skoðuð eftir atvinnurekanda, en áður hafa þau verið skoðuð eftir hvoru félagi um sig. Starfsfólk í fyrirtækjum borgarinnar hafa hæstu heildarlaunin, tæp 645 þúsund á mánuði að meðaltali. Lægstu heildarlaunin að meðaltali greidd hjá borginni og eru þau tæp 579 þúsund.

Hæstu grunnlaunin eru tæplega 496 þúsund að meðaltali hjá sjálfseignarstofnunum og opinberum hlutafélögum í eigu ríkisins. Lægst eru þau hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavík tæp 460 þúsund að jafnaði. Hjá borginni eru þau nánast þau sömu, eða tæp 462 þúsund að meðaltali fyrir fullt starf.

Konur hafa um 95% af grunnlaunum karla og 85% af heildarlaunum karla að meðaltali. Aldurshópurinn 50-59 ára fær hæstu grunnlaunin, en aldurshópurinn 40-49 ára er að jafnaði með hæstu heildarlaunin. Yngsti aldurshópurinn (yngri en 30 ára) er með 88% af heildarlaunum 40-49 ára hópsins.

Stjórnendur fá greidd hæst grunnlaun og heildarlaun að meðaltali. Heildarlaun stjórnenda eru rúmlega 708 þúsund. Lægstu launin eru greidd í umönnunarstörfum og eru þau um 71% af grunnlaunum stjórnenda og heildarlaun þeirra eru um 68% af heildarlaunum stjórnenda.

Grunn- og heildarlaun hækka með menntun. Fólk með grunnskólapróf eða skemmri menntun hafa að meðaltali um 82% af heildarlaunum fólks með háskólamenntun.
Að meðaltali vinnur fólk í fullu starfi um 43 stundir á viku. Karlar vinna um 4 stundum lengur en konur. Ekki er munur á vinnustundum eftir aldri. Fólk í öryggis og eftirlitsstörfum vinnur lengsta vinnuviku, eða um 46 tíma á viku, en skemmstan vinnuviku vinnur skrifstofufólk og fólk við skrifstofu- og afgreiðslustörf í bland.

Grunnlaun hækka um 5% milli ára, en heildarlaun hækka um 9% sé Sameyki nú borið saman við bæði félögin samtals fyrir ári.

Hæstu grunnlaun – miðað við fullt starf – eru að meðaltali greidd í „innheimtustofnunum, almannatryggingum og lánasjóðum“ ríflega 500 þúsund, en lægstu grunnlaun eru að meðaltali greidd í heilbrigðisþjónustu, tæplega 447 þúsund. Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er með 89% af grunnlaunum fólks sem starfar í „innheimtustofnunum, almannatryggingum og lánasjóðum“.

Hæstu heildarlaun – miðað við fullt starf – eru að meðaltali greidd í „löggæslu, dómstólum og fangelsum“ – tæp 696 þúsund, en lægstu heildarlaun að meðaltali eru greidd í „innheimtustofnunum, almannatryggingum og lánasjóðum“ tæplega 561 þúsund.

Heildarlaun í öllum atvinnugreinum hækka, frá 4-16% milli ára. Grunnlaun hækka ekki í „löggæslu, dómstólum og fangelsum“ og ekki heldur hjá „Rannsókna- og eftirlitsstofnunum.“ Í öðrum atvinnugreinum hækka grunnlaun um 3-14%, mest í heildsölu og smásölu.


Svo hægt sé að skoða þróun launa er félagsmönnum skipt í félögin sem þeir tilheyrðu áður – SFR og St.Rv. þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ein könnun er keyrð fyrir Sameyki.

SFR: Heildarlaun hækka um 10% og grunnlaun um 6%

Heildarlaun fyrrum SFR félaga voru að meðaltali tæpar 597 þúsund krónur, þá er miðað við fullt starf og uppreiknuð laun. Þetta er rúmum 55 þúsund krónum hærri heildarlaun en fyrir ári og hækkun um rúm 10%. Fyrir ári hækkuðu launin um rúm 9%.

Meðaltal grunnlauna í könnuninni nú voru rúmar 484 þúsund, en 457 þúsund fyrir ári. Þá er miðað við fullt starf – uppreiknuð laun. Grunnlaun SFR félaga í fullu starfi hækkuðu því um rúmar 27 þúsund krónur milli ára, eða um 6%.

 

Heildarlaun karla og kvenna hækkuðu álíka mikið milli ára. Karlar voru að meðaltali 688 þúsund í heildarlaun en konur 559 þúsund. Laun karla hækkuðu um rúmar 60 þúsund krónur (tæp 10%) og laun kvenna hækkuðu um rúmar 57 þúsund krónur (rúm 11%) – að meðaltali. Hér er miðað við fólk í fullu starfi – uppreiknuð laun. Meðaltalshækkun grunnlauna nemur 6%. Karlar hækkuðu um 7% og konur hækkuðu um tæp 6%.

