Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Ýmislegt um kjaramál

Hér að neðan eru almennar upplýsingar um kjaramál, réttindi og skyldur. Endilega sendu okkur ábendingar ef þér finnst eitthvað vanta!
Halda áfram

Aðild opinberra starfsmanna að stéttarfélögum byggir á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1986. 

Aðild að stéttarfélögum er bundin við starfsstétt/störf og í lögunum segir að eigi skuli nema eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt.
Þetta þýðir að ef starfsmaður tekur að sér starf sem ákveðið stéttarfélag gerir kjarasamninga fyrir, þá greiðir viðkomandi starfsmaður félagsgjald til þess félags.

Í stjórnarskránni er þó kveðið á um að ekki megi skylda einstaklinga til aðildar að félagi. Það þýðir að starfsmenn geta kosið að standa utan félaga. Þeir sem svo gera hafa þó áfram greiðsluskyldu iðgjalds til félagsins hafi það samningsumboð vegna starfsins.

 

Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna

Réttur til launa vegna aðgerða/meðferða 
lýtaaðgerðir, glasa- og tæknifrjóvganir o.fl.

 Í vinnurétti er túlkunin sú að fjarvistir vegna valkvæðra aðgerða flokkist ekki undir veikindi eins og þau eru skilgreind í kjarasamningum. 
Starfsmenn sem eru frá vinnu vegna slíkra aðgerða geta því átt von á að þurfa að nota orlof sitt eða óska eftir launalausu fríi þann tíma sem þeir eru frá vinnu. 
Það er nokkuð misjafnt hvernig stofnanir/starfsstaðir koma til móts við starfsfólk í aðstæðum sem þessum en margar stofnanir/starfsstaðir hafa sett sér reglur varðandi þessi mál.

Áfengis- eða vímuefnameðferð

Það hvort starfsfólk fái greidd laun á meðan á áfengismeðferð stendur er samkomulagsatriði á milli starfsmanns og stofnunar/starfsstaðar. Oftast hafa stofnanir/starfsstaðir ákveðnar reglur sem þær setja sjálfar varðandi þessi mál. T.d. að starfsmaður hafi unnið fyrir stofnunina/starfsstaðinn í ákveðinn tíma og eins hvort stofnunin/starfsstaðurinn greiði meðferð einu sinni eða oftar eða jafnvel alls ekki. 
Rétturinn til launa vegna áfengis- og fíknisjúkdóma er ekki varinn í veikindakafla kjarasamninga. Það er vegna þess að skv. vinnurétti er ekki litið á þá sjúkdóma sem veikindi. Þar af leiðandi er það ekki skylda vinnuveitanda að greiða laun á meðan stm. er í áfengis- eða efnameðferð.

Upplýsingar um akstursgjald og ferðakostnað má finna á slóðinni www.fjarmalaraduneyti.is/verkefni/starfsmenn_rikisins/kjaramal/ferdakostnadur/

Almennt ber að auglýsa öll laus störf hjá hinu opinbera til umsóknar.
Auglýsingaskyldan er tilkomin til þess að veita borgurum jafnan rétt á að sækja um störf og eins til að stuðla að því að ríkið og sveitarfélög eigi sem bestan kost á sem hæfustum umsækjendum.

Undantekningar frá þessari reglu eru nokkrar:

  • Það má ráða starfsmann tímabundið í stöðu án auglýsingar.
  • Ekki er skylt að auglýsa störf sem eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
  • Ekki er skylt að auglýsa störf við afleysingar svo sem vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis, námsleyfis enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
  • Störf sem hafa verið auglýst laus innan síðustu sex mánaða og þess getið
    í auglýsingunni að umsóknin geti gilt í sex mánuði.

Í kafla um réttindi og skyldur í kjararasamningi við Reykjavíkurborg er talað um að ef borgaryfirvöld líta svo á að ráða skuli í stöðu með uppfærslu innan starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum skal staða auglýst á þeim vettvangi. 

Breyting á starfi
Samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og samkvæmt kjarasamningum við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélögum ber starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því hann tók við starfi.

