Gilda frá apríl 2025
1. gr. Inngangur.
Félagsfólk þarf að greiða félagsgjöld í 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum og þar af 3 mánuði samfellt fyrir umsóknardag til að öðlast rétt á styrkjum. Umsóknir miðast við þá dagsetningu sem umsókn er afgreidd.
2. gr. Sjúkradagpeningar og greiðslufyrirkomulag þeirra.
Rétt til dagpeninga eða styrks úr sjóðnum eiga þeir sem eru fullgildir félagsmenn í Sameyki og njóta veikindaréttar skv. kjarasamningi Sameykis. Einnig þeir sjóðfélagar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum og er réttur þeirra skv. gr. 3 í reglum þessum. Dagpeningar eru einungis greiddir tímabundið til þeirra sem verða launalausir vegna veikinda, eru með áframhaldandi ráðningu og eiga ekki rétt á öðrum greiðslum en sjúkradagpeningum Styrktar- og sjúkrasjóðs Sameykis og dagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands.
Sá sem hefur öðlast rétt til greiðslu sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði aðildarfélags innan ASí eða BSRB öðlast þann rétt að nýju innan hinna samtakanna samkvæmt þeim reglum sem þar gilda eftir einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrra félagi. Þegar sótt er um í nýju aðildarfélagi skal umsækjandi leggja fram yfirlit um greiðslur sem hann hefur þegið úr fyrri sjúkrasjóði sl. tólf mánuði.
Réttur til sjúkradagpeninga fer eftir úthlutunarreglum hins nýja félags og verður aldrei meiri en það hámark sem úthlutunarreglur viðkomandi sjóðs segja. Ekki er um greiðslur á milli sjóðanna að ræða heldur eingöngu flutning réttinda.
Ekki er hægt að sækja um sjúkradagpeninga lengra en þrjá mánuði aftur í tímann.
Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:
a) Réttur sjóðfélaga til dagpeninga á hverjum 12 mánuðum er:
- Starfstími síðastliðna 6-12 mánuði, 45 dagar
- Starfstími síðastliðna 12 mánuði, 90 dagar
Sjóðfélagi sem hefur áunnið sér 360 daga veikindarétt skv. kjarasamningi á möguleika á sjúkradagpeningum í 45 daga ef hann á ekki rétt annars staðar. Réttur sjóðfélaga til dagpeninga þar sem veikindaréttur tekur mið af almenna vinnumarkaðinum sjá grein 3.
Dagpeningar greiðast ekki lengur en ráðning starfsmanns er ætlað að standa.
b) Dagpeningar greiðast frá þeim tíma sem samningsbundinni launagreiðslu frá atvinnurekanda lýkur og veikindin hafa staðið í minnst 10 daga.
c) Upphæð dagpeninga skal vera 80% af meðal heildarlaunum síðustu 12 mánuði. Sé starfstími skemmri skal miðað við meðaltal launa þann tíma. Sé um að ræða upp-gjörsgreiðslu á tímabilinu s.s á orlofi vegna uppsagnar eða starfsloka sem gerðar eru upp í einu lagi, þá er litið svo á að um sé að ræða framtíðargreiðslur fyrir næstu mánuði og hafa þær því ekki áhrif á útreikning upphæðar sjúkradagpeninga.
d) Allir mánuðir ársins eru reiknaðir sem 30 dagar.
e) Heimilt er að greiða hlutfallslega dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna veikinda unnið fulla vinnu samkvæmt læknisráði.
f) Heimilt er að greiða dagpeninga í allt að 60 daga vegna langvarandi veikinda maka eða barna sjóðfélaga enda missi hann launatekjur vegna þeirra. Sjóðfélagi skal þó hafa náð eins árs félagsaðild til að njóta þessarar heimildar.
g) Vegna veikinda barns skal miða við að aðrar greiðslur vegna veikinda barna séu fullnýttar hjá atvinnurekanda eða Fæðingarorlofssjóði eða að umsókn um frekari greiðslur hafi verið hafnað. Jafnframt skal skila inn niðurstöðu umsóknar um umönnunarbætur.
