Endurgreiðslur að sumri
Ef hætt er við að leigja eign með minna en tveggja vikna fyrirvara að sumri fæst leigan ekki endurgreidd nema eignin leigist aftur og einungis það sem fæst fyrir hana þá. Þegar um endurgreiðslu er að ræða er alltaf endurgreitt með sama greiðslumáta og notaður var við bókun, þ.e. inn á kreditkort ef greitt var með kreditkorti, o.s.frv.
Endurgreiðslur á veturna
Ef hætt er við að leigja eign með minna en viku fyrirvara að vetri fæst leigan ekki endurgreidd nema eigin endurleigist. Hvað ófærð varðar þá ábyrgist Olofssjóður snjómokstur á föstudögum og sunnudögum á stóru orlofssvæðunum t.d. Munaðarnesi, Vaðnesi, Kjarnabyggð, Hálöndum, Úthlíð, Úlfljótsvatni, og Húsafelli en ekki aðra daga. Göngustígar á orlofssvæðum og að húsum eru ekki mokaðir. Leigugjald er ekki endurgreitt þótt félagsfólk geti ekki nýtt sér dvöl að fullu vegna veðurs eða ófærðar.
Úthlutun: Auglýst er eftir umsóknum um ákveðin tímabil (páskar-sumar). Þú sækir um og eftir ákveðinn tíma fer úthlutun fram og svar berst í tölvupósti.
Bókun: Þú ferð sjálf/ur inn á orlofsvefinn og kynnir þér hvað er laust, bókar og greiðir. Gildir fyrir dagleiguhús, lausar vikur á sumrin og vetrarleigu.
Orlofspunktar
- Félagsmenn í starfi ávinna sér 12 orlofspunkta á ári, þ.e. 1 punkt fyrir hvern unninn mánuð.
- Félagar í lífeyrisdeild ávinna sér ekki punkta eftir starfslok.
- Félagsmenn sem sóttu um úthlutun en fengu ekki hafa forgang til að leigja það sem laust er fram að lokum greiðslufrests.
- Orlofspunktar stýra því hverjir eru í forgangi á úthlutunartímum. (Flestir punktar = mestir möguleikar).
- Hægt er að skoða punktastöðu á Orlofsvefnum og á "Mínum síðum".
- Punktastaða er uppfærð árlega áður en páskaúthlutun fer fram.
- Allir virkir félagsmenn geta sótt um á úthlutunartímum þótt þeir eigi fáa eða enga punkta. Þá fer punktastaða viðkomandi í mínus.
- Í vetrarleiga eru ekki dregnir af punkta.
- Punktastaða félagsmanna ræður úthlutun. Því fleiri punktar, þeim mun meiri möguleikar. Vikuleigan „kostar“ 40 punkta. Ekki þarf þó að „eiga“ 40 punkta til að fá úthlutað heldur fer punktastaðan í mínus en jafnast svo út með tímanum. Aðeins er úthlutað einni viku til umsækjanda hverju sinni. Möguleikar á úthlutun aukast verulega ef valdir eru margir staðir og mismunandi tímabil. Það eykur hins vegar EKKI möguleikana að velja það sama í alla dálkana.
Leiga á veturna skerðir ekki rétt eða möguleika félagsmanna til úthlutunar á sumrin eða um páska en félagsmaður þarf að vera virkur þegar úthlutun fer fram.
Ef tveir félagsmenn eða fleiri sækja um sama stað og sömu dagsetningar fær sá félagsmaður úthlutun sem flesta punkta hefur. Kerfið virkar þannig að ef ekki er hægt að úthluta þeim stað sem settur var í fyrsta sæti þá er reynt að verða við því sem merkt var númer tvö o.s.frv.
Þess vegna er mikilvægt að á umsókninni séu valdir þeir staðir og tímasetningar sem henta örugglega. Þeir sem afþakka það sem þeir sóttu um detta við það út úr kerfinu. Ef eitthvað óvænt verður til þess að félagsmaður geti ekki nýtt sér úthlutun þarf hann að hafa samband við skrifstofu strax.
Þegar úthlutun er lokið og greiðslufrestur er liðinn verða þau hús sem eftir verða sett á orlofsvefinn, fyrst fyrir þá sem fengu nei í úthlutun, en síðan fyrstur kemur fyrstur fær. Þar geta félagsmenn bókað þau beint, án milligöngu skrifstofunnar.
Innanlands:
- Umsóknartími fyrir páskaleigu er auglýstur í janúar og úthlutað í febrúar.