Forstöðumenn og stjórnendur hafa daglegan stjórnunarrétt hvað varðar skipulag vinnu starfsmanna. Undir það fellur skipulagning á því hvaða verk skuli vinna, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Stjórnendur hafa því rétt til þess að flytja fólk til í starfi svo framarlega sem um er að ræða sambærilegt starf.
Ákvörðun um breytingar á störfum og verksviði starfsmanns skal tilkynna skriflega. Í bréfinu skal koma fram hvenær breytingarnar munu verða, í hverju þær felast og hvort þær muni hafa áhrif á launakjör og/eða önnur réttindi starfsmanns. Ef breytingarnar hafa ekki áhrif á launakjör, starfsstað eða starfshlutfall má telja 4 vikna fyrirvara hæfilegan.

Breyting á starfshlutfalli
Ekki er hægt að breyta starfshlutfalli einhliða af hendi stofnunar. Ef yfirmaður óskar eftir að breyta starfshlutfalli starfsmanns þarf alltaf að leita samþykkis hjá starfsmanninum fyrst. Dæmi um þetta er þegar starfsmaður er í 70% starfi og er beðinn um að breyta starfshlutfalli sínu í 100%.
Vinnuveitanda ber að segja starfshlutfalli upp með 3 mánaða fyrirvara. Ef vinnuveitandi breytir starfshlutfalli fyrirvaralaust og án samþykkis starfsmanns þá jafngildir það uppsögn ráðningarsamnings.

Uppsögn á vaktakerfi

Breytingu á föstum vöktum, sem hefur áhrif á launakjör starfsmanns, skal segja upp með jafnlöngum fyrirvara og réttur starfsmanns til uppsagnarfrests er. Almennt er það 3 mánaða fyrirvari.
Sama á við um aðrar breytingar á launakjörum sem hafa áhrif til lækkunar launa.

Uppsögn á fastri yfirvinnu

Ef vinnuveitandi hyggst segja upp fastri yfirvinnu þá þarf að gera það með formlegum hætti. Senda á starfsmanni bréf þar sem ástæðan fyrir breytingunni er tilgreind.
Segja þarf yfirvinnunni upp með sama fyrirvara og réttur starfsmanns til uppsagnarfrests er, oftast 3 mánuðir en uppsagnarfresturinn getur verið lengri hjá starfsmönnum 55 ára og eldri sem áunnið hafa sér lengdan uppsagnarfrest.

Uppsögn á aksturssamningi

Uppsagnarfrestur aksturssamninga er einn mánuður og miðast við mánaðarmót.

Yfirvinnubann

Stofnun hefur heimild til að setja á yfirvinnubann. Slíkt bann þarf þó að tilkynna með hæfilegum fyrirvara. Þannig að það taki ekki gildi fyrr en á næsta yfirvinnutímabili eftir tilkynninguna.
Ef þörf er á því að starfsmaður vinni yfirvinnu á stofnun þar sem yfirvinnubann ríkir, þarf starfsmaður að ganga úr skugga um áður en hann vinnur yfirvinnuna, að hann hafi heimild fyrir yfirvinnunni hjá yfirmanni og að hann fái yfirvinnuna greidda.

Biðlaun
Réttur til biðlauna myndast þegar starf er lagt niður og nær til starfsmanna sem hafa starfað óslitið í þjónustu ríkisins frá því fyrir 1. júlí 1996, þegar ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tóku gildi. Biðlaun eru til 12 mánaða skv. lögunum. 

Réttur til biðlauna í starfi hjá Reykjavíkurborgar nær til þeirra sem hafa starfað óslitið hjá Reykjavíkurborg frá því fyrir 1. maí 1978.  

Fjallað er um biðlaunarétt starfsmanna í þjónustu sveitarfélaga frá því fyrir 1. júlí 1996 í viðkomandi kjarasamningum.

Starfsmenn eiga að fá greidd föst laun í biðlaunum. Það eru:

  • Föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu.
  • Föst ómæld yfirvinna
  • Persónuuppbót og orlofsuppbót.

Desemberuppbót

Starfsmaður sem er í starfi fyrstu viku nóvembermánaðar fær greidda desemberuppbót miðað við fullt starf tímabilið frá 1. janúar til 31. október. Desemberuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins og skal hún greidd út eigi síðar en 15. desember ár hvert. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall, sjá nánar í viðkomandi kjarasamningi.
Tímavinnufólk á einnig rétt á desemberuppbót. Á desemberuppbót reiknast ekki orlofsfé. Tímavinnufólk þarf að hafa skilað 1504 dagvinnustundum á tímabilinu 1. janúar til 31. október til að fá 100% desemberuppbót. Tímavinnustarfsmaður sem vinnur færri klukkustundir á tímabilinu fær greitt hlutfallslega samkvæmt því.  

