Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. mars 2024

Ályktanir aðalfundar Sameykis

Frá aðalfundi Sameykis.

Á aðalfundi Sameykis sem haldinn var 21. mars sl. voru samþykktar eftirfarandi ályktanir; um jöfnun launa milli markaða, um stöðu barnafólks á vinnumarkaði, um að efla þarf heilbrigðiskerfið, um tilfærslukerfin, um auðlindir í þjóðareign, um húsnæðis- og vaxtamál, um stöðu fólks með fötlun og um stöðu eftirlaunakerfisins.

1. Jöfnun launa milli markaða
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að staðið verði að fullu og öllu við jöfnun launa milli markaða og að marktæk skref í framkvæmdinni verði stigin án tafar. Jöfnun launa milli markaða er jafnréttis- og mannréttindamál og opinberir launagreiðendur mega ekki undir neinum kringumstæðum komast undan því að standa við gerða samninga.

Árið 2016 tókst samkomulag milli ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga annars vegar og allra opinberra starfsmanna hins vegar um að jafna kjör, bæði hvað varðar launasetningu á starfsævinni og einnig varðandi lífeyrisgreiðslur. Fyrir hönd ríkisins undirrituðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra samkomulagið.

Samkomulagið gengur út á að jafna lífeyrisréttindin þannig að réttur launafólks sé sambærilegur, bæði hjá starfsfólki sem unnið hefur hjá hinu opinbera og á almenna markaðnum. Leiðréttingu á lífeyrisréttindum starfsfólks á almennum markaði átti að framkvæma á þremur árum og gekk það eftir. Leiðréttingu til opinberra starfsmanna sem fólst í jöfnun launa á milli markaða átti að framkvæma á 6–10 árum. Launabilið var metið að meðaltali um 16,7 prósent, opinberu starfsfólki í óhag. Í tímasettri áætlun átti fyrsta skrefið í leiðréttingunni að koma til framkvæmdar þann 1. janúar 2021. Eitt hænuskref hefur verið tekið í þessu verkefni með áfangasamkomulagi um 1% framlag til leiðréttingar!

2. Staða barnafólks á vinnumarkaði
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu lýsir þungum áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda um stöðu barnafólks á vinnumarkaði. Stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða og bæta stöðu þessa hóps.

Stjórnvöld hafa litið fram hjá stöðu einhleypra mæðra og feðra sem hafa það verst á vinnumarkaðnum. Barnafólk býr almennt við þyngri byrði húsnæðiskostnaðar en barnlaus, hátt hlutfall foreldra hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín og eru líklegri til að vera með yfirdráttarlán en aðrir. Tæplega fjórðungur einhleypra foreldra býr við efnislegan skort og ríflega sex af hverjum tíu einhleypum mæðrum gætu ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum samkvæmt rannsókn Vörðu á vinnumarkaðnum. Andleg heilsa ungra kvenna og einhleypra mæðra er auk þess áberandi verri en annarra hópa en ríflega helmingur þeirra býr við slæma andlega heilsu.

3. Efla þarf heilbrigðiskerfið
Ljóst er að heilbrigðiskerfið á Íslandi stendur á brauðfótum. Almenningur hefur lengi kallað eftir að kerfið geti mætt þörfum landsmanna með sama hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að ríkisstjórn Íslands bregðist nú þegar við mjög örum samfélagsbreytingum sökum stóraukinnar eftirspurnar eftir heilbrigðisþjónustu vegna fjölgunar landsmanna og fjölda ferðamanna. Ekki hafa verið þróaðir innviðir til að mæta aukinni umönnunarþörf og kröfum um betri þjónustu. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru heilbrigðisútgjöld á Íslandi af vergri landsframleiðslu undir meðaltali aðildarríkja OECD og hafa verið það frá árinu 2010. Sameyki krefst þess að ríkisstjórnin efli heilbrigðiskerfið til að mæta þjónustuþörfinni með auknum fjárframlögum af vergri landsframleiðslu til kerfisins í samræmi við hin Norðurlöndin.

4. Tilfærslukerfin
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu lýsir ánægju með að ríkisvaldið hyggist efla tilfærslukerfin sem skorið hefur verið niður í með markvissum hætti undanfarin ár. Tilfærslukerfin þjóna þeim tilgangi að létta undir ungum fjölskyldum með barnabótum, tekjulágum með vaxtabótum og húsnæðisbótum o.s.frv. Sameyki varar við að stjórnvöld auki álögur á launafólk með hækkun opinberra gjalda til að mæta útgjöldum til eflingar tilfærslukerfanna. Þá krefst Sameyki þess af ríkisstjórninni að tilfærslukerfin verði fjármögnuð með hækkunum á veiðigjöldum, annarri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar og með hækkun á bankaskatti.