- Umsóknartími fyrir sumarið er auglýstur í marsbyrjun og úthlutað í lok mars.
Spánn:
- Páskarnir eru auglýstir í desember og úthlutað í janúar.
- Sumarið er auglýst í janúar og úthlutað í febrúar.
Orlofspunktar, orlofshús og orlofsúthlutanir
- Félagsmenn halda punktaeign sinni þegar þeir færast yfir í lífeyrisdeild og geta þeir klárað að nýta punktana sína, en ekki er um frekari punktaávinnslu að ræða.
- Félagar í Lífeyrisdeild eru ekki með í úthlutun fyrir sumar- og páskaleigu en eftir að greiðslutímabili lýkur hafa þeir sama rétt og aðrir félagsmenn til að bóka orlofshús.
- Á veturna geta félagsmenn í Lífeyrisdeild leigt sér orlofshús virka daga í Vaðnesi, Úlfljótsvatni og Munaðarnesi á 2.650 kr. nóttina frá mánudegi til föstudags séu þau laus. Til þess að fá þennan afslátt þarf að hafa samband við skrifstofu félagsins s. 525 8330.
- Ef í ljós kemur að félagar í Lífeyrisdeild Sameykis framleigja orlofshús til þriðja aðila munu þeir fá áminningu eins og aðrir félagsmenn sem getur leitt til þess að þeir fái ekki að leigja orlofshús. Ætlast er til að félagsmaðurinn sé sjálfur með í för.
- Eftir að úthlutunum lýkur hafa félagsmenn í Lífeyrisdeild Sameykis sama rétt til leigu á lausum húsum og aðrir félagsmenn og á sömu kjörum.
- Úthlutanir/orlofsmöguleikar „kosta“ mismarga orlofspunkta.
- 5 punktar: Fyrir hvern sólarhring í íbúðum og húsum í dags- og helgarleigu yfir sumartímann.
- 10 punktar: Fyrir orlofsávísun.
- 40 punktar: Fyrir sumarhús og íbúðir í vikuleigu.
- Orlofshús sem standa út af eftir að úthlutun lýkur eða losna óvænt á úthlutunartímanum kosta líka punkta.
- Orlofshús sem bókuð eru utan úthlutunartíma kosta ekki punkta.
- Útilegukortið, gjafamiðar í flug, ferðaávísanir/hótelmiðar og Veiðikortið kosta ekki punkta.
Innan- og utanlands:
- Opnað verður fyrir tímabilið 23. ágúst til og með áramóta (2. janúar 2025), þann 15. maí kl. 9:00 og verður svo opnað fyrir tímabilið 2. janúar 2025 fram að byrjun sumars 2025 5. september kl. 9:00.
Sumarleiga; félagsmaður getur afpantað hús/íbúð gegn fullri endurgreiðslu allt að 2 vikum áður en leigutími hefst.
Vetrarleiga; félagsmaður getur afpantað hús/íbúð gegn fullri endurgreiðslu allt að 1 viku áður en leigutími hefst.
Spánn; Félagsmaður getur ekki fengið endurgreidda leigu hætti hann við, nema að tímabilið endurleigist.
Réttur lífeyrisdeildar
Félagsmenn í lífeyrisdeild greiða fullt verð fyrir helgarleigu og leigu á úthlutunartíma. Fyrir leigu á virkum dögum utan úthlutunartíma greiða þeir daggjald, sem er 2.650,- fyrir sólahringinn. (mánudagur til föstudagur) í Munaðarnesi og Vaðnesi.
Félagsmenn Sameykis geta sótt um sérstakar orlofsávísanir að andvirði 35.000 kr. á sama hátt og orlofshús á Orlofsvef meðan á umsóknarferli sumarúthlutunar stendur. Eftir að úthlutun er lokið er ekki hægt að fá orlofsávísun. Orlofsávísanirnar gilda fyrir orlofstilboð innanlands það sumar sem henni er úthlutað.
Félagsmaður sem fær úthlutað orlofsávísun framvísar kvittunum eftir að ferð að eigin vali er lokið og fær andvirði orlofsávísunar greitt inn á bankareikning sinn gegn framvísun gildra kvittana. Kvittanir verða að vera löglegar með stimpli viðkomandi söluaðila og innan tímabilsins frá lok maí til loka ágúst.
Kvittanir verða að vera með nafni og kennitölu félagsmanns til þess að fást greiddar.