h) Vegna veikinda móður á meðgöngu. Greitt er út sjöunda mánuð meðgöngu þó ekki lengur en skv. fyrrgreindum reglum. Félagi getur sótt um allt að tveggja mánaða lengingu fæðingarorlofs hjá Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu án þess að skerða rétt sinn til fæðingarorlofs eftir fæðingu skv. ákvæðum laga nr.95/2000.
i) Ekki eru greiddir dagpeningar vegna áfengis- eða vímuefnameðferðar.
j) Ef sjóðfélagi á rétt á örorku- eða ellilífeyri skulu þær greiðslur dragast frá sjúkradagpeningunum. Dagpeningar eru einungis greiddir tímabundið til þeirra sem verða launalausir vegna veikinda, eru með áframhaldandi ráðningu og eiga ekki rétt á öðrum greiðslum en sjúkradagpeningum Styrktar- og sjúkrasjóðs Sameykis og dagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands. Ekki er greitt þegar/ef sjóðfélagi öðlast rétt til greiðslna frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóði svo sem örorkubætur- endurhæfingalífeyrir /ellilífeyri / eftirlaun. Þá er ekki greitt vegna bótaskyldra slysa s.s. umferðaslysa sem teljast lögboðnar greiðslur og ber því tryggingafélagi að greiða þolanda tímabundið atvinnutjón.
3. gr. Félagsmenn á almenna markaðinum
Félagsmenn í A-hluta félagsins (félagar á almenna markaðinum), sem greidd eru 1% fyrir í sjóðinn, skulu njóta hliðstæðra réttinda í slysa- og veikindatilfellum og almennt gerist hjá sjúkrasjóðum á almenna markaðinum að hámarki 6 mánuði.
- Starfstími síðastliðna 6-12 mánuði, 90 dagar
- Starfstími síðastliðna 12 mánuði, 180 dagar
Varðandi dagpeninga til atvinnulausra
Missi atvinnulausir bætur vegna veikinda getur Styrktar- og sjúkrasjóður Sameykis styrkt þá sem svarar 100% af grunnatvinnuleysisbótum í allt að 45 daga.
Atvinnulausir ávinna sér ekki rétt á meðan á atvinnuleysi stendur, en viðhalda þeim rétti sem þeir höfðu áunnið sér þegar þeir voru í starfi. Til að öðlast þennan rétt þarf að vera óslitinn félagsaðild frá því að ráðningarsambandi lauk og greiðslur frá Vinnumálastofnun berast. Ekki eru greiddir dagpeningar eða styrkir ef rof er á þessu tímabili.
ATHUGIÐ!
Með umsókn um dagpeninga skal fylgja eftirfarandi:
- Nýlegt læknisvottorð sem staðfestir óvinnufærni á því tímabili sem sótt er um sjúkradagpeninga. Ef læknisvottorð er óvíst þarf að skila inn endurnýjuðu vottorði í hverjum mánuði sem réttur er til dagpeninga.
- Vottorð frá launagreiðanda um hvenær rétti til launa í veikindum lauk, hvaða dagsetningu og hversu langur rétturinn var.
- Staðfesting á nýtingu skattkorts. Eyðublað sem er inni á mínum síðum Sameykis þar sem sótt er um dagpeninga.
- Þrír síðustu launaseðlar.
Umsóknir og meðfylgjandi gögn vegna dagpeninga þurfa að berast Sameyki fyrir 20. hvers mánaðar.
Fyrirvari: Stjórn sjóðsins áskilur sér allan rétt til að breyta reglunum ef þörf krefur, hvort sem er til þrengingar eða útvíkkunar. Fjármagn í sjóðnum verður látið ráða því á hverjum tíma.
Hvernig er sótt um styrk?
Sótt er um rafrænt hér inn á Mínum síðum Sameykis, og þar er hægt að senda viðhengi með í umsóknarferlinu. Umsækjendur eru hvattir til að vanda frágang umsókna.