Stofnanir ársins 2023 eru Félagsmiðstöðin Sigyn, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Heilsustofnunin NLFÍ, Hitt húsið, Vesturmiðstöð og Þjóðskrá Íslands.
Niðurstöður í vali á Stofnun ársins 2023 var tilkynnt á hátíð Sameykis 15. febrúar 2024 en titlana Stofnun ársins - ríkisstofnanir, Stofnun ársins - borg og bær og Stofnun ársins - sjálfseignastofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim níu þáttum sem könnun byggir á að mati starfsmanna þeirra. Um er að ræða mat á innra starfsumhverfi stofnana og starfsstaða.
Aldrei hefur verið betri þátttaka í Stofnun ársins en nú, en í ár tóku nærri 17.000 þátt í könnuninni. Reykjavíkurborg er þátttakandi í könnuninni með allt starfsfólk í annað sinn en allt ríkisstarfsfólk hefur tekið þátt síðan árið 2011. Svarhlutfall, gildir listar af endanlegu úrtaki, var ríflega 58%. Könnunin nær til starfsfólks á opinberum vinnumarkaði; hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og fyrirtækjum í almannaþjónustu. Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana.
Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsfólks á vinnustöðum.
Aðaltöflur – Sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu
Vinningshafar - Sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu
Nánari upplýsingar um könnunina og framkvæmd hennar má sjá hér.