Framkvæmd könnunarinnar „Stofnun ársins“ er með sambærilegu sniði í ár og fyrri ár. Líkt og áður eru Sameyki og fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi um könnunina vegna ríkisstarfsmanna. Sameyki býður öllum félagsmönnum Sameykis þátttöku. Auk þess sem stofnunum er boðin þátttaka í könnuninni fyrir allt starfsfólk – án tillits til þess hvort starfsfólkið sé í Sameyki eða ekki. Þetta gildir um stofnanir sveitarfélaga, sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki borgarinnar.
Um könnunina
Val á stofnun og fyrirtæki ársins er samstarfsverkefni margra aðila; Sameykis, VR og fjármála- og efnahagsráðuneytisins og svo auðvitað hundraða stofnana. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir og fyrirtæki, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði.
Vegna sameiningar SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar i janúar síðastliðinn er könnunin með svolítið öðru sniði ár. Ástæðan er sú að undirbúningur fyrir könnunina 2019 hófst löngu fyrir þann tíma og því var ákveðið að halda skiptingunni eins og hún var fyrir sameiningu, að minnsta kosti að hluta til. Þetta þýðir að í könnun Sameykis í ár eru tveir flokkar og valdar eru tvær Stofnanir ársins, tveir Hástökkvarar o.s.frv.
Undir annan flokkinn Stofnun ársins borg og bær falla vinnustaðir Reykjavíkurborgar, Akraness og Seltjarnarness, sem áður tilheyrðu Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Vinnustöðunum er svo skipt niður í tvo stærðarflokka. Undir hinn flokkinn Stofnun ársins falla síðan ríki, sjálfseignarstofnanir o.fl. sem féllu undir SFR áður og er þeim vinnustöðum skipt niður í þrjá stærðarflokka.
Tilgangur könnunarinnar
Tilgangur með vali á stofnun og fyrirtæki ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.
Spurningalisti er lagður fyrir starfsfólk á Netinu. Mælingin nær til níu ólíkra þátta en með því að láta mælinguna ná til margra þátta fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana.
Þáttagreining (factor analysis) var notuð til að greina þá undirliggjandi þætti sem eru mældir. Í megindráttum komu fram níu þættir: Stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti. Vægi þáttanna í heildareinkunn ákvarðast af þáttagreiningunni (sjá mynd 1) en stofnunum er síðan raðað eftir heildareinkunninni.
Mynd 1: Vægi þátta í heildareinkunn
Stofnunum er gróflega skipt í tvo flokka: Annars vegar sveitarfélög og borgarstofnanir og hins vegar ríkisstofnanir og sjálfseignarstofnanir. Heildarfjöldi stofnana sem komust á lista nú var 162:
Alls var 141 stofnun í flokki ríkisstofnana og sjálfseignarstofnana, en 21 í flokki sveitarfélaga og borgarstofnana. Alls fengust svör frá tæplega 13 þúsund starfsmönnum og var svarhlutfall tæplega 49%. Að baki valinu á stofnun ársins eru niðurstöður stofnana sem uppfylla skilyrði um svörun (35% svarhlutfall) og byggir sá hluti á tæplega 10.400 svörum hjá ríkisstofnunum og sjálfseignarstofnunum en aðeins tæplega 500 svörum hjá sveitarfélögum og borgarstofnunum.
Þátttökuskilyrði
Til að stofnun nái inn á listann þarf svarhlutfall að vera að lágmarki 35% – þá er miðað við svarhlutfall af útsendum spurningalistum. Fimm svör þurfa að berast frá stofnun að lágmarki en auknar kröfur eru gerðar um fjölda svara eftir því sem starfsfólki stofnunarinnar fjölgar.
Könnunin nær til ríkisstarfsmanna allra stofnana sem sendu inn lista. Þá nær könnunin til allra félagsmanna Sameykis í 33% starfi eða meira og höfðu verið félagsmenn í a.m.k. fjóra mánuði. Félagsmenn Sameykis starfa víða, t.d. í sveitarfélögum, fyrirtækjum borgarinnar, á sjálfseignarstofnunum eða stofnunum í eigu annarra en ríkisins. Þessar stofnanir eru einnig með í vali á stofnun ársins svo fremi sem þær uppfylli almenn þátttökuskilyrði. Þá geta þessar stofnanir óskað eftir þátttöku í Stofnun ársins og boðið öllu starfsfólki að svara könnuninni. Átta slíkar stofnanir tóku þátt þetta árið: Bændasamtök Íslands, Faxaflóahafnir sf., Heilsustofnun NLFÍ, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Matís ohf., Orkubú Vestfjarða, Reykjalundur og Sjálfsbjargarheimilið.