Orlofsávísanir gilda fyrir:
- Gistingu utan orlofskerfis, þ.e. hótel, gistihús, tjaldstæði o.s.frv.
- Leigu fyrir hjólhýsi, fellihýsi eða tjaldvagna.
- Skoðunarferðir, t.d. hvalaskoðun, fuglaskoðun o.þ.h.
- Skipulagðar gönguferðir með viðurkenndum ferðaþjónustuaðilum eða félögum, utan þeirra ferða sem félagið býður upp á.
- Skipulagðar hópferðir, hestaferðir, siglingar, veiðileyfi o.s.frv.
Ekki er hægt að framvísa kvittunum fyrir matarútgjöldum, bensíni og/ eða almennum ferðakostnaði, svo sem fargjaldi í flugi, rútu eða með ferju, nema það sé hluti af skipulagðri hópferð.
Ekki er hægt að framvísa kvittunum fyrir þjónustu sem Sameyki eða önnur stéttarfélög bjóða sínum félögum.
Ferðaávísun er inneign, sem þú getur notað til að greiða fyrir gistingu hjá einhverjum af fjölmörgum samstarfsaðilum okkar. Þú ert ekki skuldbundinn til að nota ávísunina á tilteknu hóteli/gistiheimili, eftir að hún hefur verið keypt. Upphæðina getur þú notað hjá hvaða samstarfsaðila okkar sem er.
Hvers vegna ætti ég að kaupa ferðaávísun?
Vegna þess að hótelkeðjur og gistiheimili hafa boðið félagsmönnum stéttarfélaganna, í krafti fjölda þeirra, betri tilboð en hægt er að fá á almennum markaði.
Hvar sé ég hvaða tilboð eru í boði?
Á orlofsvefnum geturðu skráð þig inn, eins og þegar þú sækir um orlofshús, og valið „Ferðaávísun“. Þá ferð þú yfir á síðu þar sem allar upplýsingar koma fram. Hvert hótel eða gistiheimili getur verið með mörg tilboð, eftir gerð herbergis eða innifalinni þjónustu.
Þarf ég að binda mig við tiltekið hótel?
Nei, þú pantað þér gistingu hjá hvaða samstarfsaðila sem er, og notað ferðaávísunina sem greiðslu.
Hvernig get ég treyst því að það komi ekki fram betri tilboð eftir að ég hef keypt ferðaávísun?
Ef sá gististaður sem þú velur þér lækkar verð í millitíðinni, þá fullnýtir þú ekki ávísunina. Það er ein af lykilforsendum þessa samstarfs, að ávísunin gildi með öllum öðrum tilboðum hótelanna. Með þessu verður fylgst náið. Gott er að fylgjast með gildistíma þeirra tilboða sem þú hefur augastað á.
Hvar kaupi ég ferðaávísunina og hvernig nálgast ég hana?
Þú ferð inn á orlofsvef þíns stéttarfélags og smellir á „Ferðaávísun“. Þú velur upphæð ávísunarinnar og greiðir fyrir með greiðslukorti. Ávísunin verður á þínu svæði á orlofsvefnum. Þú þarft aðeins að gefa upp kennitöluna þína þegar þú mætir á staðinn. Þú þarft ekkert að hafa með þér.
Hvernig nota ég ferðaávísunina?
Þegar þú mætir á áfangastað gefur þú upp kennitölu þína. Þú þarft engu að framvísa öðru en persónuskilríkjum.
Get ég fengið ávísunina endurgreidda?
Já, þú getur fengið ferðaávísunina endurgreidda. Þú færð þá til baka sömu upphæð og þú lagðir út. Hafi punktar verið teknir af þér við kaup á ferðaávísun, þá fást þeir líka endurgreiddir.
Ég hef notað hluta ferðaávísunarinnar, get ég fengið restina til baka?
Já, þú getur alltaf fengið þann hluta endurgreiddan sem ekki hefur verið nýttur. Endurgreiðslan verður í réttu hlutfalli við útlagðan kostnað þinn.
Rennur ávísunin út?
Nei, hún rennur aldrei út og þú getur sótt um endurgreiðslu hvenær sem er, á þínu svæði á orlofsvefnum.
Ég hef ekki aðgang að tölvu eða snjallsíma eða er ekki með rafræn skilríki. Hvernig get ég keypt ferðaávísun?
Ekki hika við að hafa samband við skrifstofu félagsins ef þig vantar aðstoð. Við hjálpum þér með ánægju og reynum að leysa málin.