Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Fræðslusjóður

Stofnanir, svið og vinnustaðir Reykjavíkurborgar, Félagsbústaðir, Faxaflóahafnir og Strætó geta sótt um styrkir  til námskeiðahalds og annars kostnaðar við menntun fyrir sjóðsfélaga sem þar starfa.

Reglugerð Fræðslusjóðs Sameykis

1. gr. Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður Sameykis og er til hans stofnað á grundvelli kjarasamnings Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og Reykjavíkurborgar. Sjóðurinn starfar með því skipulagi sem segir í reglugerð þessari og starfsreglum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að efla sí- og starfsmenntun sjóðsfélaga til að auka hæfni þeirra og möguleika til starfsþróunar.
Sjóðstjórn er heimilt að veita fjárstyrki úr sjóðnum til eftirfarandi aðila, vegna verkefna er samræmast markmiðum sjóðsins:

  • Félagsmanna Sameykis sem aðild eiga að sjóðnum
  • Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu
  • Sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar

Sjóðstjórn setur sér starfsreglur um styrkúthlutanir og upphæðir styrkja.

3. gr. Stjórn og skoðunarmenn
Stjórn sjóðsins skal skipuð sex aðalmönnum og tveimur varamönnum til tveggja ára í senn. Formaður og varaformaður skuli skipaðir af stjórn. Auk þess skal skipa tvo skoðunarmenn, einn frá hvorum samningsaðila. Stjórn sjóðsins skal halda reglubundna fundi. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

4. gr. Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
a) Framlag úr borgarsjóði samkvæmt kjarasamningi aðila
b) Vaxtatekjur
c) Aðrar tekjur
Tekjum sjóðsins skal einungis varið í samræmi við markmið hans sbr. 2. gr.
Ávöxtun sjóðsins skal vera með ábyrgum hætti.

5. gr. Umsóknir
Umsóknir um styrk úr sjóðnum skulu sendar stjórn sjóðsins þar sem fram kemur lýsing á því námi eða verkefni sem styrkurinn skal renna til, áætlaður kostnaður, hvenær fyrirhugað er að stunda námið eða vinna verkefnið og aðrar þær upplýsingar er sjóðstjórn kann að telja nauðsynlegar.

6. gr. Reikningshald og innheimta
Skrifstofa Sameykis annast reikningshald sjóðsins, innheimtir tekjur hans og innir af hendi greiðslur úr honum, allt eftir tilvísun sjóðstjórnar.

7. gr. Reikningsár sjóðsins
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af til þess kjörnum skoðunarmönnum ásamt löggiltum endurskoðendum.

8. gr. Breytingar á reglugerð
Stjórn sjóðsins fjallar um breytingar á reglugerð þessari. Tillögur stjórnar um breytingar á reglugerðinni skulu hljóta staðfestingu Starfskjaranefndar Sameykis og Reykjavíkurborgar.

 

Úthlutunarreglur gilda frá og með 9. nóvember 2023

1. Markmið
Auka möguleika sviða, starfseininga, stofnana og vinnustaða til að þróa hæfni og þekkingu starfsmanna þannig að þeir geti á betri hátt uppfyllt þær kröfur sem starfsemin kallar á hverju sinni.

2. Hverjir geta sótt um
Samningsaðilar sem greiða iðgjald fyrir sjóðsfélaga sem eru Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir, Faxaflóahafnir og Strætó.

3. Hvað er styrkt
Verkefni sem tengjast því að þróa hæfni þeirra félagsmanna sem samningsaðilar greiða iðgjald fyrir í sjóðinn.
Fræðslusjóður styrkir eftirfarandi:
a. Gerð starfsþróunaráætlana
b. Verkefni sem byggja á starfsþróunaráætlun
c. Námskeið
d. Annað
Lögð er áhersla á að umsóknir berist áður en verkefni hefst og hvatt er til samráðs við sjóðsstjórn áður en lagt er í viðameiri verkefni. Umsókn um styrk verður að berast skrifstofu sjóðsins innan sex mánaða frá lokum náms/verkefnis.

Fræðsluferðir starfseininga:
Starfseiningar (deildir/svið) geta sótt um styrki vegna skipulagðra fræðsluferða sem tengjast fagsviði eða starfi þeirra. Á þetta við um fræðsluferðir innanlands, fagleg dagskrá skal vera að lágmarki 6 klukkustundir, sem og fræðsluferðir erlendis en í þeim skal lengd faglegrar dagskrár vera að lágmarki 8 klukkustundir og dreifast á a.m.k. tvo daga. Rökstyðja þarf staðarval náms.

Almenna viðmiðið er að starfseining getur fengið hópstyrk vegna fræðsluferðar/ráðstefnuferðar vegna tiltekins hóps á þriggja ára fresti. 

Umsókn um fræðsluferð hópa verður almennt að berast að lágmarki 3 mánuðum fyrir upphaf fræðslunnar. Hafa skal í huga leiðbeinandi reglur Reykjavíkurborgar og annarra vinnustaða um ferðaheimildir og fræðsluferðir. Mælt er með eftirfarandi skrefum sem eiga við Reykjavíkurborg en geta verið leiðbeinandi fyrir aðra aðila:

  1. Byrja að kanna allan kostnað vegna ferðarinnar.
  2. Senda inn umsókn til stéttarfélags.
  3. Bíða staðfestingar/niðurstöðu umsóknar frá stéttarfélagi.
  4. Sækja um ferðaheimild og skila henni til bókhaldsskrifstofu ásamt staðfestingu frá stéttarfélagi.
  5. Þegar heimild og staðfesting liggur fyrir er hægt að stofna til kostnaðar.

