Heildarniðurstöður könnunarinnar eru byggðar á svörum tæplega 12.000 manns. Hér er unnið með öll svör, hvort sem stofnun komst á lista eða ekki. Niðurstöður hér á eftir víkja því sums staðar frá þeim niðurstöðum sem sagt hefur verið frá hér á undan. Heildareinkunn Heildareinkunnin er vegið meðaltal úr þáttunum níu og það er hún sem er notuð við val á stofnun ársins. Stjórnun vegur þyngst í heildarmatinu en næst þyngst vega starfsandi og jafnréttisþátturinn (sjá mynd 1).
Meðaleinkunnin sem starfsfólk gefur vinnustaðnum er 3,9 á kvarðanum 1-5. Ef skoðuð eru svör annars vegar Sameykisfélaga og svo þeirra sem ekki tilheyra Sameyki kemur í ljós lítill munur á heildareinkunn. Sem sagt, svör Sameykisfélaga skera sig ekki markvert úr frá svörum annarra sem vinna hjá ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða fyrirtækjum á vegum sveitarfélaganna. „Þegar skoðuð er heildareinkunn skera svör Sameykisfélaga sig ekki markvert úr frá svörum annarra sem vinna hjá ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða fyrirtækjum á vegum sveitarfélaganna.
Nærri átta af hverjum tíu svarendum gefa vinnustað sínum „góða“ heildareinkunn (á bilinu 3,5 til 5,0) og af þeim gefa 19% „mjög góða“ einkunn, það er einkunn á bilinu 4,5 til 5,0. Þá gefa19% einkunn á bilinu 2,5 til 3,4, en mjög fáir gefa lægri einkunn en það, eða aðeins 2% svarenda. Starfsfólk fyrirtækja borgarinnar, sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana gefa hærri einkunn en starfsfólk ríkisstofnana. Einkunn meðal fyrirtækja borgarinnar lækkar þó hvað mest frá síðasta ári.
Þá gefur yngsti og elsti aldurshópurinn lítið eitt hærri einkunnir en aðrir aldurshópar. Stjórnendur og starfsfólk í sölu- eða afgreiðslustörfum gefa hærri einkunn en annað starfsfólk og starfsfólk minni stofnana gefur almennt hærri einkunn en starfsfólk stærri stofnana.
Lítill munur er á svörum Sameykisfélaga og hinna sem ekki tilheyra Sameyki
Ekki er ýkja mikill munur á svörum Sameykisfélaga og þeirra sem ekki tilheyra Sameyki. Þó má sjá að ánægja með launkjör er minni meðal Sameykisfélaga en hinna sem ekki tilheyra Sameyki en sveigjanleiki vinnu fær hærri einkunn meðal Sameykisfélaga en þeirra sem ekki tilheyra Sameyki.
Heildareinkunn og einkunnir þátta taka gildi á bilinu 1 til 5 þar sem 1 gefur til kynna mesta óánægju en 5 gefur til kynna mesta ánægju eða jákvæðasta afstöðu. Einkunnir eru flokkaðar í fimm flokka: Mjög góð einkunn er á bilinu 4,5-5; frekar góð einkunn á bilinu 3,5-4,4; hvorki góð né slæm einkunn er einkunn á bilinu 2,5-3,4; frekar slæm einkunn á bilinu 1,5-2,4; og mjög slæm einkunn er einkunn á bilinu 1-1,4.