Gilda frá 1. janúar 2021
1. Um starfsþróunarstyrki og rétt félagsmanna
1.1. Styrkir fyrir starfsþróun. Um er að ræða sérstaka starfsþróunarstyrki sem ætlaðir eru til að efla enn frekar starfsþróunarmöguleika félagsmanna og tengjast starfsþróunaráætlun stofnana eða starfsþróun umsækjenda.
1.2. Réttur til að sækja um styrk
1.2.1. Þegar atvinnurekandi hefur greitt iðgjald í sjóðina í 6 mánuði af síðustu 12 öðlast félagsmaður rétt til að sækja um starfsþróunarstyrk.
1.2.2. Félagsmaður þarf að vera í starfi bæði þegar hann sækir um styrk og notar hann.
1.2.3. Félagsmaður í atvinnuleit/fæðingarorlofi getur nýtt sér áunninn rétt ef hann velur að greiða stéttarfélagsgjöld í atvinnuleit/fæðingarorlofi.
1.2.4. Falli greiðslur í sjóðinn niður vegna veikinda, foreldraorlofs eða launalauss leyfis skal meðhöndla þann tíma eins og um greiðslur hafi verið að ræða svo framarlega sem ráðningarsamband sé virkt, skila þarf inn staðfestingu atvinnurekanda á því.
1.2.5. Lok aðildar. Réttindi falla niður 2 mánuðum eftir að síðasta greiðsla í sjóðinn berst.
2. Styrkhæfi verkefna
2.1. Eftirfarandi er styrkhæft:
2.1.1. Nám á háskólastigi og aðfararnám að háskólastigi.
2.1.2. Faglegt nám, námskeið og ráðstefnur sem tengjast starfsþróun eða starfsferilsþróun viðkomandi.
2.1.3. Tungumála-, upplýsingatækninám og námskeið sem tengjast starfsþróun.
2.2. Að öllu jöfnu er ekki veittur styrkur fyrir ýmiskonar verkefni sem tengjast sjálfshjálp eða sjálfsstyrkingu (t.d. núvitundarnámskeið, streitunámskeið, námskeið gegn kulnun o.fl.). Tómstundanámskeið eru ekki styrkhæf.
2.3. Viðmið fyrir styrkveitingu er að nám standist almennar gæðakröfur eða sé gæðavottað/viðurkennt.
2.4. Rökstyðja þarf staðarval náms ef það felur í sér ferðakostnað erlendis.
2.5. Hvað er styrkt?
Styrkir eru veittir vegna eftirtalinna kostnaðarþátta:
2.5.1. Skólagjald
2.5.2. Námskeiðsgjald
2.5.3. Ráðstefnugjald
2.5.4. Ferðakostnaður sem hlýst af 2.5.1. til 2.5.3. Félagsmaður skal leitast við að finna sem hægstæðust kjör á flugi og gistingu. Það sem fellur undir ferðakostnað er eftirfarandi:
2.5.4.1. Flugkostnaður
2.5.4.2. Gistikostnaður, eingöngu þær gistinætur sem falla til á meðan verkefni stendur (t.d. ráðstefna). Styrkur nær eingöngu til félagsmanns, ekki er greitt fyrir samferðarfólk t.d. maka eða börn.
2.5.4.3. Samgöngur til og frá millilandaflugvelli erlendis.
2.5.4.4. Ferðakostnaður innanlands, en fastur styrkur er veittur vegna hans með þessum viðmiðum:
- Ef vegalengd frá lögheimili að náms-/ráðstefnustað eða millilandaflugvelli er lengri en 100 km. eru greiddar 15.000 kr.
- Ef sama vegalengd er lengri en 250 km. eru greiddar 30.000 kr.
- Ef vegalend frá lögheimili að millilandaflugvelli er styttri en 100 km eru greiddar 7.000 kr.
- Ef um er að ræða ferðakostnað vegna fjarnáms innanlands er veittur fastur styrkur einu sinn á önn og félagsmaður þarf að skila inn staðfestingu á mætingu frá skóla/fræðsluaðila (t.d. mæting í staðlotu).
2.6. Hvað er ekki styrkt?
Uppihald (fæðiskostnaður), ferðir innan borga og sveitarfélaga, bensín, bílaleigubíll, launatap, námsgögn.
3. Styrkupphæð
3.1. Hámarksstyrkur til starfsþróunarvekefna er 370.000 kr. á 24 mánaða tímabili.
3.1.1. Félagsmaður sem greiðir 20.000 kr eða meira í félagsgjöld síðastliðna 12 mánuði á rétt á fullum styrk, 370.000 kr.
3.1.2. Félagsmaður sem greiðir 10.000-19.999 kr. í félagsgjöld síðastliðna 12 mánuði á rétt á hálfum styrk, 185.000 kr.
3.1.3. Félagsmaður sem greiðir minna en 10.000 kr. í félagsgjöld síðastliðna 12 mánuði á ekki rétt á styrk.
3.2. Hámarksstyrkur fyrir námsgjöld á háskólastigi sem ekki tengist starfsþróun í núverandi starfi getur ekki orðið hærri en helmingur af hámarksstyrk samkvæmt gr. 3.1. Þannig verður styrkurinn 185.000 kr á 24 mánaða tímabili miðað við rétt samkvæmt gr. 3.1.1 og 92.500 kr. miðað við rétt samkvæmt gr. 3.1.2. Skila þarf inn staðfestingu atvinnurekanda á því að háskólanám tengist þróun í starfi ef óska á eftir hærri styrk á 24 mánaða tímabili.