Gögn sem þurfa að fylgja þegar sótt er um vegna fræðsluferða:

  1. Bréf frá stjórnanda
    Þar þarf að koma fram:
    a. Hvert er markmið og tilgangur ferðar.
    b. Hvernig nýtist ferðin til frekari þróunar starfseiningarinnar.
    c. Rökstuðningur á staðarvali, af hverju verður þessi staður fyrir valinu.
    d. Hversu margir taka þátt í fræðsluferðinni og hversu margir af þeim eru í Sameyki.
    e. Nöfn og kennitölur félagsfólks Sameykis.
    f. Hvort og þá hvenær þessi starfseining hafi áður farið í fræðsluferð.
  2. Staðfesting sviðsstjóra / umboð
    Þegar sótt er um fyrir starfseiningu/hópa þarf að koma staðfesting frá sviðsstjóra/sviðsstjórum um að viðkomandi hópi sé heimilt að sækja fræðsluferð/ráðstefnu erlendis og að ferðin styðji við stefnu sviðsins. Ef annar en sviðsstjóri sendir inn umsókn fyrir hönd sviðsins/starfseiningar þá þarf að skila inn undirrituðu umboði frá viðkomandi sviðsstjóra.
  3. Bréf frá móttökuaðila
    Staðfesting á móttöku hópsins/starfseiningarinnar með upplýsingum um tíma og innihald fræðslu.
  4. Ítarleg dagskrá
    Þar þarf að koma fram:
    a. Hvaða staðir eru heimsóttir, heiti staðarins og nafn tengiliðs.
    b. Dagsetningar heimsókna og tímaáætlun í klukkustundum.
    c. Innihaldslýsing faglegrar fræðslu fyrir hvern dagskrárlið.

    Athugið! Eftirfarandi fellur ekki undir faglega fræðsludagskrá:
    Almennar heimsóknir / móttökur í sendiráð eru ekki hluti af faglegri dagskrá.
    Gönguferðir með leiðsögn um borgir falla öllu jafna ekki undir faglega dagskrá.

  5. Kostnaðaráætlun
    Stjórn Fræðslusjóðs Sameykis beinir því til starfseininga og vinnustaða að gæta hófs og skipuleggja fræðsluferðir með eins hagkvæmum hætti og hægt er. Skila þarf inn kostnaðaráætlun þar sem fram kemur kostnaður fyrir hvern þátttakanda og heildarkostnaður vegna þátttöku félagsfólks Sameykis.
    Veittur er styrkur vegna kostnaðar sem tengist:
    a. fræðslu, ráðstefnu, vinnustofu,
    b. flugi,
    c. gistingu,
       i. eingöngu þær gistinætur sem tengjast faglegri dagskrá og ferðadögum,
      ii. hámark er á greiðslu fyrir hverja nótt, horft er til ákvörðunar ferðakostnaðarnefndar ríkisins sem byggir á SDR gengi og skiptist í fjóra flokka, sjá nánar hér.
    d. lestir/rútur milli borga/landshluta vegna staðarvals fræðslu

    Athugið! Hvað er ekki styrkt í tengslum fræðsluferðir?
    Ferðir til og frá millilandaflugvöllum innanlands og erlendis, fæðiskostnaður/dagpeningar, ferðir innan borga og sveitarfélaga, leigubílar, bensín, launatap, bílaleigubílar.

4. Upphæð styrkja
Upphæðir styrkja eru háðar stöðu sjóðsins hverju sinni og mati stjórnar á þeim verkefnum sem sótt er um styrki fyrir.

5. Hvernig er sótt um
Sótt er um rafrænt hér  
Með hverri umsókn þarf að fylgja eftir því sem við á:
- sundurgreining kostnaðar,
- fjölda þátttakenda í verkefni/námskeiði og hversu margir þeirra eru í Sameyki,
- tilboð í verkefni,
- lýsing á innihaldi, markmiði og tilgangi fræðslunnar.
Umsókn um styrk verður að berast skrifstofu sjóðsins innan 6 mánaða frá lokum náms/verkefnis.


6. Hvernig eru umsóknir afgreiddar
Úthlutun úr sjóðnum fer fram a.m.k. ársfjórðungslega eða oftar samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar. Skila þarf inn reikningum fyrir kostnaði tengdum verkefninu. Ekki er þó unnt að skila inn reikningi sem er eldri en 12 mánaða.

Úthlutunarreglur samþykktar á fundi stjórnar Fræðslusjóðs Sameykis 8. nóvember 2023.

Stjórn Fræðslusjóðs:

Fulltrúar Sameykis: Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, Herdís Jóhannsdóttir, Kári Sigurðsson og Rut Ragnarsdóttir.

Fulltrúar Reykjavíkurborgar: Ásta Bjarnadóttir og Íris Jóhannsdóttir. Rakel Guðmundsdóttir er varamaður.

Hér að neðan er hægt að fylla út rafræna umsókn stofnana, sviða og vinnustaða í Fræðslusjóð.

Umsóknareyðublað.