Upphæðir desemberuppbótar eru misháar eftir kjarasamningum. Best er að skoða kjarasamninginn undir Kaup og kjör/kjarasamningar.

 

Orlofsuppbót

Starfsmaður sem er í starfi allt orlofsárið, þ.e. 1. maí til 30. apríl, fær greidda orlofsuppbót 1. júní. Sé viðkomandi í hlutastarfi eða starfar hluta árs fær hann greidda orlofsuppbót í samræmi við starfshlutfall eða starfstíma.

Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu vegna aldurs eða eftir a.m.k. 3ja mánaða (13 vikna) samfellt starfs á orlofsárinu skal hann fá greidda orlofsuppbót hlutfallslega miðað við unninn tíma og starfshlutfall. Sama gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu vinnuveitanda lýkur eða vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum.

Upphæðir orlofsuppbótar eru misháar eftir kjarasamningum. Best er að skoða kjarasamninginn undir Kaup og kjör/kjarasamningar.

Foreldrar öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Starfshlutfall í hverjum mánuði þarf að vera a.m.k. 25%. Allar upplýsingar og umsóknareyðublað má finna á www.faedingarorlof.is.  Símanúmer Fæðingarorlofssjóðs er 582 4840.

 Munið að setja X-ið! 
Þegar sótt er um úr Fæðingarorlofssjóði þarf að fylla út umsókn hjá Vinnumálastofnun. Á umsóknareyðublaðinu eru reitir þar sem umsækjandi er beðinn um að setja x þar sem það á við, m.a. hvort viðkomandi óski eftir því að stéttarfélagsgjöld verði dregin frá greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Þeir sem merkja x við þann reit teljast félagsmenn í viðkomandi stéttarfélagi. Réttarstaða hinna sem ekki kjósa að krossa í þennan reit er hins vegar önnur. Þeir teljast ekki félagsmenn á meðan á fæðingarorlofi stendur og missa því rétt úr styrktar- og sjúkrasjóði, orlofssjóði og starfsmenntunarsjóði. Með öðrum orðum, til að halda sjóðsréttindum í fæðingarorlofi er nauðsynlegt að greiða stéttarfélagsgjald. Sé það greitt greiðir fjölskyldu- og styrktarsjóður (FOS) mótframlag til sjóða BSRB og sjóðfélagi heldur öllum sínum réttindum og heldur áfram að vinna sér inn réttindi meðan á fæðingarorlofi stendur. Engin lagaheimild er fyrir Vinnumálastofnun að draga stéttarfélagsgjöld óumbeðið af greiðslum í fæðingarorlofi. Því er óhjákvæmilegt að hafa spurningu á eyðublaðinu vegna fæðingarorlofsgreiðslu um hvort umsækjandi vilji vera áfram í sínu félagi og þar með greiða til þess félagsgjöld. Er því nauðsynlegt að minna félagsmenn á það að standa vörð um réttindi sín og félagsaðild og krossa í viðeigandi reit.

Lög um fæðingarorlof  Lögin taka til skilyrða fyrir greiðslum, lágmarkstíma, viðmiðunartímabils, hámarks, foreldris sem ekki er á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu, ef um andlát foreldris er að ræða og leiðréttinga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Ekki gleyma að sækja einnig um fæðingarstyrk til Sameykis. 

Fæðingarstyrkur er greiddur úr Styrktar-og sjúkrasjóði Sameykis. Þú getur sótt um  inn á "mínum síðum".

Í bréfi til ráðuneyta og ríkisstofnana þar sem fjallað er um laun og frítökurétt starfsmanna þegar óveður og/eða ófærð hamla vinnusókn kemur eftirfarandi fram:

„Almenna reglan er sú að starfsmaður sem ekki mætir til starfa af völdum ófærðar, er launalaus eða vinnur daginn/vaktina af sér síðar. Hafi almenn ófærð ríkt á viðkomandi svæði og þeir starfsmenn sem í hlut eiga, gert sitt ítrasta til að komast til vinnu eða komið strax og t.d. strætisvagnaleiðir opnuðust, vill ráðuneytið hér með beina því til stofnana að dagvinnulaun hlutaðeigandi starfsmanna verði ekki skert vegna slíkra fjarvista.“

Einnig er í bréfinu fjallað um það ef starfsmaður kemst ekki heim vegna óveðurs og eða ófærðar.