St.Rv: Heildarlaun hækka um 5% og grunnlaun um 4%

Uppfærð heildarlaun St.Rv. félaga voru 591 þúsund á mánuði að meðaltali (miðað við fullt starf- uppfærð heildarlaun) en voru tæpar 562 þúsund krónur fyrir ári. Hækkun meðallauna nemur 5% milli ára. Heildarlaun kvenna hækka en heildarlaun karla standa í stað.

Uppfærð grunnlaun voru 466 þúsund á mánuði (miðað við fullt starf) að meðaltali og hækkuðu um 4%. Grunnlaun karla standa í stað, en laun kvenna hækkuðu um rúm 6%.

Ástæðan fyrir því að laun karla standa í stað eru trúlega nokkrar, en þó stafa þær að mestu af breytingu á samsetningu karla miðað við síðasta ár. Fleiri ungir karlar svara í ár en í fyrra og færri karlar eru með mannaforráð í ár en síðasta ár. Þá eru heldur færri karlar starfandi í „opinberri stjórnsýslu“ og „landbúnaði, orkustofnunum og skógrækt“ nú en í fyrra, en þar eru laun heldur hærri en í öðrum atvinnugreinum.

SFR: átta af tíu fá aukagreiðslur

Átta af tíu eru með einhverjar aukagreiðslur innifaldar í heildarlaunum hjá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR. Tæplega fjórðungur kvenna fær engar aukagreiðslur en um 10% karla, algengast er að fólk fái greidda yfirvinnu samkvæmt unnum yfirvinnutímum (39%).

St.Rv.: Nærri níu af hverjum tíu fá aukagreiðslur

Ríflega 86% eru með einhverjar aukagreiðslur innifaldar í heildarlaunum hjá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði St.Rv. Níu af hverjum tíu körlum og ríflega átta af hverjum tíu konum (85%). Algengast er að fólk fái greidda yfirvinnu samkvæmt unnum yfirvinnutímum (43%). Verulega hefur dregið saman með kynjunum síðan 2011.

SFR: 74% karla fá hlunnindi en 63% kvenna

Tveir af hverjum þremur fá hlunnindi, þrír af hverjum fjórum körlum, en tvær af hverjum þremur konum. Flestir fá styrk vegna líkamsræktar (45%).

Flestir fá styrk vegna líkamsræktar, eða nærri helmingur svarenda (45%) og fjórðungur fær samgöngustyrk.

St.Rv. Þrír af hverjum fjórum fá hlunnindi

Þrír af hverjum fjórum félagsmönnum sem áður tilheyrðu St.Rv. fá einhver hlunnindi. Dregið hefur saman með kynjunum og fá 77% karla og 72% kvenna einhver hlunnindi. Flestir fá styrk vegna líkamsræktar (51%) og ríflega þriðjungur fær samgöngustyrk.

 

SFR: Munur á sanngjörnum launum og heildarlaunum hefur aldrei mælst lægri

Hjá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR er munurinn á sanngjörnum og raunverulegum launum 16% og hefur hann aldrei mælst lægri. Niðurstaðan þýðir að heildarlaun þurfa að hækka um 16% til að svarendur telji þau sanngjörn. Árið 2010 hefðu heildarlaun þurft að hækka um nærri 30% til að teljast sanngjörn.

Ánægja með laun hefur ekki mælst hærri en síðustu tvö ár, en um þriðjungur svarenda verið ánægður með laun sín þessi tvö ár. Aðeins 18% voru ánægð með launin árið 2014 þegar fæstir voru ánægðir. Karlar eru ánægðari með laun sín en konur – eins og hefur oftast verið raunin í þessum könnunum. Þá eru stjórnendur ánægðastir með laun sín af starfsstéttunum.

St.Rv: Ánægja með laun síðustu tvö ár

Líkt og hjá SFR hluta Sameykis hefur ánægja með laun aukist á síðustu árum hjá St.Rv. hlutanum og hefur aldrei mælst hærri en síðustu tvö ár. Munurinn á sanngjörnum og raunverulegum launum er 20% og hefur aldrei mælst lægri. Þegar mest var nam munurinn 30%.
Nokkur munur er á mun á sanngjörnum og raunverulegum launum eftir menntun. Laun fólks með grunnskólamenntun þyrftu að hækka mest til að vera sanngjörn, eða um 32% en minnst þyrftu laun fólks sem lokið hefur framhaldsskóla eða um 16%.

SFR: Fullvinnandi konur hafa að meðaltali 7% lægri grunnlaun en karlar í fullu starfi en 18% lægri heildarlaun

Ef við byrjum á að skoða þann hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR, má sjá að karlar í 100% starfi eru með ríflega 684 þúsund á mánuði í heildarlaun að meðaltali en heildarlaun kvenna eru tæplega 562 þúsund. Konur í fullu starfi hafa því tæplega 18% lægri laun en karlar í fullu starfi. Hér er þó ekki tekið tillit til lengri vinnutíma karla en kvenna eða annarra breyta sem áhrif hafa á laun.

Grunnlaun karla í fullu starfi eru ríflega 512 þúsund, en kvenna ríflega 476 þústund. Konur eru því með 7% lægri grunnlaun en karlar að meðaltali fyrir fullt starf.

