28. október 2022
Mótmæla harðlega áætlun sveitarfélaganna að einkavæða Strætó bs.
Fulltrúaráð Sameykis á fundi í þar sem ráðið mótmælti harðlega einkavæðinaráformum sveitarféalganna á Strætó bs.
Fulltrúaráð Sameykis samþykkti á fundi sínum í gær ályktun og mótmælti harðlega áætlun sveitarfélaganna að einkavæða Strætó bs.
Fulltrúaráð Sameykis mótmælir harðlega áætlun sveitarfélaganna að einkavæða Strætó bs.
Strætó bs. hefur í hyggju að útvista öllum leiðum í leiðakerfi strætisvagna félagsins til einkaaðila. Magnús Örn Guðmundsson, formaður stjórnar Strætó, segir að við blasi að bjóða út reksturinn. Undir það tekur stjórnin öll og framkvæmdastjóri Strætó bs.
Í stjórn Strætó bs. sitja: Magnús Már Guðmundsson, formaður stjórnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Seltjarnarnesi, Alexandra Briem, varaformaður stjórnar fyrir Pírata í Reykjavík. Stjórnarmenn eru: Andri Steinn Hilmarsson, Sjálfstæðisflokki í Kópavogi, Kristín Thoroddsen, Sjálfstæðisflokki í Hafnarfirði, Hrannar Bragi Eyjólfsson, Sjálfstæðisflokki í Garðabæ og Lovísa Jónsdóttir, Viðreisn í Mosfellsbæ.
Það er augljóst að með einkavæðingu aksturshluta Strætó bs. verður þjónusta við notendur dýrari, eins og dæmin sanna. Ef af þessum áformum verður mun að öllum líkindum öllum vagnstjórum félagsins og starfsmönnum í stoðþjónustu við vagnana verða sagt upp störfum og dýrmæt reynsla og þekking glatast.
Fulltrúaráð Sameykis gagnrýnir harðlega stjórn sveitarfélaganna sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ fyrir að veita ekki nægilegu fé til rekstrarins og standa ekki í fæturna gagnvart ríkinu, sem ekki stóð við að veita fé til rekstrarins í COVID-19 faraldrinum. Þá gagnrýnir Fulltrúaráð Sameykis hvernig haldið hefur verið um rekstur félagsins af hendi sveitarfélaganna og stjórnenda.
Strætó er byggðasamlag um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem starfar á grundvelli stofnsamnings frá 7. maí 2001 og þar segir í gr. 5.8. að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á stjórn fyrirtækisins. Fulltrúaráð gerir sér grein fyrir að stjórnin skýlir sér bak við hann með sínar áætlanir um að bjóða út reksturinn, en fulltrúar sveitarfélaganna í fyrirtækinu bera ábyrgðina í þessari feigðarför Strætó bs.
Fulltrúaráð Sameykis óttast að einkavæðing Strætó bs. muni koma illa niður á starfsfólki, almennu launafólki, efnalitlu fólki og námsfólki. Fulltrúaráðið krefst þess að öllum áformum um einkavæðingu Strætó bs. verði tafarlaust hætt og gangsett verði áætlun samfélagslegrar velferðar sem styrki Strætó bs. til framtíðar.