Sjá bréf ráðuneytisins frá 23. febrúar 2000.

Í kjarasamningi Sameykis við Reykjavíkurborg er kveðið á um þetta í gr. 9.5.5 
Falli niður vinna á verkstað vegna veðurs eða annarra orsaka sem starfsmenn eiga enga sök á, skal skylt að greiða kaup fyrir fastan reglulegan vinnutíma. 

Vernd mæðra og þungaðra kvenna 
Í 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um skyldur atvinnurekenda til að meta eða láta fara fram mat á áhættuþáttum varðandi vinnuaðstæður og skipulag vinnunnar með tilliti til öryggis og heilbrigðis þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti. 
Þessar skyldur og framkvæmd þeirra eru síðan útfærðar frekar í reglugerð nr. 931/2000 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. 

Tilkynningaskylda þungaðra kvenna 
Þær konur, sem eru starfsmenn og eru þungaðar, hafa alið barn eða hafa barn á brjósti verða að tilkynna atvinnurekandanum um þetta ásigkomulag sitt. Að öðrum kosti heyra þær ekki undir reglugerðina og er slík tilkynning því forsenda þess að þær geti notið þeirra réttinda sem reglugerðin veitir. 

Tímabundin breyting á vinnuskilyrðum o.fl.
 
Þegar störf geta haft í för með sér hættu vegna mengunar, vinnuaðferða eða vinnuskilyrða, á atvinnurekandinn að meta eðli hættunnar fyrir þær konur sem falla undir reglugerðina. Hann á því að gera - eða láta gera - áhættumat. Leiði matið í ljós að hætta geti verið á ferðum ber atvinnurekanda að grípa til ráðstafana til að útiloka hættuna. Hann á einnig að kynna niðurstöður áhættumats fyrir konunni strax og þær liggja fyrir. En til hvaða ráðstafana á atvinnurekandinn að grípa ef hætta er fyrir hendi? 
a) Fyrsta skref er að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konunnar. 
b) Ef það er ekki hægt á að fela konunni önnur verkefni. 
c) Ef það er heldur ekki hægt skal veita henni leyfi frá störfum. 

Ekki má skylda þungaða konu til að vinna að næturlagi á meðgöngutímanum og jafnframt í allt að sex mánuði eftir barnsburð - ef það er nauðsynlegt af öryggis- og heilbrigðisástæðum og konan hefur staðfest það með læknisvottorði. 

Konan, líkt og atvinnurekandi, getur leitað umsagnar Vinnueftirlitsins áður en ákvörðun er tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. 

Þær breytingar sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma, eða breytingar á verkefnum, skulu ekki hafa áhrif á launakjör starfsmanns til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Með öðrum orðum heldur starfsmaður fullum launum og starfstengdum réttindum þrátt fyrir breytingarnar. 

Leyfi frá störfum 

Verði hvorki komið við breytingum á vinnuskilyrðum eða tilflutningi í önnur verkefni skal atvinnurekandi veita konunni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Þunguð kona sem veitt er leyfi frá störfum af öryggis- eða heilsufarsástæðum öðlast rétt til greiðslu fæðingarorlofs úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt þeim reglum sem um það gilda án þess að það skerði rétt til fæðingarorlofs að öðru leyti. Mikilvægt er að hafa í huga að réttindi þungaðra kvenna samkvæmt framansögðu byggja á því að atvinnurekanda hafi sannanlega verið tilkynnt um þungunina. 

Réttur til mæðraskoðunar á launum 
Í kjarasamningum eru ákvæði er mæla fyrir um rétt barnshafandi kvenna til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma. Sjá samning BSRB og fjármálaráðherra um rétt þungaðra kvenna til mæðraskoðunar.