5. Auðlindir í þjóðareign
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu áréttar að auðlindir eigi að vera sameign þjóðarinnar og tryggja beri það með skýrari hætti í stjórnarskrá. Þá er mikilvægt að eðlileg gjöld séu greidd fyrir nýtingu þeirra.

Sameyki krefst þess að innviðir raf- og vatnsveitu verði alfarið í eigu íslensku þjóðarinnar en ekki útlendra fjárfesta eða vogunarsjóða sem hafa það eitt að markmiði að hagnast og skila arði til eigenda sinna. Það hefur sannast að kostnaður við að verja mannvirki og rekstur orkufyrirtækja þegar náttúruvá steðjar að lendir á almenningi í landinu. Á meðan ríkissjóður greiðir milljarða króna í varnargarða á Reykjanesskaga greiðir einkafyrirtækið HS Orka eigendum sínum milljarða króna í arðgreiðslur. Slíkt fyrirkomulag er óásættanlegt fyrir launafólk og almenning á Íslandi.

6. Húsnæðis- og vaxtamál
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni á húsnæðis- og húsnæðislánamarkaði. Sameyki kallar eftir skýrum aðgerðum sem tryggja stöðugleika til framtíðar á húsnæðismarkaði og að þegar í stað verði farið að vinda ofan af umdeildum stýrivöxtum hins opinbera.

Húsnæðismál eru eitt af stærstu kjaramálunum. Stjórnvöld verða að axla sína ábyrgð á að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði eins og stéttarfélög í landinu hafa kallað eftir undanfarin ár. Auk þess verða stjórnvöld og tryggja að allir íbúar landsins hafi þak yfir höfuðið á viðráðanlegum kjörum.


7. Fólk með fötlun er fjölbreyttur hópur, með ósýnilega eða sýnilega fötlun
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu vill vekja athygli á bágri stöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Mikilvægt er að styðja atvinnuþátttöku en mjög erfitt hefur reynst fyrir fatlað fólk að fá vinnu við hæfi og getu. Stór hluti þess býr við sára fátækt og hefur af þeim sökum ekki tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi til jafns við aðra eða að styðja börn sín til þátttöku í tómstunda-, félags- og eða íþróttastarfi. Þetta ýtir undir enn frekari stéttaskiptingu sem hefur farið vaxandi umliðin ár.

Í því tilliti er sérstaklega mikilvægt að huga að húsnæði. Aðgengi að öruggu og heilnæmu húsnæði er ein af grunnforsendum þess að skapa velsældarsamfélag. Aðgengi að húsnæði eitt og sér dugar þó skammt ef byrði húsnæðiskostnaðar er of þung eins og er í tilviki fatlaðra einstaklinga sem ekki njóta annarrar innkomu en lífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Sameyki brýnir fyrir stjórnvöldum að bæta hag fatlaðs fólks til jafns við aðra.

8. Fátækt í boði stjórnvalda
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu telur mjög brýnt að gera róttækar breytingar á ellilífeyri almannatrygginga, m.a. með því að draga úr skerðingu vegna tekna frá lífeyrissjóðum og taka sérstaklega á kjörum þeirra sem eru með lægstan lífeyri. Sé íslenska eftirlaunakerfið borið saman við það danska og hollenska, sem eru sambærileg kerfi, sker það íslenska sig úr fyrir gríðarlegar tekjutengingar.

Af þeim rúmlega 40.000 manns sem taka ellilífeyri frá TR eru um helmingur með lífeyri sér til framfærslu undir lægstu launum. Skerðingu er beitt með sama hætti gegn þeim sem eru með 70.000 kr. frá lífeyrissjóðum og þeim sem hafa 570.000 kr. eða meira. Engin lágmarksframfærsla er tryggð. Núverandi kerfi býr til og viðheldur fátækt og krefst Sameyki aðgerða; að stjórnvöld hverfi frá stefnu sinni sem stuðlar að fátækt eldri borgara.

• Tryggja þarf að lágmarkslífeyrir sé aldrei lægri en lægsti launataxti og tryggja að hann fylgi launaþróun.
• Draga þarf úr skerðingu vegna tekna frá lífeyrissjóðum.
• Árlegar hækkanir lífeyris og frítekjumarka eiga ávallt að fylgja launavísitölu.

Til að ná fram breytingum á kjörum eldri félagsmanna sem komnir eru á eftirlaun er nauðsynlegt að stéttarfélögin líti á þeirra baráttu sem sína eigin.

 

Eldri ályktanir Sameykis má sjá hér.