4. Umsóknir og greiðsla styrks
4.1. Umsóknir og fylgiskjöl
Skila þarf inn rafrænni umsókn á Mínum síðum Sameykis á www.sameyki.is. Reikninga, greiðslukvittanir og önnur fylgigöng skal hengja á rafrænu umsóknina eða senda á starfsmenntun@sameyki.is. Einnig er hægt að skila þeim á skrifstofu Sameykis, Grettisgötu 89, 105 Reykjavík. Skila skal inn staðfestingu yfirmanns á tengingu við starfsþróunaráætlun sé hún til staðar.
4.2. Staðfesting yfirmanns vegna ráðstefnu erlendis
Þegar um ráðstefnur erlendis er að ræða þarf að koma bréf frá vinnustað umsækjanda, þar sem upplýst er um tilgang og markmið ferðarinnar og hvernig hún tengist starfsþróun viðkomandi. Greinargerð þessi skal vera árituð af yfirmanni.
4.3. Útborgun styrks
Greiðsla er innt af hendi gegn framvísun reiknings og greiðslukvittunar sem sýnir að reikningur er sannanlega greiddur af umsækjanda sjálfum. Almennt er ekki gerð krafa um frumrit, en stjórn sjóðsins áskilur sér þó rétt til þess ef þörf er talin á. Ef annar aðili, t.d. fyrirtæki, stofnun eða samstarfsfélagi, leggur út fyrir kostnaði þá þarf viðkomandi styrkumsækjandi að sýna fram á að hann hafi endurgreitt þeim aðila sinn hluta kostnaðar.
Starfsþróunarstyrkir eru greiddir eins fljótt og aðstæður leyfa hverju sinni. Alla jafna er greitt út í lok hverrar viku. Forsenda greiðslu er að fulltrúi eða stjórn Starfsmenntunarsjóðs Sameykis hafi samþykkt umsókn og að nauðsynleg fylgigögn hafi borist í tíma. Stjórn Starfsmenntunarsjóðs Sameykis sker úr um vafaatriði og getur lækkað styrki taki aðrir þátt í kostnaði.
Greiðslutilkynning er hengd við umsókn þegar styrkur er greiddur út og hægt er að nálgast hana inni á mínum síðum, þar sem einnig má fylgjast með afgreiðslu umsóknar.
4.4. Frágangur umsókna og afgreiðsla
Félagsmaður skal vanda frágang umsóknar og tilgreina hvað hann ætlar að læra, hvert markmiðið sé með náminu og hvernig námið nýtist í starfi. Vel útfyllt umsókn er forsenda fyrir afgreiðslu styrkja. Þegar leggja þarf umsókn fyrir fund stjórnar sjóðsins er niðurstaða tilkynnt með tölvupósti þar sem fram kemur hvaða gögnum þarf að framvísa til að fá styrkinn greiddan. Ef öll gögn hafa borist bíður umsókn næsta greiðsludags.
5. Tíðni styrkveitinga, fyrning og fleira
5.1. Tíðni styrkveitinga.
Félagsmaður með full réttindi (sjá gr. 1.2 og 3) getur fengið allt að 370.000 kr. í styrk á 24 mánaða tímabili. Þannig getur félagsmaður sótt um fleiri en einn styrk á tímabilinu, þar til hámarksupphæð er náð.
5.2. Sótt um aftur í tímann.
Umsókn um styrk verður að berast innan árs frá lokum náms/verkefnis. Ekki er þó unnt að skila inn reikningi sem er eldri en 12 mánaða.
5.3. Fyrning styrkveitingar.
Ef umsækjandi hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum innan 12 mánaða frá því umsókn var send inn fyrnist réttur til greiðslu.
5.4. Tvígreiðsla eða ofgreiðsla.
Ef mistök verða í afgreiðslu styrkumsóknar eða við greiðslu styrks munu starfsmenn Sameykis leitast við að leiðrétta þau eins fljótt og hægt er. Félagsmaður skal tilkynna skrifstofu Sameykis ef um ofgreiðslu er að ræða og endurgreiða ofgreidda upphæð þegar í stað.
5.5. Réttur til að hætta við umsókn.
Ef umsækjandi nýtir ekki vilyrði fyrir styrk eða dregur umsókn sína til baka áður en styrkur er greiddur þá hefur umsóknin engin áhrif á réttindi umsækjanda hjá sjóðnum.
5.6. Upplýsingar til skattyfirvalda.
Veittir styrkir vegna fræðslu eru forskráðir á skattskýrslu. Félagsmaður skal varðveita frumrit reiknings vegna þess kostnaðar sem styrkur hefur fengist fyrir til að afhenda skattyfirvöldum sé þess óskað. Heimilt er að skrá kostnað á móti þegar framtali er skilað samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.
6. Forgangur
Ef sjóðsþurrð verður eða sjóðurinn stendur illa að mati sjóðsstjórnar miðað við tekjur og væntanlegar skuldbindingar skulu þeir njóta forgangs sem aldrei hafa hlotið styrk hjá sjóðnum. Ef ennþá er þörf á forgangsröðun er sjóðsstjórn heimilt að gefa starfstengdum verkefnum forgang umfram önnur.
7. Málskotsréttur
Félagsmaður á ávallt rétt á að vísa erindi sínu á ný til stjórnar starfsmenntunarsjóðs ef hann er ósáttur við afgreiðslu á umsókn sinni. Stjórnin skal þá fjalla um umsóknina aftur á næsta fundi.
8. Gildistökuákvæði
Reglur þessar eru samþykktar af stjórn starfsmenntunarsjóðs 10. desember 2020 og taka gildi 1. janúar 2021. Við gildistökuna falla úr gildi eldri starfsreglur og aðrar ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við reglur þessar. Reglurnar geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni, út frá fjárhagsstöðu sjóðsins.