Greiðslur vegna leyfis frá störfum af öryggis- og heilbrigðisástæðum
 
Þunguð kona, sem þarf að fá leyfi frá störfum af öryggis- og heilbrigðisástæðum, á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eins og hún væri í fæðingarorlofi án þess að það skerði fæðingarorlofið eftir fæðingu. Skv. lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eru greidd mánaðarlega úr Fæðingarorlofssjóði 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. 

Breyting á vinnutíma, vinnuskilyrðum eða verkefnum hefur ekki áhrif á launakjör til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi, sbr. áðurnefnd lög.

Hvað er vinnuslys
Slys er skilgreint sem óvæntur, utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama. Vinnuslys er slys sem gerist í tenglum við vinnu starfsmanns. Í IV kafla laga um almannatryggingar nr.100/2007 er fjallað um vinnuslys.

Þar segir að maður sé í vinnu þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum, í sendiferðum í þágu vinnuveitanda eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildi um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Ef t.d. starfsmaður fer af vinnustað í hádeginu í einkaerindum og slasast þá telst það ekki vinnuslys.

Vinnuslys eru tilkynningarskyld

Öll vinnuslys og óhöpp á að tilkynna og skrá. Vinnuslys sem veldur veikindafjarvist sem nemur meira en degi til viðbótar við slysdag eða eru til þess fallin að valda alvarlegu heilsutjóni eru tilkynningarskyld til Vinnueftirlits ríkisins og Tryggingastofnunar.

Vinnuveitandi ber ábyrgð á því að senda inn tilkynninguna til Vinnueftirlitsins og Sjúkratrygginga Íslands þegar um vinnuslys er að ræða.
Hinum slasaða, eða öðrum sem vilja gera kröfu til bóta, ber að fylgjast með því að tilkynningaskyldu sé fullnægt. Leita má aðstoðar lögreglu ef atvinnurekandi vanrækir að tilkynna um slysið.
Ef tilkynningaskylda er vanrækt skal það ekki vera því til fyrirstöðu, að hinn slasaði geti gert kröfu til bóta. Krafan verður þó að berast innan árs frá slysinu.

Laun í fjarvistum vegna vinnuslyss, slysadagpeningar

Starfsmaður á rétt á launum til samræmis við veikindarétt kjarasamnings frá upphafi fjarvista þegar um vinnuslys eða slys á beinni/eðlilegri leið til og frá vinnu er að ræða.

Ef starfsmaður er óvinnufær vegna vinnu í minnst 10 daga, greiðir Tryggingastofnun ríkisins dagpeninga (slysadagpeninga) frá og með 8. degi eftir að slysið varð. Stofnun/vinnuveitandi á rétt þessum greiðslum fyrir þann tíma sem viðkomandi er á launum en eftir það renna þær til starfsmanns. Sjá nánar 33. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
Tilkynning um vinnuslysið þarf að hafa borist frá vinnuveitanda Tryggingastofnun til þess að dagpeningar (slysadagpeningar) verði greiddir.

Útlagður kostnaður vegna vinnuslyss
Starfsmanni ber að fá greidd þau útgjöld sem hann hefur orðið fyrir vegna vinnuslyss og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki.

Tilkynning um vinnuslysið þarf að hafa borist Sjúkratryggingum Íslands til þess að hún bæti þann hlut af kostnaði starfsmanns sem henni ber samkvæmt nefndu lagaákvæði. Fylla þarf út eyðublaðið með tilliti til þess hvernig stofnun kýs að haga uppgjöri á útgjöldum starfsmanns vegna vinnuslyss en það er hægt með tvennum hætti. Annars vegar þannig að Sjúkratryggingar greiði starfsmanni það sem þeim ber og stofnun greiði honum það sem á vantar við útlagðan kostnað. Hins vegar getur stofnun greitt starfsmanni allan útlagðan kostnað og fengið endurgreitt frá Sjúkratryggingum þeirra hluta.

Almenn slys við vinnu og á beinni leið til og frá vinnu
Slys við vinnu eða á beinni leið til og frá vinnu sem ekki má rekja til sakar atvinnurekanda skapa sama greiðslurétt í forföllum frá vinnu og önnur veikindi. Að auki geta bæst við dagvinnulaun í allt að 3 mánuði skv. gr. 12.2.1 í kjarasamningi SFR og ríkisins.
Vinnuveitandi greiðir flutning hins slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og greiðir eðlilegan sjúkrakostnað meðan hann nýtur launa, annan en þann sem Tryggingastofnun greiðir.

