Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. mars 2021

Ályktanir aðalfundar Sameykis

Á aðalfundi Sameykis sem haldinn var síðdegis í gær voru samþykktar eftirfarandi ályktanir; um tekjufall í COVID-19 faraldrinum, um auðlindir þjóðarinnar, um spillingu hér á landi, um virði starfa kvenna, um styttingu vinnuvikunnar og um réttlát orkuskipti og mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin verði boðin þátttaka í mótun stefnunnar.

Ályktanir samþykktar á aðalfundi Sameykis

1. COVID-19 og almannahagsmunir

Tekjufall í kjölfar COVID-19
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að stjórnvöld beiti viðeigandi úrræðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem misst hafa atvinnu og lífsviðurværi sitt, eða lent í öðrum erfiðleikum í kjölfar COVID-19 faraldursins. Ríkisstjórnin hefur þegar veitt fyrirtækjum fjölbreyttan fjárhagslegan stuðning. Hækka þarf atvinnuleysisbætur og tryggja að heimilin í landinu búi við öryggi og eigi ekki á hættu að missa húsnæði sitt sem afleiðingu af COVID-19 faraldrinum. Sameyki skorar einnig á stjórnvöld að tryggja framboð af störfum sem henta konum til jafns við karla. Við blasir að ástandið á Suðurnesjum kallar á sérstakar aðgerðir. Það er einfaldlega óásættanlegt að hátt í 30% kvenna og 25% karla séu atvinnulaus á einu byggðasvæði vegna aðstæðna. Þetta ástand kallar á að stjórnvöld hugi að skapandi og framsæknum verkefnum sem sérstaklega er beint að þeim landssvæðum sem verst hafa orðið úti.

2. Auðlindir eru í þjóðareigu

Auðlindir í þjóðareign
Tryggja þarf að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar verði áfram í þjóðareign og eðlileg gjöld séu greidd af nýtingu hennar. Sama gildir um aðrar náttúruauðlindir landsins. Skila á inn nýtingarrétti þegar einstaklingar og fyrirtæki hætta störfum í sjávarútvegi. Ekki er ásættanlegt að einstaklingar eða fyrirtæki eignist sjálfkrafa rétt á nýtingu sjávarútvegsauðlindar Íslands um ófyrirséða framtíð og geti veðsett hana. Íslenska þjóðin fær aðeins lítið brot í sinn hlut af þeim milljarðahagnaði sem örfáar fjölskyldur í landinu njóta á ári hverju af fiskveiðiauðlindinni. Öllum er þessi misskipting augljós. Allt íslenskt samfélag á að njóta góðs af nýtingu auðlinda Íslands, hvort sem er á sjó eða landi. Um auðlindir þurfa að gilda skýrari og sanngjarnari lög frá Alþingi og að þau verði tryggð í stjórnarskrá.

3. Spilling á Íslandi

Ályktun um spillingu
Sameyki skorar á ríkisstjórn Íslands að styrkja eftirlitsstofnanir í landinu svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og komið í veg fyrir og upprætt spillingu. Það þarf að bera kennsl á spillinguna, viðurkenna tilvist hennar og uppræta. Misbeiting valds í þágu einkahagsmuna á ekki að líðast í neinu siðuðu samfélagi. Spilling grefur undan lýðræði, mannréttindum og skerðir réttindi og hagsmuni almennings. Spilling eykur ójöfnuð og viðheldur fátækt, leiðir til sóunar auðlinda og óréttlátrar skiptingar þeirra. Uppræta þarf spillingu á Íslandi svo hægt sé að bæta lífskjör almennings og skapa betra og réttlátara samfélag. Einnig að stjórnvöld styðji við og styrki frjáls félagasamtök og opinberar eftirlitsstofnanir með sama markmið, að berjast gegn hverskonar spillingu. Ísland er spilltasta land Norðurlandanna samkvæmt nýjum lista Transparency International fyrir árið 2020. Spillingin á Íslandi þrífst helst í kringum auðlindir þjóðarinnar og stjórnmálin í landinu. GRECO hefur ítrekað bent á spillingu sem þrífst í íslensku samfélagi en stjórnvöld skella skollaeyrum við.

4. Virði starfa – Kynjahalli

Ályktun um virði starfa kvenna
Aðalfundur Sameykis krefst þess að stjórnvöld og atvinnurekendur horfist í augu við skakkt verðmætamat samfélagsins á kvennastörfum og grípi til aðgerða til að útrýma misréttinu sem af því hlýst. COVID- 19 faraldurinn hefur dregið fram í sviðsljósið hvaða fólk er sannkallað lykilstarfsfólk samfélagsins. Það er fólkið sem starfar í heilbrigðis- og félagsþjónustu, skólum, við ræstingar og almenningssamgöngur. Meirihluti þeirra sem sinnir þessum mikilvægu störfum er konur og heildarlaun þeirra eru lægri en laun sambærilegra stétta þar sem karlar eru í meirihluta. Það er augljóst öllum sem það vilja sjá að kvennastéttirnar búa við verri kjör en aðrar stéttir með sambærilegt álag, menntun og reynslu og það er óásættanlegt með öllu.

Þetta óréttlæti veldur því að stór hluti kvenna á vinnumarkaði nýtur ekki launa í samræmi við framlag. Eins og staðan er nú er hvorki stefnumótun né verkfæri fyrir hendi sem miðar að því að vinna bug á þessum kynbundna launamun. Sagan sýnir að aukið jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér heldur þarf framsæknar hugmyndir og aðgerðir til. Störf og framlag kvennastétta í samfélaginu skal meta að verðleikum til jafns við aðra, óháð kyni þegar í stað. Það er ólíðandi að þessum ójöfnuði sé viðhaldið á íslenskum vinnumarkaði.

5. Kjaramálin – Stytting vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar

Sameyki metur að stytting vinnuviku dagvinnufólks úr 40 í 36 klukkustundir sem tók gildi 1. janúar 2021 hafi gengið vel hjá ríkinu og Reykjavíkurborg. Dapurlegt er að sveitarfélögin hafi ekki staðist væntingar þar sem bæði er vinnunni víða ólokið og að full stytting í 36 stundir er í miklum minnihluta. Mikil og flókin vinna hefur átt sér stað við að útfæra styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Sú vinna lofar góðu en brýnt er, að stjórnendur taki ekki ráðin af starfsmönnum sínum, heldur nýti umbótasamtalið til að koma á því vaktafyrirkomulagi sem best hentar í hverju tilfelli með vinnustaðalýðræði að vopni. Markmiðið er að bæta lífsgæði starfsfólks; heilsu, öryggi og auka möguleika þess á að njóta meiri frítíma.

6. Umhverfismál – Réttlát orkuskipti

Réttlát orkuskipti
Aðalfundur Sameykis styður markmið stjórnvalda í loftlagsmálum og tekur undir nauðsyn þess að ná kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina. Það er ljóst að þær breytingar sem þarf að gera munu hafa áhrif á störf. Sameyki fer fram á að stjórnvöld verði við þeirri kröfu verkalýðshreyfingarinnar að stofnaður verði sérstakur vinnuhópur sem hefði það hlutverk að móta stefnu um réttlát orkuskipti hér á landi í þríhliða samstarfi stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ef öruggur árangur á að nást þarf þátttaka stéttarfélaga í stefnumótuninni að vera tryggð sökum þess hve mikilvæg þekking hennar og umhyggja fyrir hagsmunum launafólks í landinu er.