St.Rv: Konur og karlar í fullu starfi hafa sömu grunnlaun en konur hafa að meðaltali 7% lægri heildarlaun en karlar í fullu starfi

Ekki mælist munur á grunnlaunum karla og kvenna hjá St.Rv. hluta Sameykis. Nokkur síðustu ár hefur það sama verið upp á teningnum, t.d. 2012, 2014 og 2015. Munur á heildarlaunum fullvinnandi karla og kvenna, hefur á hinn bóginn aldrei mælst lægri en nú, en hann hefur að jafnaði verið um 14%.

SFR konur hafa 11% lægri heildarlaun pr. vinnustund en karlar

Hjá SFR hluta Sameykis vinna karlar í fullu starfi nærri 46 tíma á viku, en konur í fullu starfi vinna tæplega 42 tíma á viku. Karlar vinna því ríflega fjórum stundum lengur en konur á viku, sem gera um 18 stundir á mánuði.

Með því að deila heildarlaunum á vinnustund, fæst svokallaður „óleiðréttur launamunur.“ Þess ber þó að geta að greidd laun fyrir yfirvinnu er inni í útreikningum en hver yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu. Því meiri yfirvinna sem er inni í laununum, því hærra verður heildartímakaupið.

Laun pr. vinnustund eru tæplega 3.500 kr. hjá körlum að meðaltali en ríflega 3.100 kr. hjá konum. Konur hafa um 11% lægri heildarlaun pr. vinnustund en karlar. Munurinn er mismunandi milli yfirflokka starfsstétta og er minnstur í skrifstofustörfum (4%) og einnig lítill meðal stjórnenda (5%) og sérfræðinga (5%). Hann er á hinn bóginn mestur meðal sérhæfðs starfsfólks (16%), en þar munar líka mestu á vinnutíma karla og kvenna, eða um fimm tímum á viku.

St.Rv. konur og karlar hafa sömu heildarlaun pr. vinnustund

Hjá St.Rv. hluta Sameykis vinna karlar tæpum þremur stundum lengur á viku en konur, eða um 12 tímum meira á mánuði. Þrátt fyrir þetta, þá hafa karlar og konur sömu laun pr. vinnustund, eða ríflega 3200 kr.

Þó er munur á launum karla og kvenna í einstökum yfirflokkum starfstétta, eða frá því að vera konum í hag (+4%) meðal stjórnenda og í að vera konum í óhag með sérhæfðs starfsfólks (-14%) og í skrifstofu-/afgreiðslustörfum (-14%).

SFR: Kynbundinn launamunur 10%

Eins og áður sagði hafa fullvinnandi konur 18% lægri heildarlaun en fullvinnandi karlar hjá þeim hluta Sameykis sem áður tilheyrði SFR. Til samanburðar var munurinn 27% árið 2008, þegar hann mældist mestur. Fullvinnandi konur mældust núna með 7% lægri grunnlaun en fullvinnandi karlar, en var 15% þegar hann var mestur árið 2008.

Þá mældust fullvinnandi konur með 11% lægri heildarlaun pr. vinnustund en karlar og kallast sá munur „óleiðréttur launamunur kynjanna.“

Að teknu tilliti til aldurs, aldurs í öðru veldi, vinnutíma (fjölda vinnustunda á viku), starfsaldurs, starfsaldurs í öðru veldi, yfirflokka starfsstétta, menntunar, atvinnugreinar, vaktaálags og mannaforráða lækkaði munurinn á heildarlaunum í 10,2% (vikmörk +/- 3,7%). Því er með 95% vissu hægt að segja að á meðal fólks á svipuðum aldri, með sama starfsaldur, í sama yfirflokk starfsstéttar, með sambærilegan vinnutíma, sambærilega menntun, í sambærilegri atvinnugrein, með mannaforráð eða ekki og með sambærilegt vaktaálag séu konur með á bilinu 6,4% til 13,9% lægri heildarlaun en karlar.

St.Rv: Ekki mælist kynbundinn launamunur

Meðal St.Rv. hluta Sameykishópsins er ekki hægt að segja með fullri vissu að kynbundinn launamunur finnist. Þá er tekið tillit til aldurs, aldurs í öðru veldi, vinnutíma (fjölda vinnustunda á viku), starfsaldurs, starfsaldurs í öðru veldi, yfirflokka starfsstétta, menntunar, atvinnugreinar, vaktaálags og mannaforráða.

Sameyki í heild: Munur á launum karla og kvenna

Fyrir Sameyki í heild eru konur með 92% af tímakaupi karla, sé heildarlaunum deilt á vinnustundir, eða 8% lægra tímakaup en karlar. Til samanburðar þá mælist óleiðréttur launamunur kynjanna 15% hjá Hagstofu árið 2017. Hann mælist minni hjá sveitarfélögum (9%) en hjá ríki (16%) og einkamarkaði (16%). Niðurstaðan Sameykis nú er því talsvert lægri en í mælingum Hagstofu fyrir árið 2017.