Skaðabótaskyld slys við vinnu

Vinnuslys sem rekja má til sakar vinnuveitanda eða annarra aðila sem hann ber ábyrgð á eru skaðabótaskyld. Það þýðir að allt fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón (miski) er greitt, hvort heldur það er tímabundið tjón (launatap í forföllum) eða varanlegt (örorka).

Vinnuveitandi ber allan sjúkra- og flutningskostnað, annan en þann sem Tryggingastofnun greiðir. Beri launamaður að hluta til ábyrgð á tjóni sínu getur það leitt til þess að sök verði skipt milli hans og vinnuveitanda. Nauðsynlegt er að halda saman öllum kvittunum vegna útlagðs kostanaðar og eignatjóns.

Flest slys valda tjóni á líkama og heilsu. Sumar afleiðingar eru lengi að koma fram og ungt fólk telur sig oft verða fyrir minna tjóni en síðar kemur í ljós.
Í flestum tilvikum er nauðsynlegt að njóta leiðsagnar stéttarfélaga, starfsmanna þeirra og lögfræðinga til þess að tryggja sönnun og að öllum réttindum samkvæmt viðeigandi kjarasamningum, tryggingum og lögum sé til haga haldið.

Ferli máls þegar um vinnuslys er að ræða

  • Það er mikilvægt að tryggja að atvinnurekandi sendi Vinnueftirlitinu og Sjúkratryggingum tilkynningu vegna vinnuslyssins. Eyðublöð vegna sjúkratrygginga má finna til hægri hér http://www.sjukra.is/slys/slysatryggingar/ Þá fer starfsmaður með sína reikninga vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við slysið til atvinnurekanda (starfsmannahalds) og atvinnurekandi endurgreiðir starfsmanni. Atvinnurekandinn sækir sjálfur til Sjúkratrygginga til að fá endurgreitt.
  • Því næst er beðið eftir að heilsufar starfsmanns sé orðið stöðugt og starfsmaður muni ekki ná meiri bata eftir slysið (stöðugleikapunkti). Staðfestingu þess þarf að fá hjá lækni. Rétt er að geta þess að biðin eftir þessum tímapunkti fer eftir um hvernig líkamstjón er að ræða t.d. fer örorkumat ekki fram fyrr en a.m.k. ár er liðið frá slysi vegna þess að þá fyrst er talið óhætt að meta hvort afleiðingar slyss séu varanlegar.
  • Þá er haft samband við lögmann. Lögmaðurinn þarf að fá afrit af tilkynningu til Vinnueftirlitsins og Sjúkratryggingum og atvikaskráningu ef hún er fyrir hendi. Eða hvað eina annað sem felur í sér staðfestingu atvinnurekanda á að vinnuslysið hafi átt sér stað. Lögmaður óskar sjálfur eftir áverkavottorði frá lækni (innheimtir það síðar frá ríkissjóði).
  • Lögmaður metur tjónið og setur fram kröfu í samræmi við það. Bætur eru mjög misjafnar og fer alfarið eftir afleiðingum slyssins og hvort þau séu varanleg eða tímabundin. Því er mikilvægt að bíða eftir þeim punkti þegar heilsufarið er orðið stöðugt og læknir vottar það. Minniháttar slys eins og glóðurauga tekur eðli málsins samkvæmt mesta lagi nokkra mánuði en alvarlegur heilsubrestur sem leiðir til örorku þá þarf að bíða í ár. Bætur fyrir tímabundin tjón geta numið allt frá 50 þúsund en varanlegt tjón getur hlaupið á milljón(um) – afar misjafnt eftir áhrifum og afleiðingum slyss.
  • Loks fer lögmaðurinn á fund ríkislögmanns og þeir ganga frá samningi um uppgjör. Ríkissjóður greiðir kostnaðinn vegna lögmannsaðstoðar.

Vinnuréttarvefurinn geymir upplýsingar um réttindi og skyldur starfsmanna á opinberum vinnumarkaði auk ýmissa annarra upplýsinga sem varða vinnumarkaðinn.

Vinnuréttarvefur BSRB