Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir heildarniðurstöðum könnunarinnar sem er byggð á svörum rúmlega 13.300 manns. Hér er unnið með öll svör, hvort sem stofnun komst á lista eða ekki og hvort sem svörin komu frá ríkisstofnunum, Reykjavíkurborg, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða fyrirtækjum borgarinnar. Niðurstöður hér á eftir víkja því sumstaðar frá þeim niðurstöðum sem sagt hefur verið frá hér á undan.
Heildareinkunn
Heildareinkunnin er vegið meðaltal úr þáttunum níu og það er hún sem notuð er við val á stofnun ársins (sjá mynd 7). Stjórnun vegur þyngst í heildarmatinu, en næst þyngst vega starfsandi og jafnréttisþátturinn.
Heildareinkunn og einkunnir þátta taka gildi á bilinu 1 til 5, þar sem 1 gefur til kynna mesta óánægju en 5 gefur til kynna mesta ánægju eða jákvæðustu afstöðuna. Einkunnir eru flokkaðar í fimm flokka: Mjög góð einkunn er á bilinu 4,5-5; frekar góð, einkunn á bilinu 3,5-4,4; hvorki góð né slæm einkunn er einkunn á bilinu 2,5-3,4; frekar slæm einkunn á bilinu 1,5-2,4; og mjög slæm einkunn er einkunn á bilinu 1-1,4.
Meðaleinkunnin sem starfsfólk gefur vinnustaðnum er 3,91 (mæld á kvarðanum 1-5). Nærri átta af hverjum tíu svarendum gefa vinnustað sínum „góða“ heildareinkunn (einkunn á bilinu 3,5 til 5,0) og af þeim gefa rúm 18% „mjög góða“ einkunn, það er einkunn á bilinu 4,5 til 5,0. Í síðustu mælingu var einkunnin 3,93 en 3,92 árið 2019. Litlar breytingar eru því á heildareinkunnum milli ára. Starfsfólk fyrirtækja borgarinnar og sveitarfélaganna sem eru í könnuninni gefa heldur hærri einkunnir en starfsfólk ríkisstofnana og sjálfseignarstofnana (sjá mynd 7).
Mynd 7: Heildareinkunnir 2019, 2020 og 2021 – allar stofnanir og eftir tegund stofnana
Þá gefa yngsti (yngri en 30 ára) og elsti aldurshópurinn (60 ára eða eldri) lítið eitt hærri einkunnir en aldurshóparnir sem eru þarna á milli (30-39 ára, 40-49 ára og 50-59 ára). Stjórnendur gefa einnig hærri einkunn en annað starfsfólk og starfsfólk minni stofnana gefur almennt hærri einkunn en starfsfólk stærri stofnana.