Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

23. ágúst 2024

Okurvaxtastefnu viðhaldið

Ályktun stjórnar Sameykis vegna stýrivaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og aðgerðarleysis ríkisstjórnar Íslands.

Stjórn Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu samþykkti í dag ályktun vegna ákvörðunar Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands 21. ágúst sl.

„Stjórn Sameykis lýsir yfir verulegum vonbrigðum með ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25 prósent. Efnahagsstefna nefndarinnar með stuðningi ríkisstjórnarinnar, að halda stýrivöxtum óbreyttum, hefur alvarlegar afleiðingar fyrir almenning í landinu. Ríkisstjórn Íslands ber ábyrgð á þessum aðgerðum sem hafa valdið þjóðinni skaða í gegnum hátt vaxtastig á húsnæðislánum, skorti á íbúðum fyrir almenning og háu verðlagi á húsnæðis- og neytendamarkaði.

Stjórn Sameykis gagnrýnir harðlega þá stefnu ríkisstjórnarinnar að standa vörð um að okrað sé á almenning með þessari skaðlegu okurvaxtastefnu Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Ný gerðir kjarasamningar höfðu það að markmiði að kveða niður verðbólguna. Launafólk samþykkti að taka þátt í því verkefni með hófsömum launakröfum. Nú hafa hafa stjórnvöld og Peningastefnunefnd sýnt fram á að þeim var ekki alvara.

Nú blasir við að bæði forystufólk seðlabanka Íslands og ríkisstjórn Íslands ætla sér ekki að vinna á verðbólgunni, heldur ástunda verðmætaflutning í stórum stíl úr vösum launafólks yfir í veski auðmanna og í féhirslur banka og lánastofnana. Stærsti óvissuþátturinn í efnahagslífi þjóðarinnar eru Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn landsins. Skýringar Peningastefnunefndar um nauðsyn viðvarandi okurvaxta eru ótrúverðugar. Þær skýringar tala þvert ofan í staðreyndir úr síðustu mælingu Hagstofu Íslands á ársverðbólgu þessa árs sem mældist 6,3 prósent og án húsnæðisliðs 4,2 prósent.

Stjórn Sameykis skorar á stjórnvöld að standa við gefin loforð við gerð síðustu kjarasamninga að vinna að stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir almenning í landinu og „[...] að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.

Sameyki mótmælir bæði aðgerðaleysi og okurvaxtastefnu stærstu örlagavalda í velferð launafólks og efnahagslífi þjóðarinnar. Sameyki krefst þess að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og ríkisstjórn Íslands fari að vinna að hagsmunum almennings og láti af lítilsvirðandi kenningum um að Íslendingum sé í blóð borið að búa við óhefta verðbólgu.“


Stjórn Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu